13.6.08

Heimþrá...

Já, ég er farin að finna átakanlega fyrir því hvað ég þarf að fara að komast norður. Þegar ég var ungur og vitlaus unglingur sagði ég einhvern tíma eitthvað á þá leið að norðurþrá mín væri bundin við fólk en ekki land, þegar mitt fólk yrði á burt ætti ég ekki meira þangað að sækja. Líklega hef ég hugsað svona í einhverri andartaks skömmustu yfir því, sem svo margir segja, að Hrútafjörður sé svo ömurlega köld og hryllileg sveit (um það leyti sem ég var á Laugarvatni, með öllu kjarrinu og því drasli). Kannast einhver við það? En, eins og pabbi þreytist aldrei á að segja, og ég er farin að taka upp merkið fyrir hann: 1) þetta er ekki sveit fyrir aumingja 2) haustin eru yndisleg 3) veturnir eru betri ef eitthvað er 4) það koma oft ótrúlega góðir dagar á sumrin, stundum nokkrir í röð. Svo er það Ormsárgil, Selá, móar og mýrar og víðáttur, svo grónar og grænar og sumarlegar, sem gera það að verkum að mann verkjar eftir að komast þangað.

Nú hillir undir það að við mæðgur, að minnsta kosti, förum norður í vinnuhelgi þar sem verður skipt um glugga á ættaróðalinu. Mikið hlakka ég til. Ég hlakka líka til að hitta stelpurnar frænkur mínar í nýja bústaðnum, sem ég vona að haldi ekki að ég sé eitthvað "fornemuð" eins og amma Elísabet sagði ef henni fannst fólk orðið óeðlilega fálátt. Ég er það ekki - það er bara svona bindandi og slítandi að vera að byggja ofan á sig í vesturbænum. Hlakka til að sjá ykkur, stelpur!

Rétt nýjustu fréttir af gróðri: bleika bóndarósin, tveir knúppar, springa væntanlega út um helgina. Sú dökkrauða: fjórtán, segi og skrifa fjórtán, springur væntanlega út næsta hálfa mánuðinn. Gullregn: verður væntanlega í sínum fegursta blóma næstu viku.

Web Counter

2 Comments:

At 16 júní, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Sæl kæra systir.
Ég er svo sannarlega sammála þér, komin með verulega heimþrá. Þegar við Kalli vorum á "sokkabandsárunum" í Reykjavík bauð hann mér alltaf annað slagið í bíltúr eftir einhverjum fáförnum troðningum í nágrenni borgarinnar, þetta gerði hann til þess að slá aðeins á heimþrána í mér. Seinna þegar við vorum komin til Ísafjarðar og enn lengra var að skreppa í sæluna gaf hann mér einkanúmerið "Melar" á bílinn okkar svo ég gæti verið sem mest á Melum! Reyndar er það svo hann sem keyrir alltaf um á "Melum" enda hefur hann ótrúlega sterkar taugar til þessarar góðu sveitar okkar.
Hlakka til að hitta þig um helgina og hlaupa með þér Borðeyri - Melar eða Melar - Borðeyri, eftir vindátt!
Kveðjur,
Didda systir.

 
At 18 júní, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Sæl Helga mín. Ekki var ég búin að sjá þessi skrif þegar ég hringdi í þig á laugardaginn. En það var auðvitað gert til að gera þig öfundsjúka! Tíminn sem við höfum eytt á Gilsbakka eftir erfiðan tíma hér syðra í vetur er bara búinn að vera dásamlegur. Að komast upp á fjall eða skokka veginn frá Selá er best í heimi!óróleikinn sem ég fyllist af á vorin verður mun bærilegri. Ég gæti víst ekki hlaupið Borðeyri-Melar þótt heilsan/eyrað væri í lagi(finnst ekki mjög gaman að ganga eftir vegi) en vona að veðrið verði ykkur hliðholt við vinnu og hlaup.
Verð á svæðinu, hlakka til að hitta ykkur.
Kveðjur frá Elsu frænku

 

Skrifa ummæli

<< Home