Hin heimilisstörfin hans pabba
Ég tími varla að splæsa þessari frásögn núna, hún ætti kannski betur heima nær jólum, en glimrandi undirtektir lesenda og hvatning fær mig til að láta hana vaða núna.Kannski væri "hitt heimilisstarfið" betur við hæfi því ekki sinnti hann faðir minn mörgu innanstokks. Þó var eitt embætti sem hann hafði, ábyrgðarmikið og að sínu leyti kannski jafn háskalegt og saftbirgðavarslan. Það var hreinsun ljósakrónunnar í stofunni. Það starf fór alltaf fram einhvern allra síðustu daganna fyrir jól. Ef eitthvað mikið stóð til, fermingarveisla eða slíkt, fór fram aukahreinsun.
Þetta byrjaði eins og saftbirgðavarðarstarfið, með því að sækja stólkoll. Síðan steig karl upp á kollinn og skrúfaði (held ég) perurnar úr til að ná ljósaskálunum frá. Síðan voru skálarnar réttar okkur kvenpeningnum, ofurvarlega, og við fórum með þær inn í eldhús þar sem við þvoðum af þeim ryk, flugnaskít og önnur óhreinindi og þurrkuðum svo, allt ofurvarlega, það fylgdi þessu ægilegur spenningur og hræðsla um að einhver skálin brotnaði. Svo kom pabbi öllu fyrir aftur og þá var ljósakrónan orðin óskaplega fín og ljósið af henni miklu bjartara, kannski líka vegna þess að hann notaði tækifærið og skipti um peru um leið.
Enn hangir þessi ljósakróna uppi, nú í Bólstaðarhlíð í Reykjavík, og allar "skálarnar" óbrotnar en kannski ein örlítið sprungin.
Einhver heggur kannski eftir því að við konurnar þvoðum og þurrkuðum. Samt erum við öll, sem hlut áttum að máli, örugglega sammála um að það var pabbi sem þreif ljósakrónuna fyrir jólin.
Önnur heimilisstörf - held að hann hafi saltað kjötið á haustin, samt ekki alveg viss.
6 Comments:
Ja hérna, þetta er dásamleg lesning, ég get svarið að ég man ekki eftir að pabbi tæki þátt í svona vandasömum verkum, reyndar einhver stigaræfill sem lá upp á loft svo það hefur sennilega verið nokkuð fær leið þangað. Mitt minni er heldur ekki svo gott, systur mínar muna betur en ég hvað ég gerði hvað þá heldur annað. Eitt man ég þó þegar við systkinin vorum öll farin að heiman og komum heim á svipuðum tíma í páskafrí þá lá karl faðir okkar á hnjánum og skúraði baðherbergisgólfið. Þetta vakti mikinn hlátur hjá okkur systrum. Er að fara norður á morgun höldum áfram að smíða!!! Ástarkveðjur, Elsa frænka
Tek undir með stóru sys dásamleg lesning. Ég man eftir því að við földum tóbakið hans pabba á aðfangadagskvöld en hann náði altlaf að múta okkur með amerísku tyggjói. Nú svo vaskaði pabbi alltaf upp á aðfangadagskvöld og mig minnir að Krummi hafi þar verið til aðstoðar, gæti það ekki passað? :) :)
Gleymdi að kveðja :)
Þóra Jónasar
Veit ekki hvort er viðeigandi að við systur notum bloggið hennar frænku okkar við þessa upprifjun en hún byrjaði! trúlega er þetta rétt með aðstoð þeirra feðga við uppvask (finnst samt að ég hafi oftast staðið í því)eina skipti ársins sem bróðir okkar var í svoleiðis verkum, hann notaði það sem dæmi um sinn þátt,þegar við stældum um að hann væri aldrei í inniverkunum en við þyrftum að djöflast í flögunum við að tína grjót sem var nóg af!! Reyndar er það allra leiðinlegsta verk sem ég man eftir á æskuárum þessi grjóttínsla...
Elsa Jónasar
Kæra systir.
Þar sem ég er nú 11 árum yngri en þú og var meira og minna fram eftir öllum aldri heima á Melum, þá verð ég að koma því að hér að hann karl faðir okkar var nú orðinn ansi liðtækur við uppvaskið þessi síðustu búskaparár. Ég á meira að segja mjög fína ljósmynd af honum þar sem hann er á hvíta nærbolnum og stendur sveittur við eldhúsvaskinn.
Kveðjur,
Didda.
Frábærar sögur, elsku frænka! Alltaf gaman að heyra Melasögur! Og ég verð að taka undir með Elsu að steinatínsla í flögum sé leiðinlegasta starf sem ég hef sinnt. Bestu kveðjur úr stórborginni!
Skrifa ummæli
<< Home