Að ásaka aðra um ofsóknir
Það er ekki gæfuleg leið fyrir stjórnmálamenn til að afla fylgis kjósenda eða yfirleitt ef maður vill fá einhverju áorkað í lífinu - held ég.Ég er löngu orðin hundleið á íslenskri pólitík og enn leiðari kannski á pólitíkusunum - en finnst einhverjum aðferð Samfylkingarinnar sniðug? Að kvarta yfir óréttlátu umtali, að Ingibjörg Sólrún sé töluð niður. Hver andskotinn er þetta eiginlega, ég hélt að Ingibjörg Sólrún væri fullfær um að rífa kjaft á móti. Kannski stafar þessi vandræðagangur af því hvað innsti kjarninn í Samfylkingunni (fyrir utan Össur auðvitað sem er alltaf svolítill trúður) er helvíti eitthvað leiðinlegt og alvarlegt fólk. Það gneistar nú ekki beinlínis af Þórunni Sveinbjörns, Steinunni Valdísi eða Degi B. Eggertssyni, ha? (Reyndar átti ég erfitt með að muna þetta mörg nöfn.)
Það eru auðvitað fleiri en Samfylkingin sem hafa reynt að beita þessum "allir eru vondir við mig" töktum. Til dæmis nútíma kvennahreyfing, eiginlega eins og hún leggur sig. Allt gengur út á að alltaf sé illa farið með konur, það er valtað yfir þær í vinnu og pólitík, þær eru barðar heima hjá sér og nauðgað bæði þar og annar staðar, svona var þetta og svona heldur þetta áfram, nema karlarnir hætti að vera svona vondir. Ég held að þetta lagist ekki fyrr en konum leyfist að vera bara grimmar og (hér getur lesandinn sett annað lýsingarorð sem byrjar á sömu tveimur stöfum) eins og karlarnir.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home