Súrmeti, flatkökur og þingfréttir
Ætli það hafi ekki verið um þetta leyti sem fór að verða nokkurn veginn hæfilega súrt í sláturtunnunni á Melum 1. Þetta var stærðartunna og innihaldið var eitthvað á þessa leið:Slátur, bæði blóðmör og lifrarpylsa.
Sviðasulta (af kjömmum)
Fótasulta (úr sviðalöppum)
Sviðalappir, heilar
Hrútspungar
Ærjúgur (stundum, lagðist seinna alveg af)
Þessi matur var heilmikið borðaður, einkum á kvöldin því þá voru oft leifar frá hádeginu sem voru drýgðar með súrmetinu. Stundum var líka súrt slátur með hafragraut á morgnana. Ég var ekki mikið fyrir súrt slátur en fótasultan, lappirnar og hrútspungarnir - það þótti mér allt gott, og enn betra þegar ég stálpaðist og fékk þetta sjaldnar. Með súrmetinu hafði mamma oftast bæði rófustöppu og kartöflustöppu. Oft fengum við líka nýjar flatkökur með. Ein sterkasta vetrarminning okkar systra er einmitt eimurinn af flatkökubakstrinum sem leggur um allt hús og saman við hann rennur svo þurrlegur skýrslutónninn í þingfréttaritaranum í útvarpinu, kalt úti, við kannski nýkomnar úr húsunum með ískaldar tær og sársvangar en fengum kannski volgan kökupart sem smjörið rann út af til að sefa sárasta hungrið (nú fer þetta að nálgast 19. aldar lýsingar).
Ég sé mömmu fyrir mér þegar hún var að sækja góðmetið. Þá óð hún með handlegginn upp fyrir olnboga niður í tunnuna og þurfti að gramsa þar góða stund til að finna allar sortirnar. Svo skolaði hún vandlega af öllu saman, handlegg og mat, þegar hún kom inn í eldhús. Ég held að hún hafi aldrei þurft að bretta upp ermi fyrir þessa athöfn, hún hafði svo mikið að gera og var þar af leiðandi svo heitt að hún var yfirleitt alltaf í ermalausum kjól á þessum árum (eitthvað hafði kannski tískan að segja líka).
Ég hugsa að það sæi fljótt undir iljarnar á sumum ógeðsdrykkjaköppum nútímans ef þeir þyrftu að fiska svona kræsingar upp úr tunnu - og borða þær líka.
Ég gæti sett á ræðu um fáránleikann í því að úthúða þessum mat sem skemmdum og ljótum og ég veit ekki hvað en halda varla vatni af hrifningu yfir yfirliðsframkallandi ostum, pikklesuðu grænmeti, þurrkuðu svínakjöti og öllum þessa útlenda geymslumat öðrum sem þykir svo fínn, en sleppi því - í bili a.m.k.
5 Comments:
Ó kæra systir nú svífur maður aftur í tímann.....Reyndar held ég að ég hafi farið alveg á mis við súrsuðu ærjúgrin en hitt góssið stendur mér lifandi fyrir sjónum. Einnig man ég mjög vel eftir hálf frosnum fótum. Það var einhvern veginn alveg ómögulegt að klæða af sér kuldann, þó maður væri jafnvel kominn í þrenna ullarsokka innan í gúmmístígvélunum. Kannski ekki skrítið því frostið fór nú ekki sjaldan upp í 25°c. Ég set þessa köldu fætur líka í samhengi við blessaðar tilhleypingarnar sem gátu nú aldeilis dregist á langinn, miklar "spekúleringar" hjá Jóni bónda í kringum þá vinnu.
Kveðjur og kossar,
Didda systir.
Sæl frænka mín. Ég held eins og þú að ærjúgrin hafi horfið fljótlega. Ég fæ vatn í munninn þegar ég hugsa um flatkökurnar hennar mömmu þinnar (mér finnst einhvern veginn að hún hafi alltaf talað um flatbrauð). Þessi tími dagsins minnir mig líka á Bréfaskóla SÍS og það er einhver notaleg kyrrð yfir honum líka.
Ástarkveðja,
Ína frænka
Hæ hæ
hæ
Ég verð að viðurkenna að ég man ekki einu sinni eftir að hafa heyrt um neyslu ærjúgra fyrr en í þessum pistli, en ég hef nú heldur aldrei verið mikið að fylgjast með súrmetinu...
Bestu jólakveðjur til ykkar allra,
Reynir Þór
Skrifa ummæli
<< Home