24.1.07

Þrjár systur



Ég eignaðist þessa mynd loksins nú á jólunum þegar Ingunn gaf mér hana. Reyndar átti ég upphaflega eitt eintak en það hafnaði í fjölskyldualbúminu. Myndin er sem sé af okkur systrum þremur, Didda var "enn í pungi föður síns", eins og einhverjir vinir Orðabókarinnar tóku svo smekklega til orða um ófætt fólk, þegar myndin var tekin.

Tilurð myndarinnar: Það var einn af þessum lognkyrru sjóðheitu dögum sem aðeins koma í Hrútafirði. Við vorum að snudda eitthvað úti í blíðunni systurnar, við hús Jónasar og Sigga, þegar bíll kom akandi. Í honum voru hjón sem vildu kaupa mjólk, held að Lilja hafi afgreitt konuna með það. Meðan stóð maðurinn þarna úti og spurði allt í einu hvort hann mætti taka af okkur mynd. Við féllumst á það, Lilla held ég meira en fús, en ég ekki meira en svo því mér fannst ég ekki falleg á myndum. En við stilltum okkur þarna upp og maðurinn smellti af. Hann spurði hvað ég héti áður en þau hjónin héldu aftur út á rykið og holurnar á þjóðveginum. Svo gleymdist þetta, en rétt fyrir jólin veturinn eftir kom stórt umslag í póstinum, merkt Helgu Jónsdóttur. Það varð uppi fótur og fit, næstum eins og þegar pabbi fékk happdrættismiðana frá Möltu, sem er önnur saga, og ég opnaði sendinguna. Út úr umslaginu ultu þrjár eins myndir.

Það má marka veðurblíðuna af því til dæmis að Ingunn er ekki í stígvélum, annars var hún yfirleitt í þeim allt sumarið því það var svo fljótlegt að fara í þau og mátti vaða í þeim út í hvað sem var. Lilla er í ljómandi fallegum bómullarkjól ættuðum af Hvammstanga, hann var rauður með hvítum doppum. Ég er í hvítum "leikfimikjól" frá sama stað. Ingunn er í blábekkjóttu pilsi sem ég held að mamma hafi saumað. Merkilegt að það skuli hitta þannig á að á bestu myndinni sem er tekin af okkur litlum er bara ein flík sem við erum í eftir mömmu.

Web Counter

3 Comments:

At 25 janúar, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Sæl og blessuð frænka.
Ég vil byrja á að þakka þér fyrir að auglýsa viðtalið við Stínu Ég hlustaði í bílnum á meðan ég beið eftir að Eggert Sveinn kæmi af handboltaæfingu. Frábært viðtal og skemmtilegt að heyra tónana úr sellóinu. Takk Stína mín.
Myndinni þeirri arna man ég eftir og einnig þessum lognkyrru dögum sem þú talar um og vel að merkja það komu margir svona dagar í ágúst sl. En það hljóta að hafa komið nokkuð margir slíkir hér áður, því við gátum vaðið í ánni og látið sólina þurrka okkur á bakkanum og sumir brunnu!! Annars vorum við fyrir norðan um helgina í miklu frosti, -17° en stafalogni og það brakaði í jörðinni, stjörnubjartur himinn og kyrrðin var stórkostleg.
Við söknuðum ykkar.
Kveðja frá Ínu

 
At 25 janúar, 2007, Blogger Unknown said...

Skemmtileg mynd... ég missti af viðtalinu. :-(

 
At 27 janúar, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Hægt að hlusta á netinu! Rás 1, 24. jan. Bestu kveðjur frá Lundúnum.

 

Skrifa ummæli

<< Home