10.10.06

Fegurðarviðmið á Melum 1

Allar mínar hugsanir virðast sprottnar af einhvers konar áreiti; ég sé eitthvað, les o.s.frv. og þá (en ekki fyrr) rifjast eitthvað upp fyrir mér. Þannig varð þessi umfjöllun um rautt hár til þess að ég fór að rifja upp fyrir mér hvað okkur heima hjá mér fannst fallegt í útliti fólks. Það skal tekið fram að allt mótaðist þetta mjög af skoðunum móður minnar. Hún var nefnilega ansi skoðanaföst á þessum árum og lá ekki á þeim þó að nú viðri hún skoðanir sínar sjaldan.

Fyrst er að nefna varir. Þær máttu ekki vera of þykkar. Við vorkenndum sumu fólki heil ósköp vegna þessa "sköpunargalla" sem fólk borgar stórfé fyrir hjá lýtalækni nú til dags. Sjálfsagt má rekja þennan smekk til þess að flestir í fjölskyldu minni voru og eru enn með mjög þunnar varir.

Konur máttu vera ljóshærðar og karlmenn líka en bara ef augnabrúnir þeirra voru dökkar (konur gátu bjargað sitúasjóninni með lit).

Rautt hár var óheppni, sérstaklega hjá karlmönnum, eiginlega mátti afskrifa þá strax bara vegna litarins. Rauðhærð stúlkubörn gátu lifað í voninni um að verða "kastaníubrúnhærð" með aldrinum, fyrir tilstilli skaparans eða hárgreiðslufólks.

Fallegustu karlarnir voru háir, grannir og dökkhærðir. Það jók enn þokka þeirra ef röddin var falleg. Einum karli gat mamma hér um bil fyrirgefið að vera næstum albínói af því að hann hafði svo fallega rödd í síma.

Fólk mátti ekki vera mjög rauðbirkið (ég tók ekki mark á þessu við makavalið).

Gleraugu voru mikil óprýði á fólki, sérstaklega konum. Ég man eftir hjónum sem komu einhvern tíma í heimsókn og ég vorkenndi karlinum heil ósköp að þurfa að burðast með þessa glereygðu konu. Líklega voru gleraugun í því tilviki þó óvenju ljót.

Konur skyldu ekki vera hávaxnar. Engan skyldi undra þessa skoðun í fjölskyldu þar sem konur halda sig undir og rétt ofan við 160 sentimetra, og karlarnir litlu hærri sumir.

Á þessum árum var megurðardýrkunin ekki komin á sama stig og nú er. Við pældum ekkert rosalega mikið í því hvort fólk væri grannt eða feitt. Það var auðvitað slæmt að vera afmyndaður af spiki en andlitsfríðleiki gat jafnað aukakíló furðu vel upp. Þegar ég kynntist tengdafjölskyldu minni fann ég fljótt að þar var þessu öfugt farið; meira var pælt í vaxtarlagi en andlitsfegurð. Ég ætla ekkert að útskýra það nánar.

Það er gaman að bera þessar fegurðarhugmyndir saman við þær sem nú eru ráðandi. Eru annars margar rauðhærðar karlhetjur í bókmenntunum (fyrir utan Gretti auðvitað)?

Web Counter

10 Comments:

At 10 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Hahahahaha, ég er hissa að amma hafi ekki skilað mér þegar mamma og pabbi sáu ekki til, albínóanum atarna ;) Ég tel að ofurblíð, róleg og sefandi röddin hafi reddað mér *hóst*. Ekki hafa augabrúnirnar dökknað enn, en jú þeim er reddað með lit, þó letin við slíka litun sé gríðarleg.

Takk fyrir pakkann elsku frænka, hann barst í dag og þetta mun sko alveg örugglega koma sér einstaklega vel! :?*

Kveðja til allra,
Birna

 
At 10 október, 2006, Blogger Helga said...

Ljóshærðum stúlkuenglum eins og hún átti fullt af, þeim var auðvitað ekki skilað. Þetta átti fyrst og fremst við um fullorðna karla.
Njóttu vel þessara mánaða með litlu fjölskyldunni. Ég man hvað mér fannst þetta yndislegur tími með mínar tvær litlar...

