24.10.06

Berjatínsla, saftgerð og ferðir pabba upp á loft

Þegar ég var krakki var berjatíminn besti tími ársins. Þetta byrjaði á skreppitúrum "suðrímóa" eins og það var kallað, þar sem húsið pabba og mömmu stendur nú. Yfirleitt var þetta allt of snemma, kannski fyrir verslunarmannahelgi og berin enn hálfgerðir grænjaxlar. En þetta var ágætur undirbúningur fyrir alvöruátökin. Suðrímóarnir eru nú horfnir, þar er bara gras sem fór að vaxa úr hófi þegar melurinn fyrir ofan móana var ræktaður með tilheyrandi áburðargjöf.

Svo færðum við okkur upp á skaftið og fórum upp í Kambabletti og upp með Kambalæknum, svæðið neðan brúnar. Hámarki náðu svo berjaferðirnar þegar allir sem tínu gátu valdið fóru upp í Kamba, bæði fullorðnir og börn, á traktorum og jeppa með aftanívagn sem á voru mjólkurbrúsar undir fenginn. Ætli hver fjölskylda hafi ekki tínt eins og 50 - 70 lítra. Svo stóðu kellingarnar (guð fyrirgefi okkur en það kölluðum við þessar bráðungu konur) bláar upp að öxlum fram undir sláturtíð við að safta.

Ég man líka eftir því að amma og afi komu á berjamó og amma vildi helst ekki tína með tínu því það var svo vont fyrir lyngið. Móðursystur mínar komu einhvern tíma líka.

Það var gaman að fylgjast með þegar saftin var sett í flöskurnar, lokað með korktöppum og stútnum dýft í innsiglislakk eða kertavax til að loka enn betur. Svo þurfti að koma afurðinni í örugga geymslu.

Þá kom til kasta Jóns á Melum. Nú hófust sem sé tilfæringar. Fyrst var sóttur stólkollur. Pabbi steig upp á hann, lyfti upp lofthleranum og skaut honum inn á loftið. Svo steig hann öðrum fæti upp á hurðarhúninn á eldhúshurðinni (minnir mig), krækti með báðum höndum í loftskörina, fór með hinn fótinn upp á hurðina, sem sveiflaðist til, og hóf sig svo upp á loftið. Heimilisfólk stóð fyrir neðan skíthrætt um að nú fipaðist karli og stórslasaði sig. En aldrei gerðist það nú. Flöskurnar voru svo handlangaðar innan úr búri og upp á loftið.

Af og til fór pabbi svo upp á loft að sækja meiri saft því hún var mikið notuð. Og alltaf notaði hann þessa aðferð við að brölta upp á loftið, hvarflaði ekki að honum að sækja sér stiga. Það var reyndar ekki bara spenna fólgin í ferðinni upp. Það var nefnilega ekki almennilegt gólf þarna uppi heldur aðeins lausar fjalir sem heilmikla jafnvægislist þurfti til að feta sig eftir. Ef hann hefði hrasað hefði hann getað brotið loftið og dottið niður úr því.

Einhverra hluta vegna varð geymsluloftið í nýja húsinu næstum því jafn óaðgengilegt. En steypt plata.

Web Counter

9 Comments:

At 24 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Sæl kæra systir.
Mikið óskaplega er gaman að lesa þessar upprifjanir frá æskuárum. Já,já ég sé þetta allt ljóslifandi fyrir mér þegar karl var að brölta upp á loft og maður beið niðri með öndina í hálsinum. Ó nei, stigi var ekki talinn bráðnauðsynlegur ekki frekar en vatnsslanga í fjárhúsin. Reyndar var nú fjárfest í einni slíkri fyrir rest eftir margra þúsunda lítra burð. Þetta var eitt allra mesta framfararskref sem Jón bóndi steig, ja allavegana hvað mig snerti.
Bíð spennt eftir að lesa meira.
Kveðja,
Didda.

 
At 25 október, 2006, Blogger Helga said...

Sæl mín kæra.
Það er líka gaman að vita að einhverjum þykir gaman að þessu. Bestu kveðjur.

 
At 25 október, 2006, Blogger Kristin Bjorg said...

Ég var að hugsa þetta sama - það er rosalega gaman að lesa þessar endurminningar! Megum við fá meira að heyra?

 
At 25 október, 2006, Blogger Þóra said...

