Minning
Þar sem ættingjar mínir, og í þeim hópi er stærstur hluti lesenda þessa bloggs, eru ekki allir áskrifendur að mogganum, og eins og allir vita fer áskrifendum að mogganum óðum fækkandi, birti ég hér orðin sem ég skrifaði í minningu hans Jónasar frænda míns. Þetta er lengri útgáfan, eins og ég ætlaði að hafa greinina, en almenningur má nú ekki skrifa nema 3000 slaga minningargreinar, að bilum meðtöldum, og því varð ég að stytta þá sem mogginn birti.Á Melum í Hrútafirði var þríbýli í nokkra áratugi um og eftir miðja síðustu öld. Þar byggðu þeir allt upp frá grunni bræðurnir Jón, Jónas og Sigurður. Þetta voru oft erfið ár en um leið ár framfara og skemmtileg voru þau líka oft; ég er viss um að Jónasi frænda mínum fannst það, því hann var hugsjónamaður og tók þátt í uppbyggingunni af lífi og sál. Þau Ella Dís kona hans hófu ung búskap og annir kölluðu fljótt að; börnin urðu fimm, þrjú þau fyrstu fædd sitt á hverju árinu, íbúðarhús var byggt og búið þröngt fyrstu árin, seinna var byggt við það, og byggja þurfti útihús og rækta tún og fjölga skepnunum.
Þegar mesta uppbyggingarstarfinu var lokið fóru félagsstörfin, framgangur hugsjónanna, að toga æ meira í hann. