12.3.07

Fermingarveislur á síðari hluta síðustu aldar

Mér finnst ekki svo galið, úr því fermingar eru fram undan hér í fjölskyldunni, að rifja upp hitt og þetta frá fermingum sem ég man eftir.

Undirbúningur fyrir fermingar á Melum var nokkuð flókinn, ekki síst ef í hlut áttu fermingarstúlkur. Í fyrsta lagi þurfti fermingarföt. Fermingarkjólar voru saumaðir heima. Suma þeirra man ég. Ég man að Ína var í eplagrænum krymplínkjól. Hún kom að sunnan úr fermingarundirbúningsferðinni og tilkynnti að tískulitirnir þetta sumarið væru appelsínurautt og eplagrænt. Hún valdi þann síðari því þá þótt enn of djarft að rauðhærðar konur klæddust appelsínurauðu. Ég man ekki fermingarkjól Elsu. Sjálf var ég í túrkisbláum kjól með hvítum blúndukraga. Ég man ekki kjól Þóru. Ingunn var í smárósóttum, aðallega fjólubláum, kjól. Það vorið var mamma stórvirk í saumaskapnum því hún saumaði fermingarkápuna á Ingunni og kápu á mig líka, úr ljómandi fallegu hvít- og gulbrún- (Ingunnar) og hvít- og dökkblámynstruðu ullarefni (mín). Þetta voru mjög fínar flíkur. Mig minnir að þetta sama vor, eða kannski fyrir árshátíð, höfum við Ingunn fengið stuttbuxur og rósóttar blússur við. Fínar flíkur en hversu vel þær fóru okkur (alltént mér) skal ósagt látið. Lilla og Birna voru í gul- og blá- og rauðstykkjóttum kjólum. Fermingarkápan mín var keypt í Reykjavík, rauð, og ætli ég hafi ekki farið í hana svona þrisvar. Auk þessa voru gjarnan saumaðar einhverjar flíkur á ófermdu börnin og auðvitað mömmurnar.

Svo voru það veislurnar. Ég held að það hafi alltaf verið kökur nema í veislu Lillu og Birnu; þar var matur. Villi á Brekku var fastheldinn á gamla siði og var ekki hrifinn af þessari nýjung, að vera með mat. Hann vildi sína tertuveislu og ekkert annað. (Þegar mamma bauð honum grænar baunir einhvern tíma þegar hann kom í steypuvinnu fussaði hann og sagðist ekki éta gras.)

Það var í fermingarveislunum sem við kynntumst fyrst ýmsu af því sem nú er orðið jafnvel daglegur matur. Það voru til dæmis rækjur. Einhvern veginn finnst mér alltaf bragðið af þessum fyrstu rækjum hafa verið miklu betra en þeim sem síðar komu. (Tengdamóðir mín taldi skýringuna vera þá að áður voru rækjurnar frystar í klump en ekki hver í sínum klakahjúp eins og nú tíðkast, þess vegna hafi bragðið varðveist miklu betur.) Svo var auðvitað mæjonesið og ítalska salatið, mikið fannst manni það gott. Á brauði man ég eftir ávaxtasalati líka. Það voru þurrkaðir ávextir, sveskjur, apríkósur, perur og döðlur og súkkulaðibitar í. Mig minnir að lambasteik hafi líka verið höfð á brauð í þessum veislum. Klassískar rjómatertur voru þarna og kleinur held ég líka og formkökur. Svo barst ein og ein ný sort. Kókosterta með eggjarauðu/súkkulaðikremi (sem Jói Fel kallar bounty-tertu) er enn ein af mínum uppáhaldstertum. Marengsinn barst í Hrútafjörðinn á þessum árum og var tekið fagnandi. Ég man ægilegan taugatitring kvennanna því hann féll stundum. Kannski það hafi stafað af óstöðugu og litlu rafmagni úr Brú? Svo komst einhvern tíma raspterta í tísku (sá uppskrift að henni nýlega í blaði), líka kornfleksterta og svo man ég eftir kaneltertu, næfurþunnir botnar með rjóma á milli. Auðvitað voru brún og hvít rúlluterta og brún og hvít lagkaka. Helstu smákökusortir voru þarna líka. Það voru líka brauðtertur, yfirleitt í brauðstærð, sem sé minni en núna. Eftir allt kökuátið voru, að minnsta kosti í fyrstu veislunum sem ég man eftir, niðursoðnir ávextir með rjóma. Þá útvegaði okkur Sigurjón maðurinn hennar Goggu móðursystur minnar, leigubílstjórar voru með góð sambönd á þeim árum. Held að hann hafi líka útvegað séniverinn í fertugsafmælisveislu pabba sem var ægilega skemmtileg en það er nú önnur saga. Niðursoðnir ávextir þóttu algert hnossgæti á þessum árum enda ekki daglega á borðum.