Tek undir hér, gaman að lesa þetta. Á reyndar erfitt með að sjá afa gamla fyrir mér príla þetta enda hann sjálfsagt hættur því þegar ég kom til. Langt síðan maður hefur annars farið í berjamó, eins gaman og mér finnst það nú. En ég hef aldrei verið mikið fyrir afurðina, hvortheldur berin eða saftið. En það er eitthvað bóndagen í mér (svosem ekki furða) því ég hef ákaflega gaman af því líka að taka upp kartöflur og gróðursetja tré. Er minna fyrir búfénað hvers konar.

Með kveðju,
Þóra

 
At 25 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Best ég bætist í hópinn.Ég ætla að byrja á því að þakka þér Helga mín fyrir að vera svona dugleg að skrifa á bloggið .Eg hef allveg svakalega gaman af þessum skrifum þínum.Fyrir mér rifjast svo margt upp...............Datt í hug þegar þú varst ráðskona (var það ekki kallað það )sem sagt eldaðir fyrir okkur heima því mamma var á spítala.Við Nonni frændi höfðum verið send út á Fjarðarhorn til að ná í kýrnar(mikið var maður nú pirraður þegar þær voguðu sér að fara svona langt helv.)En það er nú önnur saga. Þetta tók langan tíma og við vorum mjög svöng.Nonni talaði um að það væri veisla sem biði hans heima snitsel og tilheyrandi meðlæti.´Eg vildi nú ekki vera minni manneskja og sagði honum að Helga væri með pylsur .Fyrir pylsunum féll snitselið allveg í skuggann. En þegar heim var komið þá kom annað í ljós allavega heima hjá mér .Engar voru pylsurnar ............Heldur mjög reið systir sem skammaði mig fyrir hvað ég væri búin að vera lengi að ná í þessar helv. beljur og maturinn sem ég fékk er með því verra sem ég hef fengið(fyrirgefðu Helga mín).Gúllash búið að vera í pottinum í marga klukkutíma,sem sagt kjöttæjur einhverskonar í mikilli sósu ,en ég fékk ekkert annað að borða og gat víst sjálfri mér kennt um það .En það var svöng stelpa sem fór í rúmið þetta kvöld og þreytt eftir langa ferð með beljurnar.Ég hef stundum rifjað þessa sögu upp þegar ég er svöng, sem kemur nú reyndar ekki oft fyrir því eg er innan um mikinn mat flesta daga. En ég finn það að ég verð að fara að koma mér upp bloggi svo ég geti teki þátt í þessum skemmtilegheitum með þer kæra systir .Hlakka il að sjá næsu færslu .Kv. Ingunn systir

 
At 25 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Gaman, gaman!!! I love it:) Ég fæ aldrei leið á svona gammel sögum.
Gó, Helga:)

 
At 26 október, 2006, Blogger Kristin Bjorg said...

Hér eru systur og frænkur sem skrifa.... og ég - ég er semsagt búin að eignas heilan hóp af fóstursystrum!

 
At 30 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Takk fyrir þessi skemmtilegu skrif frænka. Í þessar berjaferðir var yfirleitt farið með nesti ekki satt, mér finnst ákveðin rómantík fylgja því. Svo þurfti að veifa einhverri dulu á brúninni til að láta vita að öll ílát væru orðin full.
Það hefur kannski verið fyrir þetta stigaleysi suðurfrá að þér þótti svo gaman á loftinu hjá okkur að lesa Æskuna, Fálkann og Ísafold og hvað þau hétu öll þessi blöð sem við lágum í. Við gætum nú rifjað upp ýmislegt úr ráðskonustörfum okkar frá þessum tíma eins og sósugerð og þess háttar. Við stefnum að því að hittast frænkurnar þegar smíðavinnu lýkur.
Kveðja, Ína

 
At 30 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Takk fyrir þessi skemmtilegu skrif frænka. Í þessar berjaferðir var yfirleitt farið með nesti ekki satt, mér finnst ákveðin rómantík fylgja því. Svo þurfti að veifa einhverri dulu á brúninni til að láta vita að öll ílát væru orðin full.
Það hefur kannski verið fyrir þetta stigaleysi suðurfrá að þér þótti svo gaman á loftinu hjá okkur að lesa Æskuna, Fálkann og Ísafold og hvað þau hétu öll þessi blöð sem við lágum í. Við gætum nú rifjað upp ýmislegt úr ráðskonustörfum okkar frá þessum tíma eins og sósugerð og þess háttar. Við stefnum að því að hittast frænkurnar þegar smíðavinnu lýkur.
Kveðja, Ína

 

Skrifa ummæli

<< Home