19.11.06

Hreingerning

Margir lesendur þessa bloggs vita að okkur hér á þessari efri hæð á Kvisthaganum dreymir um að hækka hjá okkur risið og eignast þannig stóra lúxusíbúð, með tvær meyjarskemmur, bað, geymslu og sjónvarpsstofu uppi. Ekkert hefur orðið úr framkvæmdum enn í upppsveiflunni og hefur líka leitt til þess að ýmislegt hér á heimilinu hefur verið látið danka; af því það borgar sig ekki að gera neitt úr því við ætlum að fara út í stórframkvæmdir bráðum. T.d. hefur ekki verið málað þó að þess þyrfti, hvað þá stærri framkvæmdir.

Svo fékk ég kast á fimmtudagskvöldið þegar ég virti fyrir mér borðstofuna, og við sem ætlum að vera með boð um næstu helgi. Ég náði í tusku, þetta var rétt fyrir 10, strauk henni eftir einu horninu og þá var ekki aftur snúið. Á miðnætti var ég búin að gera loftið í borðstofunni hreint.

Á föstudagsmorguninn fór ég til Stjána (í Rekstrarvörur) og keypti mér hreingerningagræjur og hélt áfram með borðstofuna og skúraði helstu gólf. Ég var hrikalega eftir mig í gærmorgun, aum í herðunum og verkjaði út um allan skrokk, skrítin í hálsinum, jafnvel með hitavellu. Í morgun var ég mun skárri og tók þá upp þráðinn frá föstudeginum, skúraði herbergi stelpnanna og þurrkaði af þar og lagaði til og þvoði gluggana, skúraði niður stigann og gekk svo loks frá öllum þvotti sem hafði safnast upp úr þurrkaranum.

Merkilegt nokk, þá heppnaðist þessi skammdegishreingerning á borðstofunni bara vel, ekkert flekkótt og mun bjartara inni (meira að segja áður en snjórinn kom). Ég hugsa að ég drífi mig og taki stofuna núna í vikunni. Vonandi verð ég þá farin að venjast svona átökum. Það virðist koma fyrir lítið allt bröltið í ræktinni. Eru kannski vöðvar og bein hist og her um skrokkinn sem aðeins brúkast við að hreingera loft?

Web Counter

1 Comments:

At 29 nóvember, 2006, Blogger Kristin Bjorg said...

Já - ég er svo hrædd við að fara út í miklar hreingerningar - það kostar bara líkamlegar kvalir og óþægindi. Mikið líst mér vel á að lyfta þakinu - íbúðin verður rosalega flott við það. En þá er það viðmiðið - ætlið þið að gera þetta "fyrir fermingu" eða "eftir fermingu"?

 

Skrifa ummæli

<< Home