Af draumum
Alveg er ég viss um það að ef til væri aðferð til að kópíera drauma fólks væri ég ekki stödd hér á þessu skeri sem hvunndagslegur þýðandi og prófarkalesari. Nei - ég væri höfundur ófárra skáldsagna og/eða kvikmynda. Svo magnaðir og æsilegir geta draumar mínir verið. Í nótt dreymdi mig t.d. einn mjög glæsilegan. Þetta var einhvers konar ástarsögudraumur og ég var eins konar sögumaður sem rifjaði upp sögu glæsilegs pars, íslenskrar konu um þrítugt (fyrir ca. 20 árum) og jafnvel enn glæsilegri karls frá Austur-Evrópu, ég get því miður ekki neglt hann niður á korti. Hann var hingað kominn til að stjórna leikriti, held ég, og hún var búningahönnuður eða eitthvað svoleiðis, alla vega töluvert listrænt. Eitthvað varð til að skilja þau að, hann fór til síns heima, en hún sat eftir, ólétt af sexburum! Þá fregn flutti henni læknir sem hún var kunnug, man að hún benti á sónarblaðið og sagði tvö og svo hélt hann áfram að telja. Reyndar var gert ráð fyrir því í þræði sögunnar að ca. helmingur sexburanna myndi visna upp og deyja í móðurkviði. Úr sögunni man ég óljóst að leikurinn barst í fjárhús (líklega á Melum), í einhver gömul hverfi Reykjavíkur, sem allt í einu voru orðin til, og upp á háan klettadrang með svellalögum í myrkri og hríð á Yaris. Ég ætla ekki að rekja þetta frekar, enda get ég það varla, en verð að geta þess að þegar ég var að vakna og átta mig á því að þetta var allt saman draumur þá hugsaði ég: Þessi er efni í smásögu að minnsta kosti, ef ekki í nóvellu. En jafnóðum og vakan tók völdin hripaði sagan úr hausnum á mér svo ekki varð eftir nema þessar slitrur sem hér voru raktar. Þetta er eins og að heyra brandara, gleyma honum, reyna að segja hann og verða að segja "hann var ofsafyndinn," þegar það mistekst.(Karlpersónan sló alla núlifandi sjarmöra kvikmyndanna út, það get ég sagt ykkur!)
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home