14.1.07

Cleese og stóra hirðingjahúfan

Það eru engin nýuppgötvuð sannindi að karlmenn mega vera miklu eldri, ljótari og leiðinlegri en konur. Þetta sést í sjónvarpinu, í kvikmyndum, blöðum og áfram mætti lengi telja. Samt held ég að markaðsmenn Kaupþings hafi misreiknað þennan stuðul verulega þegar þeir keyptu þennan gamla, ljóta og afdankaða Cleese til að fíflast fyrir sig.

Ég veit ekki hvað þetta er að íslenskum markaðsmönnum, finnst þeim svona dæmalaust snjallt að leikari sem ekki getur leikið lengur (ef hann þá einhvern tíma gat það) skuli fara að míga utan í bissnesskarla? Þetta með að veifa Cleese er nefnilega ekki nýjung á Íslandi. Fyrir nokkrum árum sat ég kynningarráðstefnu hjá Navision og þá var samkoman látin horfa á myndband með Cleese - og þótti óskaplega fyndið að því miður hefði Navision ekki séð sér fært að fá hann í eigin persónu, hann hefði verið aðeins of dýr. Mér þótti þetta myndband arfavont og sé ekki að karlkvölin hafi neitt skánað síðan. Venjulegt fólk , sem veit ekki hvað það er obbbboðððslega dýrt að láta Cleese fiflast fyrir sig, hristir bara hausinn yfir þessu. En var kannski einhver ungur markaðsmaður meðal gesta á Navision-ráðstefnunni sem hét því að þegar hann yrði stór skyldi hann verða nógu stór til að kaupa Cleese? Kannski er þetta bara sama plebbahneigðin og fær nýríku Íslendingana til að kaupa Tom Jones, Duran Duran og fleiri misútbrunna skemmtikrafta í veislurnar sínar.

Hugvitssemi markaðsdeildar bankans gekk þó enn nær okkur viðskiptamönnum hans, sem vissum eiginlega ekki okkar rjúkandi þegar við opnuðum jóla"glaðninginn" - svarta tauhryllinginn sem kallast brauðpoki en líkist mest eyðimerkurhirðingjahúfu í yfirstærð. Þarna hefur líklega einhver verið að bjarga illa komnum vini sínum í hönnunarbransanum fyrir horn.

Web Counter

1 Comments:

At 17 janúar, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Minnug ertu, ég var alveg búin að gleyma því að Cleese var gæluleikari Navisjónu, blessuð sé minning hennar...
;-)

 

Skrifa ummæli

<< Home