26.7.07

Er mark að draumum?

Í nótt dreymdi mig að Halldór Laxness væri hjá mér í mat. Hann var að vísu orðinn nokkuð aldraður (hafði lifað sitt fegursta, ef um það var yfirleitt að ræða) en var mjög ánægður með viðurgjörning allan. Með honum var Auður dótturdóttir hans sem ég reyndi af alefli að segja til um næstu skref á rithöfundarbrautinni, hvað hefði verið gott hjá henni hingað til og hvað ekki o. s.frv. (reyndar má geta þess að mér hefur, því miður, fundist téðri Auði hafa farið aftur sem höfundi með undanförnum bókum, þrátt fyrir ofboðslegt lof gagnrýnenda, en það er önnur saga).

Nú er spurningin af hverju draumurinn getur verið sprottinn eða fyrir hverju. Líklegast finnst mér að þetta sé birtingarmynd frústrasjónar prófarkalesara sem óvart las vitlausa útgáfu af mjög vondu handriti um síðustu helgi og stendur frammi fyrir því að þurfa að lesa það aftur, lítð betra. Nema þetta sé ábending frá HKL að handan um að halda hugdjörf áfram á sömu braut við þýðingar og prófarkalestur, heimurinn geti ekki farið öðruvísi en batnandi eins og herra Altunga sagði.

Web Counter

1 Comments:

At 30 júlí, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Sæl elsku frænka,

Ég las Fólkið í kjallaranum og fannst hún bara með betri íslenskum bókum sem ég hef lesið síðustu árin. Reyndar eina bók Auðar sem ég hef lesið svo að ég get ekki borið saman við annað!

Auðvitað verðurðu að halda áfram að prófarkarlesa - einhverjir verða að gera það til að halda einhverjum standard - nema náttlega þú setjist sjálf við skriftir sem mér finnst alveg tilvalið!

Bestu kveðjur frá Lundúnum (sem ég kalla nú reyndar yfirleitt Lon)

 

Skrifa ummæli

<< Home