Áhugarithöfundar
Getraunin sem hér var efnt til um daginn er eiginlega dottin um sjálfa sig því Melamenn héldu sér til hlés og fáum öðrum lesendum er til að dreifa. Þetta var að sjálfsögðu sítat í ættarrithöfundinn Ingunni Jónsdóttur frá Kornsá.Kannski er það ellimerki og merki um íhaldssemi sem henni fylgir gjarnan að ég verð æ hrifnari af "áhugarithöfundum", fólkinu sem skrifar "þjóðlegan fróðleik", endurminningar, sagnaþætti, mannlýsingar og þess háttar. Ingunn er glæsilegur fulltrúi þessara höfunda. Fyrir nokkrum árum las ég stuttan þátt í Heimdraga IV, en Heimdragi var ritröð sem Iðunn gaf út fyrir mörgum árum, eftir Hólmfríði Jónasdóttur. Þátturinn er um föður hennar, hagyrðinginn Jónas Jónasson frá Hofdölum, móður hennar og fleira fólk og bernskuár í Skagafirði. Þetta er afskaplega vel skrifuð og hlýleg frásögn sem ég hvet alla til að lesa. Ég get ekki stillt mig um að setja hér smákafla:
"Okkur systrum voru gefnar vísnabækur ("poesibækur") í fallegu bandi í jólagjöf. ... Við höfðum ákveðið, að pabbi yrði fyrstur til að skrifa í þær. Úti var snjór, logn og stjörnubjartur himinn. Á þessu kvöldi orti pabbi í bækurnar okkar allra, og eru vísurnar hans fegurstu heilræði sem við höfum hlotið á lífsleiðinni..."
Síðan lætur Hólmfríður fylgja nokkrar vísur úr bálk hverrar þeirra systra, en þær voru þrjár. Sjálfsagt er leitun að betri jólagjöf!
Frásögn Hólmfríðar minnir mig svolítið á stutt æviágrip sem mamma tók saman um afa þegar hann var nýdáinn, til að hjálpa prestinum við ræðusmíðina. Það er afskaplega fallegur og vel skrifaður texti og synd að hún skuli ekki hafa sett meira af slíku á blað.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home