14.3.07

Sölusálfræði

Ég fæ stundum stundarofsóknarbrjálæði í verslunum. Slíkt æði kom yfir mig í gær, vægt að vísu. Þannig er að hér hefur verið lasleiki á heimilinu, nánar tiltekið hefur einhver fjölskyldumeðlimur vakið hina með hóstaköstum nokkrum sinnum á nóttu í u.þ.b. sex vikur. Kannski ekki að undra að maður sé orðinn dálítið nervös og þreyttur.

Það vaknaði grunur um hita í eldri heimasætunni. Þá kom í ljós að eyrnahitamælir heimilisins er orðinn heldur betur óáreiðanlegur því rafhlaðan er nærri búin. (Þessir gömlu eru ekki vel séðir.) Ég hafði auðvitað ekki vit á að taka mælisræfilinn með mér en gerðist svo djörf að spyrja í tveimur apótekum hvort þar væru til rafhlöður í svona mæla, sem ég reyndi eftir bestu getu að lýsa. Nei, því miður.

Ég spurði hvort þessi útbreiddi rafhlöðuskortur væri kannski viljandi, til að neyða fólk til að kaupa bara nýja græju (ca. 7000 kr.). Það töldu starfsstúlkurnar af og frá. Þær sögðu mér reyndar í óspurðum fréttum að það væri líka skortur á rafhlöðum í eina gerð heyrnartækja, líklega til að mótmæla þessum áburði.

En hvað gerir áhyggjufullur faðir sem er sendur út í apótek í skyndi til að kaupa rafhlöðu í hitamælinn, og æpandi eyrnaveikt barn heima, ef rafhlaðan er svo ekki til? Hann kaupir auðvitað nýjan mæli. Það var einmitt það sem Óli gerði fyrir ca. þremur árum. Ég lét hins vegar ofsóknaræðið gagntaka mig og strunsaði út, mælislaus.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home