21.10.05

Ofurfjölgun lesenda

Ég hugsa að mörg fjármálafyrirtækin þættust góð með þann vöxt sem síðustu viku eða svo hefur hlaupið í lesendahóp minn (sem fyrst í stað gat víst varla kallast hópur). Allt sýnist mér þetta vera skyldmenni mín, andleg (mæðgurnar) og gegnum frændsemi.

Þessi vika hefur annars verið alveg brjáluð, mikill prófarkalestur, þýðingar og alls kyns snatt. En frábær þrátt fyrir annríkið því stórorðabókarhöfundi fer hraðbatnandi, og þá er maður ekki að kvarta yfir tímabundnum önnum.

Mikið væri gaman fyrir okkur frænkurnar að halda ærlegt ættarmót með smá Hellubæjarleshring og tjaldútilegu í títtnefndu Ormsárgili - og þá verður það að vera í Kömbunum, stelpur, allt fyrir neðan brún er ómark, Birna. Það ættu nú ekki að verða vandræði að koma þessu í kring þegar "Jónasarklanen" er kominn með sumarbústað við ána!

Að endingu, skilaboð til verðandi móður: Guðrún frá Lundi er prýðislesning fyrstu mánuðina eftir fæðingu. Mér var bent á þetta, prófaði og fannst stórskemmtilegt. Gæti trúað að lengstu sögur Selmu Lagerlöf væru góðar líka.

Web Counter

5 Comments:

At 21 október, 2005, Blogger Þóra said...

Skömm að segja frá þessu en ég geri það samt. Ég sem meðlimur "þriðju" kynslóðarinnar er ákaflega ókunn Melalandi. "Kambarnir" hafa afskaplega litla merkingu í mínum huga þótt ég hafi oft heyrt pabba tala um þá. Það opnaðist fyrir mér nýr heimur þegar við fórum yfir Haukadalsskarðið í sumar. Hafði að ég held bara einu sinni séð stífluna áður.
Syndajátningum lokið að sinni.

Þóra Ág. frænka

 
At 22 október, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Ég datt inná síðuna þína í gegnum bloggsíðu þeirrar ágætu matarkonu Nönnu. Finn samhljóm hérna og vildi bara lata þig vita af því. Það er jú alltaf gaman ef einhver þarna úti er í harmóníu við mann. Ég er líka aðdáandi norrænna kvenhöfunda, fyrir utan sem þú hefur tíundað, dái ég Kerstin Ekman og er nú að ljúka við Gáruð vötn í trílógíunni hennar. Þekkirðu hana? Ef svo er, máttu alveg blogga um það...ég fylgist með. Bestustu kveðjur úr Bryggjuhverfi. blog.central.is/gaa

 
At 23 október, 2005, Blogger Helga said...

Ég hef ekki lesið neitt eftir Kerstin Ekman. Verð að bæta úr því fljótlega. Bókmenntasmekkur minn er reyndar svolítið tætingslegur. Ég er núna með nýju bókina um Maó á náttborðinu, finnst hún fara svolítið þurrlega af stað en vona að hún nái fljótlega hæðum Villtra svana sem er einhver fróðlegasta bók sem ég hef lesið.

 
At 25 október, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

það væri ekki vitlaust að hrinda þessum útileguhugmyndum í framkvæmd og já bústaðurinn það er nú það, maður þyrfti að rækta oggulítinn peningaskóg!
kv. til allra Elsa frænka

P.S. mikið var ég glöð að lesa um batann.

 
At 08 nóvember, 2005, Anonymous Nafnlaus said...

Frétti af þessari yndislegu ferð ykkar í Hrútafjörðinn og mátti til með að lesa það sem þú hafðir skrifað. Nú er verið að skoða teikningar og annað sem fylgir fyrirhuguðum framkvæmdum. Já Ormsárgilið á eftir að heilla marga þegar þeir uppgötva fegurðina. Svo er þetta með frænkusamkomu, á ekki að drífa í henni sem allra fyrst.
Kveðja frá öllum úr Safamýrinni

 

Skrifa ummæli

<< Home