 
At 11 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Hihihi, skemmtileg lesning. Mér finnst einmitt rautt hár svooo gasalega smart í dag. Eins og mér fannst þetta allt annað en smart þegar ég var lítil stelpa. Vorkenndi alltaf greyið börnunum með rauða hárið og freknurnar. Og tala nú ekki um ef þau voru líka með gleraugu! Vona að haldist sem lengst gilti liturinn í snáðanum mínum, mér finnst það æði!

 
At 11 október, 2006, Blogger Kristin Bjorg said...

Þetta er fyndið! Talandi um varir þá byrjaði ég ekki að varalita mig fyrr en ég var komin mjög hátt á þrítugsaldurinn - mér þóttu varir mínar svo þykkar. Og hvað þær gátu hlegið að þessu vinkonur mínar. En heyrðu - nú vill sú eldri ekki nota gloss af því hún hefur svo stórar varir.......
Eitt sinn voru hjón að ættleiða stúlkubarn eitt fallegt. Þegar fréttist að XogY hefðu fengið fallega rauðhærða stúlku spurði kona nokkur hvort þau hefðu vitað það fyrirfram...sönn saga.
Ég tala oft um hvað mér þótti leiðinlegt að vera myndarleg - ég vildi vera sæt. Og enn fer þetta í mig þegar önnur dóttir mín er sögð myndarleg en hin sæt - gettu hvor er sögð hvað!
Þegar sú eldri fæddist og mamma kom til mín á fæðingardeildina þá sagði ég við hana að hún væri rauðhærð - voða glöð. Þegar mamma var síðan búin að líta á barnið þá varð henni að orði að ég sæi nú bara það sem ég vildi sjá...

 
At 12 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Kæra systir!
Jú hvort maður kannast ekki við þetta allt saman. Þetta síaðist allt inn og margt af þessu situr sjálfsagt í manni enn þá. Sumt af þessu kann kannski að vera í ætt við smá fordóma....
En mikið óskaplega er nú gaman að "hitta ykkur" allar frænkurnar héran nær daglega. Annars held ég kæra systir að þú þurfir nú að fara að gera eitthvað meira með þessa frábæru rithæfileika þína. Hvernig væri nú að frænkurnar kæmu með hugmyndir að titli nýrrar bókar eftir Helgu Jónsdóttur frá Melum. Þórir kemur með fyrstu uppástunguna, Melar hér áður fyrr. Kalli styngur upp á "Margt býr í þokunni" eða "Tíðarfar á túndrunni".
Látum þetta gott heita úr faðmi fjalla blárra.
Kveðjur og kossar,
Didda.

 
At 16 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Hugsa sér þá að vera hálfgerður glókollur með hvítar og nánast ósýnilegar augabrúnir. Ætli það sé þess vegna (en ekki gáfnanna eins og ég hélt alltaf) sem mamma þín vildi alltaf gera mig að presti???

Kveðjur frá London,
Reynir Þór

 
At 16 október, 2006, Blogger Helga said...

Kannski tengist þetta með rauða hárið þeirri lífseigu trú bókmenntanna, kannski kynþátta Norðurhvelsins, að rauðhærðar persónur séu hættulegar. Ekki bara konur, hvað eru margir prakkarar barnabókanna rauðhærðir? Svo fær þetta alltaf stuðning af og til í veruleikanum, samanber Kollsárbræður. (Reyndar held ég ekki að mamma hafi óttast að þú yrðir neinn Grettir, Reynir minn, og bara fundist þú heilmikið krútt.)

 
At 16 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Var ekki Hrói höttur örugglega rauðhærður?

 
At 16 október, 2006, Blogger Helga said...

Þú manst það örugglega betur en ég, ég hef ekki sett litinn svo á mig. Svo þótti auðvitað grænt fara svo vel við rautt hérna í gamla daga, og öfugt... hefur háraliturinn kannski komið á eftir búningnum? Þýðir annars ekki Robin rauðbrystingur? Kannski hann hafi bara verið fugl? (Er ekki einhver táknfræðingur eða þjóðfræðingur löngu búinn að sjá það?)

 
At 17 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Sú stutta er annars rauðhærð, er mér sagt, en ég var barasta í afneitun á það. Sé það svo greinilega nú og gleðst mjög yfir því.
Ju, eitthvert fiðurfé ber einnig þetta nafn. Rjúpan?

 

Skrifa ummæli

<< Home