13.10.06

Vatnslitir

Ég er búin að vera á listiðkunartrippi í nokkra daga, eftir að septembertörnin fjaraði út. Þetta byrjaði þannig að við Óli fórum í göngutúr niður í bæ og skutumst aðeins inn í Eymundson. Þar var á tilboði bók sem kennir manni að mála með vatnslitum. Ég keypti bókina og fór svo seinna og keypti alvöru pensla. Litir voru til hér sem Stínu ákotnuðust fyrir nokkrum árum frá stúlku sem var hætt að nota þá. Slíkir litir kosta 3-5000 kr. í Eymundson. Nú er ég búin að mála tvær myndir eftir fyrirsögn bókarinnar og er sérstaklega ánægð með þá síðari, sem er uppstilling með piparkvörn, lítilli könnu, appelsínu og tveimur mandarínum. Ávextirnir heppnuðust ótrúlega vel miðað við byrjandaverk.

Auðvitað kallaði þessi iðja fram endurminningar. Einu sinni tóku Ingunn systir og Nonni frændi upp á því að fá heiftarlega ælupest, bara þau tvö. Þetta þótti mæðrum þeirra grunsamlegt því ælupestir fóru yfirleitt um allan Melaskarann eins og hann lagði sig, ekki bara einn eða tvo krakka eins og þarna. Þá rann allt í einu upp ljós fyrir þeim. Ég hafði fengið vatnsliti frá Borðeyri og strax byrjað að fikta eitthvað með þá (tek fram að ég kunni ekkert þá, enda ekki með bók, heldur notaði litina eins og Hitler ku hafa gert, makaði þeim þykkt á eins og olíulitum, en lét þá ekki fljóta eins og þau okkar sem lengra erum komin gerum). Ingunn og Nonni prófuðu litina eitthvað líka en misstu fljótt áhugann. Hins vegar komust þau strax að því að það var sætt bragð af litunum og fengu sér vænan slurk. Við hin höfðum ekki smekk fyrir þetta "sælgæti" og það var skýringin á þessari tveggja manna pest.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home