13.3.08

Ný göng og tvöföldun

Þegar ég sá ofangreinda fyrirsögn í 24 stundum í morgun gat ég ekki stillt mig um að senda eftirfarandi póst til frægs fjölmiðlamanns:

Sæll og blessaður.
Ég sendi þér póst um daginn um Hafnarfjarðar-hafnarbakkahryllinginn; mér eru sem sé umhverfismál hugleikin. Þau snerta mig reyndar líka persónulega. Þannig er að ég á sjötta part í þriðjungi jarðarinnar Mela í Hrútafirði og þar er Vegagerðin að breikka veginn fyrir neðan túnið vegna þess að gera á nýja brú yfir Hrútafjarðará nálægt Stað (sbr. Staðarskála) og færa alla umferð norður í land þarna vestur fyrir ána. Við erum svo sem ekki hrifin af því eigendurnir en getum ekkert gert til að sporna við þessu. Ef við neitum að afhenda land og efni í veginn er það bara tekið eignarnámi – og það þýðir enn lægri greiðslur en ella – en alltaf verða þær svo sem smánarlegar. En þá kem ég að sjálfu efninu: Vegagerðin virðist geta vaðið yfir allt og alla og er undanskilin öllu umhverfismati vegna þess að yfirleitt eru teknir fyrir stuttir kaflar í einu og ef þeir eru undir 10 km (minnir að það sé markið) þarf ekki umhverfismat! Það sem Vegagerðin gerir af sér í mínu tilfelli er t.d.:

Skerðir tún jarðarinnar. (Látum það nú vera)

Heldur áfram að taka efni úr melunum vestan við veginn og eyðileggja þá, en þetta eru líklega (eða voru) einhverjar greinilegustu menjarnar um fornan sjávarbakka frá ísöld sem sjást frá þjóðvegi á Íslandi.

Virðist vera að fjarlæga fallegan hól í landi jarðarinnar Fögru-Brekku, hann heitir Tjaldhóll, og þeir byrja á honum að vestan svo að eyðileggingin sést ekki fyrr en síðustu leifarnar hrynja niður (eða háspennustaurinn sem Landsvirkjun kom svo smekklega fyrir þarna um árið).

Vegurinn hlykkjast um eyrar og hólma á vatnasviði Hrútafjarðarár og enginn veit hverjar afleiðingarnar verða fyrir fuglalíf og fiskigengd.

Skoðaðu svo forsíðu 24 stunda í dag – tvöföldun Suðurlandsvegar: “Framkvæmdin þarf ekki að fara í umhverfismat og því ætti að vera hægt að keyra hana nokkuð hratt áfram”. Svo er sagt frá fjölmörgum stuttum köflum hér og þar sem á að fara í: “Þessar framkvæmdir þurfa heldur ekki að fara í umhverfismat og því hægt að ráðast í þær fljótlega til að mæta niðursveiflu í atvinnulífinu.”

Það er sama gamla sagan, skítt með umhverfið, verktakarnir ráða.

Svo er ein ályktun sem má draga af þessari frétt – við fáum sjálfsagt ekki Sundabraut í þessu lífi.

Web Counter

1 Comments:

At 14 mars, 2008, Blogger Þóra said...

Takk fyrir boðskortín kæra frænka, bæði tvö. Ég mæti í ferminguna.

Bestu kveðjur,
Þín frænka Þóra Ágústsdóttir

 

Skrifa ummæli

<< Home