10.4.07

Kosningasjónvarp - eða fæst orð bera minnsta ábyrgð

Ég horfði á Kastljósið í gær. Ég var orðin svolítið forvitin um gang "kosningabaráttunnar", var jafnvel farin að halda að allt í einu hefði verið ákveðið að hætta við kosningar. Það hefði eiginlega ekki komið mér á óvart - og ég er handviss um það að ef sá möguleiki væri fyrir hendi að lengja kjörtímabilið um segjum tvö ár þætti núverandi valdhöfum ekkert sjálfsagðara, enda hálfpirraðir á almenningi og finnst það greinilega mjög glæfralegt að láta svoleiðis skepnu greiða atkvæði um alvarleg mál (sbr. fjölmiðlafrumvarpið sáluga og álversatkvæðagreiðsluna um daginn).
Þetta reyndist töluvert fróðlegur þáttur. Ingibjörg stóð sig vel og mér fannst henni oft takast að minna á alvarlegustu málin. Steingrímur var líka skeleggur og öruggur eins og venjulega. Ómar var hátt uppi og einlægur. Guðjón Arnar átti svolítið bágt vegna útlendingaumræðunnar. Framsóknarformaðurinn ruddi út úr sér nokkrum alveg óskaplega stofnanalegum ræðustúfum, sá síðasti var frábærtm dæmi um það hvernig hægt er að nota mörg orð til að segja ekki neitt. Aðferð forsætisráðherrans var alveg gagnstæð við þetta. Hann virðist telja það affarasælast að segja sem minnst, helst steinþegja. Ég hafði orð á þessu við Óla og hann var strax með á nótunum. "Já, þetta er einmitt það sem Óli gr... gerði 94," sagði hann. "Og þú manst hvernig það gekk!" Ég mundi það auðvitað.
Í lokin var svo vandlega undirstrikað að allir gengju óbundnir til kosninga. Kannski er þetta það sem angrar mig mest sem kjósanda. Maður kýs eftir bestu samvisku, býst kannski ekki við byltingu, en alla vega breytingu. Og hvað gerist svo? Litli tækifærissinnaði miðjuflokkurinn tapar alltaf en hangir samt sem áður alltaf áfram í ríkisstjórn. Þetta virkar því svolítið eins og í Sovét forðum, þar sem menn "kusu" eina flokkinn í boði.
Ég gerði heiðarlega tilraun til að horfa aftur í kvöld en varð frá að horfa þegar Guðni byrjaði að mæra íslenskan landbúnað og bændur og beljur og allt það og - allir hinir líka - þetta var eins og tryllt Hvítasunnusamkoma. Hvað er að þessu fólki? En að reyna að ræða hvað þetta er dýrt og hræðilega flókið kerfi og hvað það færir bændum lítið þrátt fyrir fjárausturinn í það - það hugkvæmdist engum. Samfylkingarmaðurinn reyndi af veikum mætti að útskýra nýjar hugmyndir síns flokks en var kaffærður af sérstrúarsöfnuðinum í öllum hinum flokkunum.

(Með vísan til síðasta pistils verð ég að lýsa ánægju minni með nýju sundlaugina á Hofsósi. Þessar konur kaupa sér greinilega ekki dýrar töskur fyrir alla peningana sína eða láta útjaskaðar poppstjörnur fíflast fyrir sig í afmælunum sínum. Þær hefðu hæglega getað gert sér rafgirtar sundlaugar heima á bæjunum sínum, bæði stórar og flottar, en vildu frekar bjóða sveitungum sínum og okkur sem eigum leið um með sér. Gott hjá þeim.)

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home