3.9.08

Íslensk sölumennska, verðlag og þjónusta

Ég þarf að fá mér stiga og er búin að fá tilboð frá tveimur seljendum. Hjá öðrum þeirra gat maður fengið að sjá sýnishorn af ýmsum gerðum sem er hægt að láta smíða eða panta frá útlöndum, hins vegar voru menn ekkert að ómaka sig hingað á staðinn til að skoða aðstæður. Hinn sendi menn á staðinn sem mældu allt og lýstu þessu lauslega fyrir mér. Ég átti svo leið í þá martraðarkenndu götu Smiðjuveg í dag og ákvað að koma við hjá þessum síðarnefnda framleiðanda, úr því ég var nú komin í götuna (ef götu skyldi kalla). Ég fann húsið, það var númer 4B en samt nokkurn veginn skáhallt á móti 28! Til þess að komast inn í fabrikkuna varð ég að fara nokkurn veginn heilan hring kringum húsið; það nægir sem sé ekki að gatan sé kaos frá upphafi til enda, heldur er hvert hús við hana kaos sömuleiðis. Að fyrirtækinu komst ég þó og þá blöstu við mér raðir af vígalegum mönnum mundandi rafsuðutæki með hávaða, reyk og blossum, svo að ég þorði auðvitað með engu móti inn. Ég fann svo aðrar dyr inn á litla skrifstofu og þar sat - auðvitað - kona. Ég spurði hvort ég gæti fengið að sjá sýnishorn af stigum. Nei, sagði hún, það eru myndir þarna á veggnum. Ég sagði henni að ég kysi nú að geta séð og þreifað á nokkrum sýnishornum áður en ég sletti í þetta svo sem eins og milljón. -Það er stigi frá okkur í Smáralind, sagði hún, þessi þarna upp í bíóið. Ég sagði henni að ég væri ekki spennt fyrir hringferð um landið í leit að exemplörum. -Landið, sagði hún, það er örstutt héðan í Smáralindina. Ég muldraði eitthvað, ég held ekki þakkir samt, og fór!

(Á heimleiðinni kom ég við í Tengi. Þar voru nokkrir afgreiðslumenn og enn færri viðskiptavinir. Mig undrar það eiginlega ekki - þarna er leitun að strípuðu baðkeri undir 100 þús., sturtuklefar eru á 200 þús. og upp úr og svo er hægt að fá þarna alls konar fansí vaska á tugi ef ekki hundruð þúsunda.)

Ég fór í Bónus í gær, m.a. til að kaupa lambalæri, þurfti þrjú. Það voru til tvö, og ég fann ekki nokkurn mann sem gat sagt mér hvort fleiri væru til á bak við. Ég vatt mér því yfir götuna í Krónuna til að kaupa þetta eina sem á vantaði. Það kostaði nokkurn veginn tvisvar sinnum meira. Allt í lagi með það. Trétannstönglar voru þrotnir í Bónus og því ætlaði ég að kaupa slíka í Krónunni. Það var ekki fyrr en ég fann verslunarstjórann sjálfan sem ég komst að því að þeir voru ekki til þar heldur. Verslunarferðin tók hálfan annan tíma, sem ég hefði fegin viljað eyða í eitthvað annað.

Ætli það sé bara einn trétannstönglaheildsali í landinu og hann kannski farinn á hausinn?

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home