13.5.08

Gamla Melahúsið 5 (þvottahúsið)


Þvottahúsið hefur sótt á mig að undanförnu, ekki síst eftir að ég rambaði um daginn inn á þátt á History Channel um sögu heimilistækja þar sem meðal annars voru teknar fyrir þvottavélar og -pottar.

Þvottahúsið var sem sé inn af eldhúsinu, í norður. Þetta var ekki stórt herbergi en rúmaði samt heil ósköp. Fyrst skal fræga telja þvottavélina. Þetta var ósjálfvirk vél sem þurfti að fylla af (heitu) vatni og þvoði með því að snúa spaða; held helst að hann hafi verið á einni hliðinni. Ætli einhver muni það? Hún var með vindu sem var handknúin. Á myndinni má sjá yngri systur vélarinnar heima, þarna sést í slönguna og vindan var felld niður í vélina þegar hún var ekki í notkun. Ég setti mig aldrei inn í gang þvottarins (þvottaferlið væri það líklega kallað núna), en sá að suðuþvotturinn fór bæði í þvottavélina og í þvottapottinn. Hvort var á undan veit ég ekki. Það fylgdi þessu mikil gufa og sull.

Þvottapotturinn var sameign Melaheimilanna þriggja. Þegar til stóð að þvo suðuþvott voru krakkar því sendir þangað sem potturinn var staddur þá stundina og látnir dröslast með hann "yfir", sem potturinn gat þakkað fyrir að var ekki löng leið. Í sláturtíðinni var svo soðið slátur í pottinum, svo þetta var mikið þarfaþing. Aldrei man ég eftir að yrðu árekstrar milli kvennanna út af þessari samnýtingu þvottapottsins og hefðu Melabræður mátt taka þær sér til fyrirmyndar með það, eins og margt annað. Potturinn entist alveg þangað til komu sjálfvirkar þvottavélar, fór reyndar eitthvað í viðgerð en var samt ótrúlega þolinn. Ein viðgerðin entist þó stutt því þar sem potturinn stóð við brúsapallinn, Binni nýbúinn að losa hann af kaupfélagsbílnum, þurfti presturinn endilega að bakka á hann. Ég held að Binni hafi tekið hann aftur suður í næstu ferð (þ.e.as. pottinn, ekki prestinn, en margir hefðu þó kosið að presturinn færi líka).

Í suðausturhorni þvottahússins var kassi með óhreina tauinu. Þar við hliðina, undir glugganum, stóð lágt borð, mig minnir að á því væru balar og bytttur og svoleiðis dót. Snagar fyrir vinnuföt voru á norðurveggnum og við vesturvegginn, upp við skorsteininn, var skelfing hússins númer eitt: olíuketillinn. Hann var gangsettur með rafmagni, átti held ég sjálfur að fara í gang samkvæmt hitastigi í stofunni, en stundum var straumurinn svo lágur að hann "hringdi" eins og það var kallað. Þá var ráðið að slökkva á öllum hellum á eldavélinni, taka straujárn úr sambandi o.s.frv. Stundum dugði það ekki og þá var hlaupið yfir og beðið að létta á þar líka. Ef biðin varð ógnarlöng gat komið "sprenging". Þá fór ketillinn í gang með látum og sótaði hressilega. Eins og gefur að skilja var móðir mín ekki hrifin af því. Það var um ketilinn sem Ingunn systir mín hóf hið ógleymanlega ljóð: "Ketill bjáni fer í gang/ Toppa gamla liggur á /gaman sjá." Því miður varð það ekki lengra, og fór fljótt út í aðra sálma, en sýnir þó vel hvernig við börnin persónugerðum þessa ógn.

Þvottahúsið var aldrei málað. Þar voru engar hillur, en margir snagar og naglar þar sem héngu t.d. kústar og skrúbbar, pokar með dóti og fleira. Gólfið var heldur óslétt og sums staðar sprungur í því. Í þvottahúsinu voru þvegin öll mjólkurílát, dröslað gegnum húsið eins og ég hef áður lýst. Mikill léttir hlýtur það að hafa verið fyrir mömmu þegar hún fyrst fékk sjálfvirka þvottavél, um það leyti sem Didda, sú yngsta fæddist, og ekki síður þegar hætt var með kýrnar ca þremur árum seinna. Ég man það alla vega vel þegar ég þurfti að hugsa um heimilið í dálítinn tíma 10 ára og komið var kvöld, búið að elda og ganga frá eftir kvöldmatinn, hvað það var ömurlegt að eiga þá helvítis mjólkurílátin eftir. Og hvað maður var feginn þegar þau voru loksins frá!

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home