20.12.06

Jólaundirbúningur á Melum 1

Þessi aðventufiðringur og skipulögðu huggulegheit, sem stressa fullkomnu konurnar heil ósköp, tíðkuðust ekki fyrir norðan í æsku minni. Þar var ekki dönsk aðventa heldur frekar spartönsk jólafasta. Mamma hafði þá stefnu að hafa mat og drykk heldur fábreyttari í framan af desember en endra nær. Mig minnir t.d. að hún hafi sleppt sunnudagslærinu en þess í stað verið með steikt súpukjöt með brúnni sósu, svo að jólamaturinn smakkaðist nú enn betur. Í desember var allt þrifið hátt og lágt og öllum dúkum var svipt af stofuskáp og öðru dúkuðu, bæði til að þvo dúkana en líka svo að við fyndum betur viðbrigðin við að setja þá aftur upp á Þorláksmessu. Allt koparkyns var fægt á Þorláksmessu eða kannski daginn fyrir, silfur áttum við ekki. Ljósakrónuþrifum hef ég gert skil í sérstökum pistli.

Það voru bökuð kynstur af smákökum en dunkunum lokað vandlega, plástraðir aftur, minnir mig. Það innsigli var ekki rofið fyrr en strákarnir komu heim í jólafríið, þeir voru stöðugt að stelast í kökurnar.

Svo var saumað. Þ.e.a.s., mamma saumaði auðvitað. Þrjú stykki jólakjóla og seinna fjögur, jafnvel kjól á sig líka. Við þetta vakti hún fram á nætur og lengi vel hafði hún aðeins handsnúna saumavél án sikksakks, og þurfti því að varpa alla sauma í höndum. Ég man ekki eftir að hún saumaði á strákana en veit að hún gerði það þegar þeir voru minni. Merkilegur andskoti annars, en ég held að í kaupfélagið á Borðeyri eða nágrannaverslanir hafi aldrei komið kjóll. Hins vegar fengust þar vinnugallar, gallabuxur og strákaföt. Svo komu fatamarkaðir á hjólum frá sambandsverksmiðjunum á Akureyri, með karlmannaföt. Kvenfatnaður kom eingöngu í ströngum, hráefni fyrir húsmæður sveitarinnar að vinna úr. Sjálfsagt hefur að einhverju leyti ráðið sú staðreynd að kventískan var breytilegri og menn hafi því óttast miklar birgðir af óseljanlegri vöru. Það fylgdu því sem sé mun minni saumaskyldur að eiga eintóma stráka en stelpur. Saumaskapurinn var rosaleg vinna og ég man þó nokkur aðfangadagskvöld sem mamma átti erfitt með að halda sér vakandi eftir matinn.

Það var að sjálfsögðu ekkert skreytt fyrr en á Þorláksmessu, en dagana fyrir jól dunduðum við okkur við að flétta poka á tréð og bjuggum jafnvel til annars konar poka líka, klædda með kreppappír og með glansmyndum. Stundum gerðum við líka músastiga sem voru hengdir upp hér og þar. Þá man ég líka eftir því að við settum grenigreinar með slaufu fyrir ofan allar myndir sem héngu á veggjunum. Seinna var mér sagt að slíkt hefði bara átt að gera við myndir af dánu fólki, en það vissum við ekki, og hefðum þá lítið sett upp af greni því við áttum fáar ef nokkrar myndir af dánu fólki. Jólatréð, gervi framan af, var skreytt á Þorláksmessu og síðan var loftskrautið hengt upp. Um það sáu strákarnir yfirleitt og gekk stundum eitthvað illa. Þetta voru lengjur úr alla vega litum pappír sem voru dregnar sundur og mjór strengur sem hélt öllu saman, gjarnan lagðar í kross horna á milli í herbergjunum. Þetta var eiginlega það allra fallegasta sem ég vissi og ég get ekki lýst þeirri tilfinningu að vakna í hreinum rúmfötum og náttfötum að morgni aðfangadags og horfa á lengjurnar í loftinu, telja litina og finna út hvernig þeir röðuðust reglulega lengjuna á enda. Seinna kom amerískara glitskraut en mér fannst hitt alltaf miklu fallegra. Þegar ég settist að í Reykjavík komst ég að því að í sumum húsum þótti svona skraut ekki par fínt og því hef ég ekki haldið þessum sið. Samt á ég eina lengju og hún breiðist nú yfir gardínustöngina í herbergi Steinu, sannkölluð herbergisprýði.

Á myndinni hér að ofan er smásýnishorn af föndri mínu á þessari aðventu sem væntanlega berst sumum lesendum einhvern næstu daga. Það er líklega meira í anda loftskrautsins en naumhyggjunnar. Ef ég tapa mér ekki í einhverju jólastressi á síðustu metrunum bæti ég kannski við lýsingu á jólunum sjálfum fljótlega.
Góðar stundir

Web Counter

1 Comments:

At 21 desember, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Það er dásamlegt að lesa þessa upprifjun Helga mín, skrifaðu endilega meira. Þetta með grenigreinarnar og dáið fólk hef ég ekki heyrt áður og á mörgum heimilum sem ég kom á voru sömu siðir og hjá okkur greinar yfir alls konar myndum (meira að segja í Reykjavík)svo þetta var siður víða. En mikið fannst okkur systrunum gaman að skreyta herbergið hans bróður okkar viðbrögðin voru svo góð þegar hann sá herlegheitin! alveg þess virð að leggja á sig vinnu við það.
Hlakka til að lesa meira.
Kveðjur í bæinn, Elsa frænka

 

Skrifa ummæli

<< Home