Gamla Melahúsið - 8
Þegar ég sá allar fallegu myndirnar hennar Lilju á Melum á Feisbókinni hennar Signýjar áðan ákvað ég að fresta frekari þrifum á eldhúsinu en ljúka þess í stað ferð minni um gamla húsið okkar á Melum. Ég gerðist svo djörf að stela einni mynd, af Sigga, Lilju, Nonna og Signýju með umrætt hús í baksýn og birta hér.
Það var bara eitt herbergi eftir, suðríherbergi eins og það var kallað, en það var í suðausturhorni hússins, inn af stofunni. (Takið eftir þessari markvissu og skemmtilegu áttanotkun okkar Melamanna.)
Þegar ég man fyrst eftir var þetta herbergi bræðra minna. Pabbi og mamma sváfu með okkur stelpunum í herberginu norðurí (í norðvesturhorninu). Seinna gerðu pabbi og mamma herbergið að sínu (þegar pabbi fjárfesti í svefnherbergissettinu sem áður hefur verið minnst á) og Didda var inni hjá þeim fyrstu árin. Ég held að Gústi hafi þá flutt í stofuna (svefnsófann). Himmi var þá nokkurn veginn alveg farinn að heiman.
Eitt var sérstakt við suðríherbergið. Þar var innbyggður skápur, ekki stór, tvískiptur með tveimur hurðum, hangandi föt öðrum megin og svo hillur fyrir samanbrotið hinum megin. Ég man þegar efsta hillan þar fór allt í einu að fyllast af litlum flónelstreyjum og smábarnasængurfötum. Þá gekk mamma með Diddu en minntist ekki á það einu orði við okkur allan tímann!
Fyrir utan litla skápinn á ganginum var þetta eini fataskápur fjölskyldunnar. Það er mér eiginlega hulin ráðgáta, en einhvern veginn komust fötin okkar þarna fyrir. Samt var alltaf verið að sauma kjóla á kvenþjóðina. Á móti kom að pabbi átti ekki mörg sett af sparifötum - ég man eftir einum brúnum sem hann átti býsna lengi. Og eina spariskó lét hann sömuleiðis duga mörg ár. Þá kallaði hann alltaf "blankskó" (ekki með á-framburði á a-inu) hann sagði líka "tankur" með sama framburði. Það var eina vestfirskan okkar, ef það var það þá.
Fyrir ofan fataskápinn voru efri hólf sem náðu upp í loft og þar voru geymdar miklar gersemar. Fyrst ber að nefna jólaskrautið (líklega þess vegna sem ég geymi mitt jólaskraut í efri skáp í svefnherberginu); skrautið á jólatréð, serían (sem entist ótrúlega lengi) og allt loftskrautið (sem ég hef lofsungið áður). Þarna voru líka geymd fallegustu jólakortin sem við höfðum fengið, t.d. þetta svarta með gylltu og hvítu englunum sem amma sendi mér einni af því ég var svo dugleg að hjálpa henni þegar hún var hjá okkur þá um sumarið. Þarna var líka gamalt dót sem mamma átti, t.d. myndir frá því hún var í Reykjaskóla, saumamynsturbækur og nokkur hefti af tímaritinu "Stjörnur" sem mér fannst mjög gaman að glugga í. Þetta ágæta tímarit hef ég hvergi rekist á annars staðar og er til efs að eintök séu til af því á Landsbókasafni. Það væri gaman að gá hvort Bragi á eitthvað af því.
Ég var svo lítil þegar strákarnir höfðu herbergið að minningin um það er óljós. Þó man ég eftir skrifborði, gömlu og lúnu. Býst við að það hafi verið keypt á uppboði, nema það hafi verið úr búi afa og ömmu. Skrifborðið var fullt af gömlum bókum, sumum dálítið brunnum á jöðrunum eftir smábruna sem varð víst einhvern tíma í gamla bænum á Melum, líklega í tíð langafa, er þó ekki alveg viss. Svo man ég eftir dívani sem Gústi svaf á og einstöku sinnum fékk ég að sofa hjá honum. Man í eitt skiptið að Gústi spurði mig: "Finnst þér gott að hafa hátt undir hausnum?" Mér fannst það ágætt en þorði ekki annað en segja að mér þætti það alls ekki gott því Gústi hafði verið svolítið tregur til að leyfa mér að sofa inni hjá sér. "Mér finnst það gott. Þá fæ ég koddann þinn," sagði Gústi, og ég svaf koddalaus þá nótt, og kannski fleiri.
Kannski var það þá sem Gústi leiddi mig í sannleikann um það hvor væri merkilegri kall, Kennedy eða Krústsjoff. Fram að því hafði Kennedy verið minn maður, aðallega fyrir Jackie og börnin, en Gústi fullyrti að Krússi væri miklu máttugri, hann gæti til dæmis kveikt tvisvar sinnum á sömu eldspýtunni! Það hafði reynst mér ómögulegt, hvað sem ég reyndi, kannski fyrir áeggjan Gústa, svo að ég lét sannfærast. Krústsjoff var örugglega meiri maður en Kennedy.
Læt ég þá hringsóli mínu um gamla Melahúsið lokið.
7 Comments:
Skemmtilegar minningar úr kalda stríðinu...
Ólöf
Helga mín. Enn og aftur ástarþakkir fyrir þessi skemmtilegu skrif, ég fæ tár í augun. Ég man eftir skrifborðinu (púltinu) sem þú talar um og okkur fannst það mikill dýrgripur. Ég öfundaði strákana af að geta setið við alvöru púlt. Svo þegar þú minnist á Krútsjoff og Kennedý þá detta mér í hug stílabækurnar sem Gústi límdi myndir af stjórnmálamönnum og þjóðarleiðtogum þess tíma. Ætli þeim hafi ekki öllum verið hent? Takk, takk, takk.
Kveðjur frá Ínu
Ég man hvað mér fannst snyrtiborðið flott, og Helga ég man að þú sast stundum við spegilinn og greiddir þér og "pósaðir" eins og sagt er. :)
Takk frænka mín.
Þóra.
Einmitt, og lét mig dreyma um að kannski mundi gerast kraftaverk og ég yrði gjaldgeng í fegurðarsamkeppni þegar ég yrði stór. Sá reyndar svipað snyrtiborð á mynd af einhverri ungmennaíbúð um daginn, á heiðursstað.
Greate pieces. Kеep wrіtіng such kind of infoгmation on your blοg.
Ιm really impresѕed by уour site.
Hi there, Υou've done a fantastic job. I'll certainlу digg it
and for my part suggеst to my friends. I'm sure they'll
be benefited from thіs sіte.
Feel free to visit mу pаge - mediral hcg
I was suggested this webѕite by my cousin. I'm not sure whether this submit is written by him as nobody else realize such detailed about my trouble. You are amazing! Thank you!
Here is my web page: hcg solution
My page: hcg diet shots
Τhiѕ is reallу аttentіon-grabbing, You aгe
an ovегly ѕkіlled blοggег.
I haνe joined your feеԁ and look forwаrd to іn quest of mοre of your
gгeаt post. Αdditionallу, ӏ've shared your site in my social networks
Also visit my site hcg diet
Skrifa ummæli
<< Home