3.10.09

Lukkuriddarar

Mér hefur gramist það lengi að þurfa að horfa upp á alls konar lið vaða gegnum prófkjör flokkanna og þaðan inn á alþingi án þess að hafa til þess nokkra burði, og án þess að hafa nokkurn tíma verið orðað við flokkinn, hvað þá starfað í honum, fyrr en atvikin höguðu því svo að það vantaði allt í einu þægilega innivinnu. Sláandi nýleg dæmi eru Sigmundur Ernir Rúnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson. Það má bæta Ólínu Þorvarðardóttur við, þó að hún eigi sér reyndar fyrri brösótta sögu í sveitarstjórn.

Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig það sé fyrir trúa og dygga flokksmenn með sannfæringu og löngun til að láta gott af sér leiða á þingi eða í sveitarstjórn að horfa upp á þetta, kosningar eftir kosningar. Hlýtur þetta ekki að draga ósjálfrátt úr orku og metnaði "venjulegra" flokksmanna? Það ýtti líka við mér í dag þegar ég hlustaði á Auði Styrkársdóttur í þætti Hjálmars Sveinssonar lýsa því hvað þetta prófkjörsfyrirkomulag er ótrúlega vitlaust og ólýðræðislegt - enda hvergi til annars staðar en hér.

Ég fyrir mína parta vil miklu frekar að fólk veljist á framboðslista fyrir störf sín í pólitík eða á öðrum sambærilegum vettvangi en að hafa verið í sjónvarpi, jafnvel þó að þeir séu þokkalega sætir og rosalega hressir og ánægðir með allt og alla - þó aðallega sjálfa sig.

(Ein frétt gladdi mig, ótugtina, í morgun: John Cleese er orðinn blankur og þarf að fara að vinna.)

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home