Veislur Himma og Gústa tókst mömmu að undirbúa án ísskáps á heimilinu. Ég veit ekki hvernig hún fór að því en líklega hafa þetta verið einu skiptin sem hrútfirska norðanstrokan var hjartanlega velkomin.

Gestir í þessum veislum voru allt Melafólk, nágrannar af bæjunum í kring, amma og afi og amma í Reykjavík og slæðingur af móðurfólkinu mínu. Einhvern veginn komst allt þetta fólk fyrir í 80 fermetra húsinu. Ég man alltaf þegar amma á Hvammstanga var að hjálpa mömmu að þrífa fyrir einhverja veisluna og það var fjörugt lag í útvarpinu og hún fór að dansa við kústinn - finnst þess vegna "Hún amma er hjá mér um jólin" eiga svolítið við um hana líka.

Gjafir voru alveg ágætar. Ég fékk úr frá mömmu og pabba eins og þá var siður og svo fékk ég eitthvað af skartgripum, skartgripaskrín frá Önnu ömmusystur minni, og ég man vel sítrónugul nælonnáttföt (hnésíðar buxur). Peninga gáfu sumir þá eins og núna. Annars er minningin um gjafirnar svolítið farin að dofna, ég man matinn og fötin best.

Web Counter

3 Comments:

At 13 mars, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Mikið er nú gaman að rifja þennan tíma upp. Ég var að segja einhverjum frá því þegar við fórum í okkar fyrsta skólaferðalag á Borðeyri, Gústi þá nýfermdur og hann og Óli á Hlaðhamri höfðu báðir fengið PIER POINT úr í fermingargjöf og voru algerlega sammála um að þetta væri besta tegundin. Þú talar um ísskápsleysi. Mig minnir að þær hafi fengið að frysta ísinn í Brú og þar hafi líka verið geymdar rjómatertur í kæli, tertur með rauðu Yello hlaupi í miðjunni og seinna komu svo niðursoðnir ávextir á milli. Það er örugglega rétt hjá þér að allir fengu eitthvað nýtt fyrir fermingarnar en mest var lagt í föt fermingarbarnsins.
Veislan þeirra Lillu og Birnu var líka sérstök að því leyti að þar voru í fyrsta skipti kaldir kjúklingar á veisluborði á Melum, ég held að Gunnar mágur minn hafi líka séð um skreyttan lax og það sem Villa blessuðum þótti nú líka að það væri borðaður kvöldmatur á miðjum degi, svo einnig það að hann fór í fermingu til Nonna á Bálkastöðum sama daginn og þar var líka matur!! En nú líður að fyrstu veislunni við Ormsána, þar verða ekki kjúklingar ef minn maður fær að ráða.
Góðar kveðjur frá Ínu.

 
At 13 mars, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Fyrirgefðu Helga mín, en fyrsta veislan sem ég man eftir er skírnarveisla þeirra Þóru og Ingunnar og þar var svona terta með rauðu Jelló.

 
At 14 mars, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Minn kjóll var dökkblár og það voru buxur líka því þá voru dressin svo mikið í tísku. Þetta er ljómandi skemmtileg upprifjun haltu endilega áfram frænka mín.
Góðar kveðjur til allra þinna.
Þóra Jónasar.

 

Skrifa ummæli

<< Home