14.10.05

Klukk

Ég roðna næstum, það er svo langt síðan ég var klukkuð Sú sem það gerði var Ólöf. Nútímaklukk felst víst í því að gefa fimm (ekki satt) berorðar yfirlýsingar um sjálfan sig. Jæja, 1. Ég er afskaplega svag fyrir Margit Söderholm. Fáir núlifandi Íslendingar aðrir kannast við hana en hún var þýdd sundur og saman og móðir mín, ég og fleiri lásu hana af áfergju fyrir, ja, ca. 30-40 árum. Upp úr stendur Hátíð á Hellubæ með undursamlegum lýsingum á mat og kvenfatnaði 18. aldar aðalsmanna í Svíþjóð. Gæti alveg komið að þessu síðar. Kannski þaðan runnin sú fullvissa mín að ef ég ætti að búa í sveit yrði það ekki sem skepnubóndi heldur fígúra sem ekki þyrfti nauðsynlega að lifa af landinu. Hefur næstum ræst! (Borðaði einu sinni hádegismat með nokkrum sænskum þýðendum (kellingum) og minntist þá á þennan ágæta höfund. Við lesum ekki svoleiðis bækur sögðu þær næstum í kór, munnurinn varð eins og strik og svo kom óþægileg þögn. Aumingja þær!)
2. Virðist allllls ekki geta kosið Sjálfstæðisflokkinn, bara ekki nokkur leið. Skýri ekki nánar.
3. Finnst bleikt og gyllt rönd (á stelli) fallegt. Flosi Ólafsson sagðist einhvern tíma verða sífellt meiri kelling með árunum. Sammála, skilst að þetta séu merkin.
4. Finnst landslag ekki endilega þurfa að vera með ofurhvössum fjallseggjum og birkikjarri. Ormsárgil í Hrútafirði með sínum megna krækilyngsilmi er mín Paradís á jörð. Þar ætla ég að tjalda eina nótt áður en ég dey (helst með látum).
5. Uppáhaldsfornsagan mín er Njála af því að þar hefur einhver góður vinur minn tekið sig til og pakkað öllu sem máli skiptir saman í eina sögu (eða tvær)?

Nú er úr vöndu að ráða, lesendur mínir eru tveir og annar búinn að klukka mig. Bíð þar til ég verð vör við þann þriðja. Nema Andrés vilji afhjúpa sig.

Web Counter

5 Comments:

At 15 október, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

En gaman! Sammála þér um margt, nemá hvað ég þekki ekki þennan eflaust ágæta höfund og ekki þessa tilteknu Paradís...

 
At 15 október, 2005, Blogger Þóra said...

Ég ætti að fá mér Margit Söderholm og lesa, hef alltaf verið hrifin af svona þægilegu búningadrama hvort sem er bókum eða bíómyndum. Tók meira að segja kúrs í HÍ um evrópskan aðal á 17. og 18. öld. Var lítt hrifin af lýsingum á hernaðarbrölti aðalsmanna en því hrifnari af frásögnum af aðalskonum og öllum þeirra búnaði.

Þóra

 
At 17 október, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Helga mín, má til að leggja orð í belg sennilega ekki margir sem hafa lesið um lífið á Hellubæ af eins miklum áhuga og við frænkurnar! spurning með þær yngri. En ég hef lengi ætlað að liggja úti eina nótt upp við Kambafoss. Skemmtilegt blogg eins og þín var von og vísa, kveðjur frá Elsu frænku
P.s vona að allt gangi vel!

 
At 17 október, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Ég hef aldrei lesið umrædda Margit en sem bókavörður tók ég eftir að hún var talsvert mikið lesin. Var stundum að pæla í að lesa eins og eitt stykki en einhverra hluta vegna varð aldrei neitt úr því. Hátíð á Hellubæ er komin á bókalistann hér með...

 
At 20 október, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Hahahahahaha ég gerðist svo fræg að tjalda við gilið í sumar, valdi 'frýnilegan' blett á túni við hlið þess, þar sem mér hafði verið sagt af frændum og frænkum að það væri í lagi að tjalda þarna hvar sem væri. Þegar ég hins vegar kom aftur niður í hús var mér sagt að ég hefði tjaldað "suður og upp" :s það mátti víst ekki, enda melabónda landsvæði. Hann kom svo reiður á eftir okkur þegar við fórum uppeftir aftur, ég reyndi að útskýra en hann hafði þegar ákveðið að ég hefði gert þetta af einskærri melafrekju og teldi mig eiga þetta allt. Fyrirlitningin skein úr andliti hans þegar ég reyndi að útskýra. Hann var aðallega reiður því tjaldið okkar huldi 5 fermetra af óslegnu grasi, það væri lágmark að tjalda þar sem væri búið að slá... og úps, svo gleymdum við víst að loka hliði í smá stund :/ En manninum mínum tókst nú að róa hann með dulitlu spjalli um sauðfjárrækt, og ýtti mér ákveðið til hliðar. Ég lúffaði. Skemmtileg saga, ekki satt :D Mundu bara, ekki suður og upp!
Kv.
Birna frænka

 

Skrifa ummæli

<< Home