26.1.10

Hvenær á maður kvóta ?

Á Útvarpi Sögu meðan ég hljóp í dag var einhver gaur að jagast um kvótakerfið. Hann á ekki kvóta, sagði hann, heldur bara félag með konunni sinni, sem á kvóta, og hann er í vinnu hjá félaginu við að veiða þennan kvóta og fær 220 þús. á mánuði (það er þetta algera lágmark sem er gert ráð fyrir að einyrkjar reikni sér sem reiknað endurgjald), og lifir góðu lífi á tvöhundruðkallinum, sagði hann! Svo leigir hann, nei fyrirgefið, félagið, reyndar út einhverja kvótalús líka.

Þessi ekki-kvótaeigandi er auðvitað alveg á móti því að hróflað sé við kerfinu. Þegar honum var bent á að útgerðarfyrirtæki nokkurt hérlendis gæti borgað útlendingum 65 kr. fyrir kg. af fiski sem væri veiddur einhvers staðar langt í burtu í lögsögu annars ríkis sagði hann að það væri augljós skýring á því, við þær veiðar væru eintómir útlendingar sem fengju ekki borgað nema einhverja lágmarkstryggingu og smáhungurlús í viðbót, svo kostnaður væri sáralítill. Þáttastjórnendadruslurnar föttuðu auðvitað ekki að spyrja hann hvort þau laun væru nokkuð verri en tvöhundruðkallinn sem félagið hans rausnaðist til að borga honum.

Hvað ætli þessi gaur og félagið hans greiði annars til samfélagsins, þegar líka er búið að draga frá sjómannaafsláttinn?

Web Counter

1 Comments:

At 03 febrúar, 2010, Anonymous Nafnlaus said...

Rónarnir koma óorði á brennivínið. Það er eins með kvótakerfið, þegar hægt er að misnota það þá eru auðvitað alltaf einhverjir sem gera það. Leikreglurnar eru svona og menn fara eftir þeim. Það eru margir, mjög margir sem gera út að gera góða hluti og greiða mikið til samfélagsins. Ég þekki það úr mínum heimabæ. Margt má líka segja um það þegar stjórnvöld eru að reyna að plástra í götin eins og t.d. með þessari svokölluðu "strandveiði" sem sett var á s.l. sumar. Þá flykktust þeir, sem voru búnir að selja sinn kvóta og áttu báta án aflaheimilda út á sjó. Þessir menn eru ekki að reyna að halda uppi atvinnu árið um kring heldur fleyta rjómann.
Og svo varðandi sjómannaafsláttinn þá hlítur það sama að gilda um sjómenn og t.d. ríkisstarfsmenn sem eru fjarri heimili sínu að þeir eigi rétt á einhvers konar dagpeningum, sjómannaafslátturinn var settur á sínum tíma til að koma til móts við menn/konur sem voru fjarri heimilum sínum, hann er 987 krónur á dag en ríkisstarfsmenn fá 8.700 í fæðispening hvern dag sem þeir eru að heiman. Hvaða réttlæti er í því?
Kv.
Kalli.

 

Skrifa ummæli

<< Home