7.11.06

Dýrasögur

Hámark dvalarinnar fyrir norðan var tvímælalaust sameiginlegur kvöldverður okkar á Melum 1 og 2 á þrítugsafmælisdegi Harðar frænda míns. Hörður bauð þessar líka stórfenglegu gæsabringur, en kjöt fugla af anda-, gæsa- og hænsnaætt er einmitt uppáhald okkar hér á Kvisthaganum. Þökkum kærlega fyrir okkur.

Þarna um kvöldið bárust dýrasögur í tal, og ég nefndi við stelpurnar (Ínu og Elsu þ.e.a.s.) bókina Lundurinn helgi eftir Björn Blöndal sem er full af sögum um vitrar skepnur sem elska vini sína ákaflega en eiga það til að hefna sín á vondu fólki. Ég rek kannski eitthvað af þessum sögum seinna. En í framhaldi af þessu fór ég að rifja upp helstu karaktera Mela í æsku minni af húsdýrataginu. Hér er svolítill listi, röðin ræðst nokkurn veginn af því hversu eftirminnileg skepnan er mér:

1. Kraga hennar Þóru. Svört, hyrnd ær með hvítan kraga. Ótrúlega spök allan veturinn og elsk að börnum en umhverfðist þegar hún var búin að bera. Hægt að ganga að henni og klappa henni þegar hún koma af fjalli á haustin.
2. Litfari - hestur sem pabbi átti. Hann var gamall og latur og því gjarnan settur undir börn. Hastur og skíthræddur við mýrar, læki og skurði frá því hann lenti í mýrarfeni á yngri árum. Melabræður voru ekki miklir reiðkennarar og létu okkur krakkana yfirleitt hossast á sömu hestunum (truntunum) alla tíð nema við sýndum einhver tilþrif í hestamennsku.
3. Mógolsa mín - man hana af því að hún var mín kind og átti tvær gimbrar, mórauða og hvíta, síðasta vorið sitt. Móra varð kind mín númer 2.
4. Kátína - kind Ingunnar. Meistari í stökki og nafnið dregið af því.
5. Gráni Jónasar - góður og þýður hestur, skeiðaði stundum ef ég man rétt.
6. Búkolla - kýr sem pabbi átti. Gæf, gömul og rólynd og með stærsta júgur allra kúa á Melum. Mjólkaði mikið en mjólkin ekki feit - þætti líklega gott núna.
7. Hyrna - kýr sem pabbi átti, við vorum hrædd við hana vegna hornanna.
8. Surtla - stór og feit svört hæna sem átti að heita að ég ætti. Hún slapp einu sinni inn í garðinn hennar mömmu en ég ákvað að leyfa henni að vera þar af því að þetta var mín hæna. Fékk litlar þakkir fyrir.
9. Toppa - hæna Ingunnar. Um hana orti Ingunn: Toppa bjáni liggur á/gaman sjá. (Kannski varð hún, þ.e. Toppa, eftirminnileg þess vegna.)
10. Strútur - hundur pabba, man aðallega þegar hann dó eftir að Hafsteinn á Fögrubrekku keyrði yfir hann, og við systurnar urðum ægilega sorgmæddar. Hann var svartur og hvítur, kynið líklega að mestu leyti íslenskt.
11. Snati - arftaki Strúts. Heldur leiðinlegur hundur og gat jafnvel glefsað í krakka. Það spillti reyndar fyrir öllum kærleik okkar á hundum að mamma var alltaf skíthrædd um að við fengjum af þeim sullaveiki og að þeir bitu okkur. Sömuleiðis var hún hrædd um að hestar slægju okkur og það hefur kannski átt sinn þátt í að við urðum ekki mikið hestafólk sjálf, systkinin. Mig minnir að Ingunn sé höfundur þeirrar kenningar að Lilla hafi borið hestaáhugagenið úr pabba yfir í Hallveigu.

Web Counter

4 Comments:

At 08 nóvember, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Já þetta var velheppnaður matur og lærið líka! þegar þú minnist á Krögu rifjast upp þegar við Krummi reyndum að sækja hana nýborna en enduðum uppi á brúsapallinum og pabbi varð að koma og bjarga okkur hún renndi í hann líka. Ég man ekki nógu vel hvað pabbi þinn fann upp mörg nöfn á ærnar þegar Jón á Kjörseyri var í einhverri skráningu hjá honum en "helvítis stökkkvikindið" er eitt þeirra vonandi muna aðrir fleiri góð.
Elsa

 
At 08 nóvember, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er óborganleg upprifjun elsku frænka mín, ég átti hornin af henni Krögu minni til 19 ára aldurs held ég.
Kveðja til allra.
Þóra

 
At 08 nóvember, 2006, Blogger Helga said...

Sælar, frænkur mínar. Ég er nú samt viss um að hún Ingunn man best þennan "dýragarð" allan. Hún var svo mikið svoleiðis.

 
At 10 nóvember, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Ég tek undir með systrum mínum og þakka fyrir skrifin.
Mér datt í hug þegar við vorum að sækja kýrnar út á Eyrar, með kríuna brjálaða yfir höfðum okkar og Búkollu seinrekna. Þóttumst hafa bjargast úr lífsháska eftir þessa ferð.
Já og enn og aftur þakkir fyrir skemmtilegt kvöld á laugardaginn.
Ína frænka.

 

Skrifa ummæli

<< Home