3.11.06

Haust í Hrútafirði

Haustið er óvenju rauðbrúnt núna. Það sögðu frænkur mínar mér fyrir mánuði og ég sé það enn. Það hefur verið hlýtt miðað við árstíma og lygnt. Mikið í ánum, Hrútafjarðará var að leysa af sér skarir meðfram bökkum þegar við komum í fyrradag og Ormsá er eins og ólétt kona, slík er reisn hennar mont og fyrirferð þar sem hún geysist niður í móðurána. Himinninn hefur sjaldan verið breytilegri, öll blæbrigði af blágráu og svo sjaldgæf gyllt augnablik saman við ljósblátt þegar maður heldur í tíu mínútur að nú sé hann að draga upp í frost og stillur, en svo kemur allt í einu grár bakki úr suðri sem gerir út af við þá trú.

Auðvitað dró ég fram vatnslitina. Reyndi að mála eftir aldeilis ágætri ljómynd sem ég tók fyrir nokkrum árum hér norður og austur eftir túninu af húsinu. Skemmst er frá að segja að ljósmyndin er í alla staði betra verk. Ég ætlaði að farga vatnslitamyndinni hálfkláraðri en leyfði henni að þorna meðan við brugðum okkur á Hvammstanga í sund. Þegar ég kom til baka fylltist ég ofmetnaði og kláraði verkið og skellti meira að segja í ramma, fyrir ofan mynd eftir Svein Þórarinsson, sem var alvörumálari. Þá varð fyrst ljóst hvað þetta er átakanlega vont verk. En - þá mundi ég það sem Guðbergur sagði einhvern tíma, eitthvað í þá veru að texti ætti að vera þannig að ljóst væri hversu erfitt höfundur hefði átt með að semja hann, sem sé ekki fallegur. Einmitt þannig er myndin mín.

Á Hrútatunguflötunum getur að líta alveg óvenjulega litasamsetningu: hálmgula sinuna í bland við skærgrænar nýræktirnar. Kannski hef ég bara tekið eftir þessu vegna nýtilkominnar listiðkunar, en fallegt og sérkennilegt er það.

Í lokin: Bókmenntagetraun: Hver sagði: "Það sem ég legg mesta áherzlu á og hygg, að hjálpi manni bezt í baráttu lífsins, er að hafa góðar endurminningar frá æskuheimilum sínum. Það hefir líklega meiri áhrif en flestir halda eða hafa tekið eftir."

(Melafólk skal halda aftur af sér fyrst í stað með svör.)

Web Counter

2 Comments:

At 04 nóvember, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Mig grunar eitt og annað, en skal halda í mér.
Gaman að lesa þessi skrif þín Helga. Væri örugglega efni í góða bók allar endurminningar ykkar systkinanna frá Melum.
Hafðu það gott, Þóra frænka í Dk.

 
At 04 nóvember, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Elsku systir.
Já ég þykist vita hver skrifaði þessi orð, en ætla líkt og frænka mín að halda aftur af mér. En það er ég viss um að þetta er stór sannleikur sem þarna er á ferðinni og ekki spurning að minningarnar okkar eru margar og góðar. Bíð spennt eftir að lesa meira.
Viltu kíkja á tölvupóstinn þinn.
Kveðja frá Köben,
Didda systir.

 

Skrifa ummæli

<< Home