15.5.06

Þegar ég tók bílprófið

Það var árið 1988, í janúar eða febrúar. Ég fór að hugsa um þetta þegar ég keyrði úr IKEA um daginn og fór "Sundahafnarleiðina", fram hjá fallega klettinum. Við þann klett keyrði ég mína fyrstu metra (tel ekki með hjakkið þennan eina ökutíma í skrjóðnum hans Gunnars á Bálkastöðum þegar ég var í Reykjaskóla). Ég var mjög nervös þessa fyrstu metra og áfram þessa 30-40 tíma sem ég tók. Kennslan var ekki mjög góð, kennarinn var aðallega að hugsa um næstu utanlandsferð sína (fjármagnaða m.a. með seðlunum frá mér sem hann, lögregluþjónninn, stakk annars hugar ofan í brjóstvasann - engin nóta) og ýmis einkapróblem. Svo kom aðalsjokkið í prófinu, ég fékk "fallöxina" sem prófdómara. Hann spurði mig hvort kennarinn hefði ekki kennt mér á gírana. Þetta var líklega mesta niðurlægingarstund lífs míns en prófið fékk ég. Ég keyrði svo nær ekkert eftir þessa martröð fyrr en þegar ég fékk mér sjálfskipta Yarisinn minn 2001. Þá brá svo við að ég vandist akstri á fáeinum dögum.

Ég hef ekki getað varist þeirri hugsun hvort það tengist því að kennarinn minn forðum dó um svipað leyti úti í Svíþjóð - í bílslysi!

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home