5.2.07

Verðlagseftirlit mitt og viðskiptabann við Norðurlönd

Ég skrapp í Bónus í dag, sem er varla í frásögur færandi, það geri ég líklega tvisvar í viku að jafnaði. Mér finnst nefnilega matvara og annar hversdagsvarningur nógu andskoti dýr þó maður reyni nú ekki að kaupa þetta þar sem það er ódýrast.

Ég rak augun í skilti yfir frystikistunni sem á stóð: KF (eða eitthvað svoleiðis, ekki KFHB, Kaupfélag Hrútfirðinga Borðeyri) lambalæri tilboð 878 kr. Ég veit að lambalæri hefur verið langt yfir þúsund kall lengi, svo ég ákvað að kaupa eitt, passar vel því við ætlum að skreppa norður um næstu helgi og þá verður að vera læri. Þá sá ég að það voru tvær sortir af lærum í kistunni. Mig fór að gruna margt, kippti með mér einu af hvorri sort, óð með þau að kassanum og spurði hvað þau kostuðu. Stúlkan brá lesaranum á, 1080 kr. kostaði annað og enn meira hitt. Ég sagðist ekki sátt við þetta og það endaði með því að verslunarstjórinn, unglingur en Íslendingur, kom þarna að. Ég spurði hann út í tilboðið, það kom svolítið á hann, en svo sagði hann stúlkunni að þetta væri rangt verð, það ætti að vera 20% afsláttur, sem gerir samkvæmt mínum útreikningum, 864 kr. pr. kíló.

Dætur mínar prísuðu sig sælar að hafa ekki verið með mér en þetta sýnir vel hvernig alltaf er verið að reyna að leika á mann. Tilboðsverðið látið hanga yfir vörunni og svo treyst á það að ræflarnir þori/nenni ekki að vera með neitt múður þegar kemur á kassann, eða hafi ekki vit á að gá á strimilinn.

Svo er það annað mál sem snertir viðskipti:
Ég fylltist allt í einu óviðráðanlegri löngun um daginn til að hlusta á einhverja hjartnæma og fallega norræna (vísna)tónlist, t.d. Haustvísu eftir Tove Janson. Það er lítið að fá af slíku í plötubúðum hér, telst líklega "útlent". Ég fór inn á Netið og fann fljótlega álitlega diska á einhverri netverslun, setti í "körfuna" og ætlaði að fara að gefa upp númerið á kortinu en þá kom babb í bátinn: þú ert ekki með IP-tölu frá réttu landi og mátt því ekki versla við okkur. Ég prófaði Danmörku og Svíþjóð, held ekki Noreg, enda líklegt að þeir séu enn strangari, ef þeir eru þá búnir að fatta Netið. Ég er búin að kvarta við sérfræðing minn í rafrænum viðskiptum en hann yppir bara öxlum og segir að ég geti prófað að fá mér norrænan beini (router)!

Mér finnst þetta með ólíkindum, á 21. öld og Amazon og e-bay og hvað þetta heitir búið að selja allan fjandann árum saman!

Best að hætta þessu svo þrýstingurinn fari ekki upp úr öllu valdi.

Web Counter

6 Comments:

At 07 febrúar, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Sæl frænka, við verðum líka fyrir norðan um helgina, við Gunnar og Sævar förum á morgun en hin koma á föstudaginn. Við erum nærri því búin að klæða svo þetta er allt að koma meira að segja búið að setja kósettið upp (ekki búið að setja vatnið á). Þið komið og lítið á herlegheitin, hlakka til að sjá ykkur. Bestu kveðjur, Elsa frænka

 
At 07 febrúar, 2007, Blogger Helga said...

Iiih, hvor jeg glæder mig! (Eins og þeir sögðu í Andrési önd í gamla daga)

 
At 07 febrúar, 2007, Blogger Þóra said...

Nú verður þú bara að nota "tengslanetið", biður aðra frænkuna í Danmörku að panta haustvísurnar fyrir þig.
Ég er annars líka að fara norður um helgina, heim á ströndina þ.e. Ætla á þorrablót, hitta Tönju og Atla litla og sækja "nýja" bílinn minn. Það er því mikil tilhlökkun á þessum bæ.

Verð nú að fara láta sjá mig fljótlega.
Þóra

 
At 07 febrúar, 2007, Blogger Helga said...

Hvort þú verður, Þóra mín. Líturðu kannski inn seinni part föstudags, við ætlum nefnilega helst að fara annað kvöld. Ég athuga þetta með nýtingu tengslanetsins, svo er auðvitað þessi frænka sem spókar sig á hæstu hæðum norrænna hótela sí og æ ... kannski maður fari að láta hana snatta svolítið fyrir sig...

 
At 08 febrúar, 2007, Blogger Þóra said...

Fer norður strax eftir vinnu á morgun föstudag. Kíki á ykkur í næstu viku.

Þóra

 
At 09 febrúar, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

grenj! mér finnst litla frekjufrænka eiga inni link eins og allir hinir :( Annars flissaði ég að færslunni, eins og svo oft :D

 

Skrifa ummæli

<< Home