Vetrarfegurð og jólaskraut
Ég geri nú ekki víðreist um bæinn þessa dagana en átti leið í Kringluna fyrir ca. 10 dögum og sá þá eitthvað sem á að heita jólaskreytingar, silfurlit vagnferlíki með silfurlitum hreindýrum fyrir og silfurlitur sveinki sjálfsagt líka. Við erum auðvitað orðin ægilega amerísk en þarna held ég samt að Kringlufólk hafi misskilið eitthvað. Eins og Jón Viðar sagði svo oft í leikdómum sínum: Þetta er bara ekki að gera sig. Samt held ég að svarta jólaþemað sem kvað vera ríkjandi þetta árið sé enn verra. Við Óli gengum fram hjá blómabúðinni á Hagamel í gær, sem yfirleitt er með afskaplega fallegan glugga. Þar eru skreytingar núna sem fljótt á litið fá mann til að halda að stórbruni hafi orðið í búðinni eða jafnvel dálítið kjarnorkuslys - svartmálaðar, naktar trjágreinar og fleira slíkt fylla mann þessari tilfinningu. Ég er nýjungagjörn og móttækileg og get alveg kyngt því að bleikt, blátt og ég veit ekki hvað sé jólalegt (gult er frátekið fyrir páskana) en svartar greinar, svart jólatré, kúlur, aðventukrans ... NEI!
(Bíðið svo bara þangað til jólakortunum frá mér fer að rigna inn um lúguna hjá ykkur!)
Rollumyndina tók ég í vetrarfríinu í fyrra fyrir norðan, nema hvar!
2 Comments:
bwaaaahahahahhahaha þetta eru rollur hahahahaha, ég leit snöggt á þessa mynd áður en ég fór að lesa og þá fannst mér þetta vera einhverjir undarlegir loðdúskar á trjánum, stökkbreyttur loðvíðir eða svoleiðis. Fullkomlega eðlilegt, sá enga ástæðu til að skoða þetta meir fyrr en þú kallar þetta "rollumynd". Að sjálfsögðu eru þetta rollur!!!
Usss, ekki segja neinum (roðn)
Haha, er sko innilega sammála þér, maður skreytir ekki í svörtum litum fyrir jólin. Alveg glatað !
Skrifa ummæli
<< Home