26.2.07

Bannaðar bækur og ekki bannaðar

Ég man í svipinn eftir þremur* bókum sem voru bannaðar börnum á Melum. Sem auðvitað varð til þess að um leið og fullorðna fólkið brá sér af bæ voru skruddurnar kraflaðar fram úr hillu og leitað að dónaköflunum. Annars lásum við allt sem okkur datt í hug, barna-, unglinga- og fullorðinsbækur. Það var mörg matarholan hjá Lilju, konu Sigga frænda, hún átti t.d. margar bækur eftir Theresu Charles og einhvern Cavling í eins bandi. Svo átti hún Rósu Bennett frá því hún var stelpa, og einhverjar skátastúlknabækur og Þrjár tólf ára telpur, um jafnöldrur í sama húsi sem bjuggu við ólík kjör (nema þetta hafi verið sama bókin, skátarnir og þessar tólf ára...).

Ég var ekki gömul þegar ég las Súsönnu Lennox (Greta Garbo lék hana víst í mynd sem var gerð eftir sögunni); ætli bókin hafi ekki verið svona 500 bls., og hún var í stóru broti. Á Hellubæjarbækur hefur verið drepið áður í þessum pistlum. Heilmikið var til af þýddum bókum, t.d. Fjötrar eftir Maugham, og bækur eftir Cronin. Grænlandsvinurinn Peter Freuchen var þarna líka en ég entist illa við að lesa hann; var ekki mjög spennt fyrir snjó og kulda. Bækur Stefáns Jónssonar voru þarna og ýmsar aðrar ævisögur sem komu út á þessum árum.

Bækur Halldórs Laxness komu ekki inn á heimili foreldra minna fyrr en ég var löngu farin að heiman; þá datt karli föður mínum í hug að kannski væri gaman að lesa Gerplu, og mamma gaf honum hana í jólagjöf. Fjallkirkjan, sem mamma fékk að gjöf fyrir fáeinum árum, er held ég eina bók Gunnars Gunnarssonar á heimilinu.

Vorið sem ég varð átta ára þurfti ég að vera hjá afa og ömmu á Hvammstanga meðan mamma var á spítala fyrir sunnan. Þá hafði amma miklar áhyggjur af mér af því að ég sótti svo í fullorðinsbækur og óholl tímarit sem Anna móðursystir mín átti í haug niðri í kjallara.

Eldri dóttir mín fermist í vor og sú yngri næsta vor. Ég hef reynt eins og ég get að fá þær til að lesa "fullorðinsbækur", bent t.d. á Sálminn um blómið (sem Stína las reyndar eitthvað í fyrir nokkrum árum), og bækur Laxness og Ísabellu Allende, svo að fátt eitt sé nefnt. Þetta hafa þær látið sem vind um eyrun þjóta og haldið staðfastar áfram að lesa sinn Harry Potter, Guðrúnu Helgadóttur, Steinsdæturnar og aðrar bækur sem eru gefnar út handa börnum og unglingum þessi árin - en í síðustu viku rofaði til: sú yngri er byrjuð á Sölku Völku og skemmtir sér vel. Guð láti gott á vita.

Ég hefði kannski átt að harðbanna þeim að lesa "fullorðinsbækurnar".

*Á Melum 1: Dóttir Rómar, á Melum 2: Messalína, á Melum 3: Klíkan.

Web Counter

4 Comments:

At 27 febrúar, 2007, Blogger Þóra said...

Þegar ég kom í mína fyrstu borgarferð einsömul man ég að þú lést mig fá Hús andanna til að lesa. Þið bjugguð á Þórsgötunni og ég hugsa að ég hafi verið jafngömul og Stína er nú. Þarna var "rómantíska" skeiðið mitt nýhafið, ég spændi í gegnum Ísfólkið og Rauðu seríuna. Vakti yfirleitt til svona 4 á næturnar, jafnvel lengur, og fékk mér svo kríu eftir skóla seinnipartinn. Ég man að mamma var nú ekkert of hrifin af þessum "fullorðinslestri" þótt hún bannaði mér það svosem ekki. En til að valda henni sem minnstu hugarangri reyndi ég að láta sem allra minnst bera á tíðum bókasafnsferðum mínum og faldi bókastaflana undir rúmi.

Bestu kveðjur,
Þóra frænka

 
At 01 mars, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Þetta eru yndisleg bókaskrif. Mér datt í hug mikil bók og þykk Líf í læknishendi Það var stórkostlegt þegar við komumst báðar í gegnum hana, rauðeygðar eftir suma kaflana og álitum læknisstarfið göfugast alls.
Svo sýnist mér Þóra líkjast frænda sínum með Ísfólkið, ég held að það séu til í geymslu ca. 40 bækur úr þessari seríu. Ég hef nú ekki komist í gegnum allar, en nokkrar hef ég gripið í.
Kærar kveðjur frá Ínu

 
At 01 mars, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Jæja ég verð að leggja orð í belg. Ég var auðvitað alveg föst í horninu í herberginu "hinumegin" og las Rósu Bennett að ég tali ekki um Sisser og Sissu (skátastúlkurnar góðu). Svo var setið löngum stundum upp á lofti með dönsku blöðin. Þetta man ég vel og Líf í læknishendi )sem mig minnir að sé eftir A.J Cronin). En ég hef ekki lesið vandlega bönnuðu bækurnar því ég man bara ekkert úr þeim. Nú er Saga Eir alveg dottin í Ísfólkið og ég verð að fá nokkrar hjá Ínu handa henni á engar sjálf. Bestu kveðjur í bæinn frá Elsu frænku.

 
At 08 mars, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Það sem ég las mikið af Cronon og Maugham í gamla daga. Ég hef ekki lesið Maugham lengi en las Tunglið og tíeyringur mjög oft sem unglingur.
Bókasafnið hans Jóhanns föðurbróður míns var frábært og eins og sönnum uppalanda sæmdi þá var aldrei neitt mál að fá bækur lánaðar hjá honum.
Kristín Björg
ps. hvaða dag fermist Stína? við erum 1. apríl...

 

Skrifa ummæli

<< Home