13.7.07

Eftir mánaðarhlé

Ég sé að það er akkúrat mánuður frá síðustu færslu. Svo menn haldi ekki að ég sé dauð er best að skella hér inn einni stuttri. Síðan síðast er ég búin að vera hálfan mánuð í Króatíu og viku norður í Hrútafirði, var að koma þaðan í dag. Króatíudvölin var fín, svona eins og slíkar dvalir eru, ég nenni ekki að rekja það.

Aldraður faðir minn og fyrrverandi bóndi í Hrútafirði var með okkur tvo fyrstu dagana fyrir norðan. Það var orðið ansi langt síðan hann kom síðast og því var mjög gaman að fá að vera með honum þessa daga.

Fjörðurinn heilsaði fallega á föstudagskvöldið fyrir viku en laugardagsmorgunninn var öllu kaldranalegri; þokumugga á brúnum og rétt um tíu stiga hiti. En eins og pabbi sagði einu sinni við Gísla á Hofi í Vatnsdal þegar hann var að býsnast yfir kuldanum alltaf í Hrútafirði: "Það er ekki fyrir neina aumingja að búa þar." Svo bætir karl alltaf við athugasemd um það að nú séu flestir bæir í Vatnsdal komnir í eyði en búið myndarbúi víðast hvar í Hrútafirði ennþá. Það var sem sé ekki annað að gera en að búa sig vel í hlaupa- og gönguferðir. Á sunnudeginum eftir hádegi brast á með sólskini, rétt eins og einhver hefði vitað af þeim gamla fyrir norðan og þá fórum við með hann upp að stíflu í Ormsá og skoðuðum líka Norðlingafoss sem við trúum að sé fossa hæstur í Hrútafirði - ekki þarf að deila um það að hann er fegurstur þeirra. Óli keyrði svo þann gamla suður yfir heiði síðdegis þennan dag.

Við vorum ýmislegt að sýsla fyrir utan göngur og hlaup, slá garðinn, bera á pallinn og svo voru það hannyrðirnar. Fyrst gekk ég frá krosssaumsmynd sem ég var að sauma og á sér nokkra sögu. Þannig var að þegar ég var í Reykjaskóla bjó ég til rýja-veggmynd sem var einkum ætluð litlu systur minni, Diddu. Þetta var heilmikill renningur sem skartaði myndum af uglu, pöddu (maríuhænu nánar tiltekið) og fiðrildi. Það var vani Diddu að leggjast á gólfið fyrir neðan myndina, horfa á hana (nudda jafnvel með fætinum) og söngla "ugla, padda, fiðrildi". Minnir svolítið á trans eða hugleiðslu. Jæja, svo flutti ég alfarin til Reykjavíkur, með umrædda mynd held ég, en hún glataðist. Svo var ég einu sinni sem oftar að fletta gömlum Burda-blöðum sem Krummi heitinn frændi var svo nærgætinn að henda ekki af loftinu hjá sér af því hann þekkti mig svo vel. Hvað sé ég þá nema þessa fínu mottu með þeim öllum, uglunni, pöddunni og fiðrildinu? Ég gat ekki stillt mig, tók blaðið með mér suður, fór í Erlu og keypti stramma og saumaði krossaumsklukkustreng með þessum fígúrum á. Hann er að vísu nákvæmlega helmingi minni en sá upphaflegi en litirnir eru þeir sömu og fígúrurnar skýrar. Verkið var svo vígt við hátíðlega athöfn í gær, að sjálfsögðu að Diddu viðstaddri (þau hjónin gistu hjá okkur í nótt á leið sinni í veiðitúr í Skagafirði). Ég held að stelpan hafi bara verið nokkuð ánægð með þessa endurreisn. Reyndar fylgdi þessari útgáfu verksins vísukorn sem er svona:

Uglan stendur efst með kurt.
Undir situr padda fín.
Fiðrildið vill fljúga burt.
Fædd er aftur myndin þín.

Ég byrjaði líka á lopapeysu á Óla en það er svo sem ekkert sögulegt við hana. Læt ég þá þessari stuttu færslu lokið.

Web Counter

1 Comments:

At 19 júlí, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Elsku systir.
Kærar þakkir fyrir síðast og ástarþakkir fyrir þessa óvæntu og skemmtilegu uppákomu með uglu, pöddu, fiðrildi. Þetta gladdi mig ennþá meira en þig grunar. Ekki var nú verra að sjá þessa fínu vísu eftir þig, hvernig væri nú að fara að gera meira af þessu?
Ástarkveðjur,
þín systir Didda.

 

Skrifa ummæli

<< Home