28.5.07

Allt í drasli

Slíkt þykir ekki gott á heimilum en rusl og drasl úti virðist vera "inni" núna. Ægisíðan, Nauthólsvíkin og svæðið þar fyrir austan kemur illa undan vetri. Eða kannski fyrsta ári nýja borgarstjórnarmeirihlutans. Það hefur ekkert verið hreinsað meðfram stígnum á Ægisíðunni; þar ægir saman þara- og spýtnabraki, grjóti, skít, plasti og bréfarusli. Fjaran er full af spýtnabraki, plasti og öðru drasli. Ég keyrði Suðurgötuna í gær, fallegustu götuna í Reykjavík. Ég held að hún hafi ekki verið sópuð í vor. Ég fór í yndislega gönguferð í Öskjuhlíðinni í dag með dóttur minni og vinkonu hennar. Okkur blöskraði ruslið og draslið. Tómir plastbrúsar undan guð má vita hverju, einnota grill, bjórdósir og alls kyns aðrar umbúðir skreyttu eitt hólfið í "gjánni" - líklega úr partíi frá í fyrra eða kannski hitteðfyrra. Þegar við vorum að koma upp úr "gjánni" að Keiluhöllinni tók steininn úr. Vírar, net, teinar, pokadræsur - tveir tómir pokar undan steinum frá MB-Vallá - kannski að Árni Johnsen hafi hent þeim þarna? Við Keiluhöllina sjálfa var fullt af timbri, vörubrettum og slíku dóti, eins og hráviði um allt.

Þegar maður upplifir svona reynir maður að finna einhverja skýringu. Getur þetta verið vegna þess að það kemur enginn út úr bílunum lengur? Finnst fólki umhverfið fyrir utan bílinn vera einhvers konar blindur sjór, gímald sem gleypir við öllu og ekki þarf að hafa áhyggjur af af því maður kemur þangað aldrei, eða í mesta lagi einu sinni á ári til að halda villt partí í Öskjuhlíðinni, sem maður passar sig á að heimsækja aldrei aftur?

Samt er eins og þversögn í þessu - mér sýnist t.d. miklu minna rusl núna með fram veginum fyrir norðan en var þegar ég var krakki. Kannski er skýringin sú að það er lengi búið að reka stífan áróður fyrir hreinu og fögru landi - úti á landi - en menn fatta ekki að Reykjavík er líka land.

Það er sektað fyrir of hraðan akstur, fyrir að nota ekki belti, fyrir að tala í farsíma, fyrir að leggja ekki rétt eða borga ekki í stöðumæli. Nú er kominn tími til að svífa á helvítis sóðana sem láta hamborgaraumbúðirnar gossa út um bílgluggann á Miklubrautinni (sá það sjálf) eða djúsfernurnar fjúka frá 10-11 yfir til mín og SEKTA ÞÁ.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home