19.2.07

Einnota bækur og margnota

Ætli ég hafi ekki kynnst fleiri einnota- en margnota bókum um ævina? Það eru ansi margar bækur sem ég á einhvers staðar en langar lítið til að lesa aftur, jafnvel nokkrar sem mér hefur aldrei tekist að klára. Á ekki-aftur- listanum eru sögur eins og "Eftirþankar Jóhönnu". Þarna er líka smásagnasafn eftir sama höfund, man ekki hvað það heitir. Fleiri bækur frá húsmóður-í-Breiðholtinu-raunsæistímabilinu um 1975 eru á þessum lista. "Bréfin hans Þórbergs" var hræðilega aum bók, ræfilsleg bréf og fyllt upp í með endursögnum úr bókum karlsins. Einhver jólin fékk ég heljardoðrant eftir Birgi Sigurðsson sem ég man ekki hvað heitir en reyndist óttalega plebbaleg. Sama get ég sagt um Oddaflug Guðrúnar Helgóttur; það var í henni einhver tónn sem ég fæ best lýst með því lýsingarorði (eins og ég hef verið hrifin af flestum barnabókunum hennar). Í jólagjöf núna fékk ég enn eina vonbrigðabókina, Tryggðapant eftir Auði Jónsdóttur. Kannski bjóst ég við of miklu, eftir allt umtalið og lestur fyrstu bókanna hennar, en ég verð að segja það sama um "Fólkið í kjallaranum", sem ég las loks núna um daginn. Báðar þessar bækur set ég á ekki-aftur -listann.

En svo er einn og einn gimsteinn inni á milli. Ég fékk "Sumarljós og svo kemur nóttin" í fyrra og las hana aftur eftir áramótin. Þá var hún jafnvel enn betri. Þetta er frábærlega vel skrifuð bók, og full bæði af húmor og hlýju, bæði lýsingar á persónunum og svo þessi frábæru innskot eða útleggingar sögumanns. Ég ætla bara að vona að hann fái Norðurlandaverðlaunin, að minnsta kosti frekar en hinn íslenski höfundurinn. Mér tókst reyndar að klára fyrstu tvær bækur Hallgríms Helgasonar og fannst "Þetta er allt að koma" á köflum hrikalega fyndin og kvikindisleg en hann hefði þurft styrka hönd eða kannski vönd (svo ég noti lúðalegan orðaleik eins og hann gerir sjálfur svo oft) til að hjálpa sér að stytta bókina um helming eða svo. Ljóðmæli Hallgríms eru afspyrnuvond, eiginlega svo að maður hefur ekki brjóst í sér til að rekja það frekar og enn síður lyst á að lesa þau til að tína til dæmi því til sönnunar. Þau eru einfaldlega ort af manni sem yrkir án þess að geta það. 101 Reykjavík glímdi ég við nokkur kvöld en ákvað svo að lífið væri til að hafa gaman af því, að minnsta kosti stundum, og hætti. Sama verð ég að segja um doðrantinn sem kom á eftir, ég hætti einhvers staðar um miðja bók, glóandi af bræði yfir egótrippinu og gagnrýnisleysinu sem skein út úr hverri setningu. Hvaða forlag gefur þetta annars út?

---

Nú er hafin hjá mér dálítil atlaga að Þórbergi. Ég verð að viðurkenna að ég hef gefist upp á sumum bókum hans, t.d. Suðursveitarbókunum, þótt þær heldur langdregnar, og ekki reynt að lesa aðrar, t.d. séra Árna, en nú er ég byrjuð á því mikla verki og skemmti mér bara vel. Kannski meira um það síðar

Web Counter

3 Comments:

At 20 febrúar, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Já, það er þetta með bækur. Ég er farin að líta í bókahillurnar og er að hugsa um að grisja! þ.e. að fara með norður. Eitthvað lenti hjá mér úr búi ömmu Elísabetar og svo eru nokkuð margar margnota bækur úr búi Krumma sem mig langar til að hafa þar svo gestir og gangandi hafi eitthvað að glugga í þegar þeir verða ekki að glápa út um gluggana og dást að útsýninu. Annars var ég að hugsa um að reyna að verða mér út um Guðrúnu frá Lundi sem mér finnst að allir eigi að lesa reglulega!
Bestu kveðjur frá Ínu

 
At 20 febrúar, 2007, Blogger Helga said...

Einmitt, um að gera að fara með eitthvað í bústaðinn. Sammála um Guðrúnu frá Lundi, Dalalíf er algjört hunang, sérstaklega fyrri hlutinn.

 
At 26 febrúar, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Uppáhaldsritverkið mitt, séra Árni.
Góða skemmtun.

 

Skrifa ummæli

<< Home