Harpa og Hús og híbýli leggja saman
Enn leggur Harpa blessunin mér til efni. Á föstudaginn var hún með enn eina langlokuna í Fréttablaðinu um ástamál. Eftir fimbulfamb um það hvað fólk sem vinnur við kvikmyndagerð er mikið skorpufólk, bæði í vinnu og ástamálum, koma lokaorðin: "En hvað sem öðru líður verður að teljast skiljanlegt að með fólki í þessum stífu verkefnum takist ástir [komst einhver roskinn prófarkalesari í þessa setningu, mér finnst ólíklegt að stúlkan hafi fundið þetta orðalag sjálf], fólkið eru jú saman öllum stundum og kynnist á ótrúlega marga og mismunandi vegu sem gerist sjaldanst[svo] hjá hinum venjulega vinnumanni. Nú er til dæmis nótt hjá mér og dagur hjá ykkur... eigið góðan dag." Prófarkalesarinn hefur örugglega verið dáinn, hættur, farinn eða ekki nennt að vera lengur með í leikritinu þegar kom að því sem er fyrir aftan fyrri hornklofa mína, annars hefði hann kippt sögninni með fólkinu í eintölu og bjargað vinnumanninum frá merkingarbrengluninni (sem ég hef stundum orðið vör við hjá smábörnum).Hlýtur fólk bráðum sömu örlög og people? Það eru fleiri en Harpa sem hallast að sögn í fleirtölu. Á forsíðu tímaritsins Hús og híbýli stendur (ég held að ég muni þetta orðrétt): "Fólkið sem settu garðinn á vegginn". Ég er viss um að ritstjórinn sem var rekinn frá þessu tímariti hér um árið fyrir óléttu, Lóa Aldísardóttir, hefði ekki látið þetta henda sig. Blaðið var fjandi gott hjá henni, bæði vel frá því gengið og skemmtilegur frjálslegur andi yfir því.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home