12.1.07

Þegar norðurljósin sungu


Ákafur Biblíulestur minn, fréttir af halastjörnu og tal um norðurljós varð til þess að ég fór að rifja það upp þegar ég heyrði í norðurljósunum.

Þetta var einn veturinn minn á Laugarvatni. Við vorum á leið úr leikfimi nokkrar stelpur (aldrei slíku vant hafði ég mætt) og það var norðangarri og skítakuldi en heiður himinn og óvenjuleg norðurljósadýrð, með regnbogalitum, ekki bara þessir gul-græn-bláu eins og er venjulegast. Við fórum auðvitað að góna á þetta og þá tókum við eftir skrítnum hljóðum og litum hissa hver á aðra, trúðum varla eigin eyrum! En þegar við hlustuðum betur var ekki um að villast, hljóðin sveifluðust í nákvæmum takti við hreyfingu norðurljósanna - engin námsmey Ingunnar leikfimikennara hefði getað náð þeirri taktvísi. Við horfðum og hlustuðum eins lengi á þetta og við þoldum vegna kuldans, en fórum svo heim á vist.

Hvernig var svo tónlistin? Þetta voru einhvers konar hátíðnihljóð, minnti jafnvel á raftónlist. Hvað hétu tilraunatónskáldin okkar, Atli Heimir, Magnús Blöndal? Þeir hefðu sjálfsagt getað notað þetta í frumlegt, en kannski ekki að sama skapi áheyrilegt, verk.
Ef maður gáir að þessu fyrirbæri á Netinu sést að margir hafa vitnað um þetta en ef marka má það sem ég las hefur aldrei tekist að taka svona hljóð upp svo þetta telst því ósannað fyrirbæri.

Gaman að vita hvort einhverjir aðrir en námsmeyjar í útskriftarárgangi 1976 frá Laugarvatni hafa upplifað þetta fyrirbæri.

Web Counter

1 Comments:

At 14 janúar, 2007, Blogger Unknown said...

Ótrúleg saga og ótrúlega falleg mynd!
(ótrúlega var líka fallegt dúllukortið sem mér barst á dögunum...)
Silfurskotturnar sungu nú fyrir Megas. Voru það kannski bara norðurljósin?

 

Skrifa ummæli

<< Home