13.3.06

Naflaskoðun, vond blöð og vondir blaðamenn

Dvölin í Hrútafirði var ánægjuleg eins og þegar hefur komið fram. Að vísu kastaði bardagi minn við heita pottinn nokkrum skugga á lok dvalarinnar (loft sem truflaði eðlilegan gang) en elskan hann Kalli mágur minn kom og reddaði þessu. Þetta varð til þess að ég tók ekki eins vel á móti Elsu frænku minni og ég hefði viljað. Ég verð nefnilega svo heltekin af svona vandamálum þegar þau koma upp, en blessunarlega fljót að gleyma þeim. Nú er þetta farið að líkjast óþægilega mikið öllu þessu persónulega bloggi sem fyllir næstum dagblöðin flesta daga. Aðallega er þetta eftir ungt fólk sýnist mér og lýsir ýmsum raunum sem það lendir í og svo flýtur með sjálfsrýni af ýmsu tagi. Mikið djöfull á þetta illa heima í dagblöðum. Sem dæmi get ég nefnt þegar liðið reifar áhyggjur sínar af aldrinum (kannski 23ja ára) og rifjar upp "gamla daga" sem getur næstum verið í hitteðfyrra, lýsir ferðum á skemmtistaði og greinir frá óbeit sinni á rúsínum eða öðrum álíka spennandi karaktereinkennum. Þetta er yfirleitt viðvaningslega skrifað og ekki vottur í því af húmor. Mogginn þykist eitthvað vandaðra blað en önnur (sú "vandvirkni" lýsir sér helst í því að það er leiðinlegra en önnur blöð) en það er líka fullt af svona rusli. Úr því að minnst er á Moggann, þar er aftur farinn að láta á sér kræla blaðamaður sem heldur að hann sé stílisti. Hann heitir víst Pétur Blöndal og tekur viðtöl sem hann kryddar með alls kyns stemmningsskrauti en veldur því ekki, minnir pínulítið á þá lúnu skrautfjöður Moggans, Árna Jónsen. Hann er svona álíka blaðamaður og alnafni hans er þingmaður, þá skilja allir hvað ég meina. Leiðindakóngur Moggans er samt vínsmakkarinn þeirra, Sigurgeir Steingrímsson, lengra held ég ekki að verði komist í tilgerð. Sýnir kannski best menningar- og menntunarstig menntamálaráðherrans að velja sér hann fyrir aðstoðarmann.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home