4.10.06

Hef ég nú blogg að nýju

Sökum anna hafa skrif legið niðri á þessari síðu um hríð. Fyrir fólk sem kemur eitthvað nálægt bókaútgáfu á Íslandi er september dálítið trylltur mánuður. Ég verð að játa að ég er enn nokkuð lerkuð eftir að hafa verið með eina metsölubókina þetta árið í gjörgæslu um rúmlega mánaðar skeið auk ýmissa annarra verkefna.

Við brugðum okkur norður á óðalið um helgina, rétt til að reyna að ná mér niður eftir törnina. Það var ótrúlega gott að skipta um umhverfi eina helgi, virtist ekki heldur gera neitt til þó að hitastigið væri tvöfalt lægra en sunnan heiða. Ekki voru framkvæmdir miklar en þó potaði ég niður nokkrum páskaliljulaukum og slatta af krókusalaukum líka. Krókusana setti ég niður í blettinn í garðinum. Mér fannst gæta dálítillar vantrúar í málrómi konu af minni ætt þegar ég lýsti þessu fyrir henni: "Já, í blettinn og svo er hann sleginn," sagði hún, og sannfærðist held ég ekki þó ég reyndi að fullvissa hana um það að tími krókusa er löngu liðinn þegar kemur að slætti. Hins vegar er fátt vorlegra en krókusar í grasbletti sem er rétt byrjaður að grænka.

Fyrir norðan voru Jónasarstelpurnar í óða önn að byggja sumarbústaðinn sinn með hjálp tveggja karlmanna. Þetta er glæsilegt hús og mikill hugur í þeim. Ég hlakka til þegar þær fara að dvelja þarna í alvöru og við getum farið að ganga á fjöll saman og gera hitt og þetta skemmtilegt, t.d. fara á gönguskíði, ég hugsa að ég geri alvöru úr því að fá mér ein slík þegar Elsa fer að bruna út um allar hlíðar á sínum. (Ef einhvern tíma kemur alvöru snjór aftur, þ.e.a.s.)

Web Counter

2 Comments:

At 06 október, 2006, Blogger Kristin Bjorg said...

Gaman að heyra frá þér aftur...

 
At 09 október, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

ja Helga mín, þú hefðir átt að vera líka þessa helgi, það var þvílik haustblíða að við tímdum varla að fara aftur suður! og það var mikið unnið.
Kv. Elsa

 

Skrifa ummæli

<< Home