8.10.06

Rautt hár

Ó.P. var að tala um rautt hár í tísku og hvað það var erfitt hér áður fyrr að vera rauðhæð stúlka. Þá rifjaðist upp fyrir mér rútuferð suður úr Hrútafirðinum eitt haustið, líklega 77 eða 78. Þetta var áður en allir eignuðust bíla svo rútan var alveg troðfull. Þegar ég kom inn hafði Eggert (eða Pétur tvíburabróðir hans, þeir voru eins) ekkert sæti handa mér svo ég varð að sitja undir lítilli stelpu mestan hluta leiðarinnar. Hún hefur líklega verið 7-8 ára og var að koma úr sveitinni, einhvers staðar í Víðidalnum, minnir mig, og bróðir hennar líka. Hún var með það rauðasta, þykkasta og fallegasta hár sem ég hef séð og með brjálæðislegar freknur í stíl. Hún var líka bráðskemmtileg og samkjaftaði varla alla leiðina. Bróðir hennar var aðeins yngri, dökkhærður og heldur svipleysislega fallegur. Þarna voru líka fleiri krakkar. Þau ræddu um sveitina og dýrin og lífið og tilveruna eins og gengur. Stundum horfðu þau líka svolítið út um gluggann. Þegar sást út á Borgarfjörðinn varð þeim starsýnt á brúna sem þá náði ekki nema sirka hálfa leið. Það hófust fjörugar umræður um þetta fyrirbæri. "Ætli hún eigi ekki að vera lengri?" spurði einhver varfærnislega. Sum börnin voru nú á því að líklega ætti hún að ná alla leið en öðrum fannst þetta alveg nóg, hlyti að vera gaman að keyra eða labba þarna út á og snúa svo bara við þegar maður væri búinn að horfa yfir og oní sjóinn og svona. Þetta með brúna rifjaðist einmitt upp fyrir mér þegar Ómar fór að viðra þá bjartsýnislegu hugmynd um daginn að vera ekkert að hleypa vatni á stífluna.

Þegar nálgaðist bæinn komumst við á trúnaðarstigið, ég og sú rauðhærða, og náði hámarki í þessari spurningu hennar: "Finnst þér rautt hár fallegt?" Ég hélt nú það, mér fyndist rautt hár langfallegasta hárið. "Það finnst mömmu minni líka," sagði sú stutta og andvarpaði og ég skynjaði svolítið bitra reynslu í því andvarpi en von um leið.

Ég hef ekki séð stúlkuna síðan, en ætli hún hafi ekki orðið fyrirsæta, eða kannski leikkona? Kannski að þetta hafi verið Margrét Vilhjálms eða einhver önnur rauðhærð tískustelpa sem ég kann ekki að nefna? Hún hefur örugglega plumað sig vel og hárið orðið henni til framdráttar frekar en hitt, eins og nýlegar kannanir sýna.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home