16.9.09

Skotraufar

Þegar ég hljóp út á Nes í fyrradag (því það var hagstæðari hlaupaátt) staldraði ég aðeins við til að skoða húsið mitt sem nokkurn veginn er lokið við að byggja á mörkum Reykjavíkur og Seltjarnarness. Fyrst þurfti að rífa gamalt bárujárnsklætt timburhús sem stóð þarna. Ég veit ekki hvort það er rétt að annar hvor Bakkabróðirinn hafi byggt þetta hús okkar, víst er þó að þar er stórhuga maður á ferð. Flatarmálið er heilmikið og hæðirnar, sem sjást, tvær. Gætu verið fleiri neðanjarðar. Mér finnst líklegt að arkitektinn sé sá sami og teiknaði viðbyggingu Alþingishússins, svipuð notkun á grjóti. Norðurveggur hússins er nær allur úr því efni. Gluggi sýnist mér vera einn en annars eru á veggnum skotraufar, rétt eins og þær sem voru svo mikið í móð hjá höfðingjum erlendis á miðöldum, til að skjóta út um. Spurning hvort ekki er meiri hætta á að skotið verði inn um þessar.

Ég er alls ekki feimin við að skoða ný og höfðingleg hús í krók og kring, því ca. 99,99 prósent líkur eru á að ég eigi þau. Auðvitað dettur mér ekki í hug að skemma neitt - bæði afþví að ég á þetta og líka vegna þess að allt svona er tryggt og því lendir það bara á tryggingafélögunum - okkur - að borga. Þetta ættu þessir asnar með málninguna að hafa í huga.

Web Counter

1 Comments:

At 23 september, 2009, Anonymous Nafnlaus said...

Það kom víst fram í fréttum um daginn að það dekkar engin trygging tjón af völdum málningar sem slett er á hús en ef slett er á bíla þá dekkar kaskótrygging bifreiðar það tjón utan sjálfsábyrgðar að sjálfsögðu, þetta er samt ekki réttlæting á því að það sé í lagi að sletta málningu, það er betra að sletta skyri eins og mótmælandi Íslands Helgi Hóseason gerði um árið, og það má alveg setja matarlit í það ef menn vilja hafa einhvern annan lit á því.
Annars úr því ég er farinn að tala um Helga Hóseason er gaman að rifja upp textann þeirra Simma og Jóa um hann en þar segir "Hann notaði ekki búsáhöld en mótmælti í hálfa öld"
Kv.
Kalli.

 

Skrifa ummæli

<< Home