7.3.06

Dúkkulísuleikur

Við horfðum í gærkvöldi á rjómann af Óskarsverðlaunaafhendingunni í norska sjónvarpinu. Þetta var allt í lagi, en aðalskemmtunin auðvitað að horfa á alla fallegu (og ljótu og hallærislegu) kjólana og gefa umsagnir. Mér finnst alltaf óskaplega gaman að horfa á falleg föt, ekki síst ef þau eru í lit. Ég var sammála fjölmiðlunum að þessi þarna í gula kjólnum með rauða varalitinn var flottust, enda löngu búin að sjá hvað rautt og gult eru góðir litir saman fyrir sálina. (Það verður gaman að sjá páskaliljurnar í rauða Karen Blixen vasanum sem við keyptum í Köben í desember.)

Í framhaldi af þessari kjólasasýningu fór ég að rifja upp dúkkulísurnar frá því ég var stelpa. Mamma fór einu sinni til Reykjavíkur og gaf mér fjórar dúkkulísur þegar hún kom til baka. Ein var ljóshærð, önnur rauðhærð, þriðja með brúnt hár og fjórða með svart. Litir fatanna voru samkvæmt hefð þeirra tíma um hvað væri við hæfi; sú ljóshærða helst í bláu, rauðhærða í grænu, svarthærða í rauðu og ætli sú með brúna hárið hafi ekki verið í gulu? Við Ína frænka lékum okkur að þessum dömum þar til þær duttu í sundur. Minnir að við höfum skírt þær líka; ein hét örugglega Bryndís. Ég er illa svikin ef ekki hefur verið þarna Ásdís Fjóla líka, það var uppáhaldsnafn okkar Ínu beggja og við rifumst stundum um hvor okkar skyldi heita því nafni í leikjum.

Aftur að Óskarnum. Ósköp og skelfing var að sjá kellingargreyið hana Dolly Parton. Annaðhvort er þetta átröskun á háu stigi eða öll gerviefnin í og á henni eru búin að éta svona innan úr henni. Eins og hún var sæt og skemmtileg í Nine to five forðum.

Web Counter

4 Comments:

At 08 mars, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Ég held að þær hafi verið búnar að missa útlimi, eftir að hafa þurft að nota stuðningsspelkur við öll liðamót auk hálskraga. En kjólarnir voru glæsilegir bæði þeir sem fylgdu með dömunum og einnig þeir sem voru heimagerðir.
Mér finnst endilega að einhverjar dúkkulísur hafi komið í leitirnar þegar farið var í tiltekt á loftinu hjá Krumma eitt sumarið. Ætli þær hafi ekki tilheyrt Þóru eða Birnu.
Það þarf að fara að hittast og rifja upp gamla og góða daga.
Kveðja,
Ína

 
At 08 mars, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Talandi um Dolly, þá var hún náttúrlega stjarna kvöldsins! Flottasta lagið sem var tilnefnt og ofsafallegur texti! En hún er heldur horuð orðin, stúlkan sú!

 
At 08 mars, 2006, Blogger Þóra said...

Gulur var uppáhalds liturinn minn þegar ég var krakki og einhvern veginn finnst mér Þóru nafnið svolítið gult á litinn. Átti einu sinni heiðgul jakkaföt, þau voru ógeðslega flott.
Verð að fara að kaupa mér einhverja gula flík.
Bestu kveðjur suður,
Þóra

 
At 08 mars, 2006, Blogger Helga said...

Úr því minnst er á gult, ég átti einu sinni gult dress, skærgula blússu, rosavíða með ermum fram á olnboga, hálfgerðum púff, og hneppt vítt pils. Þetta var úr hör og krumpaðist eins og engill (það er sítat í Heiðar snyrti) og gerði sig eiginlega ekki fyrr en ég fór með það til Amsterdam og Austurríkis og notaði í þokkalegum hita, og orðin dálítið brún. Kannski ég grafi upp mynd af mér í þessu til að sýna þér, Þóra.

 

Skrifa ummæli

<< Home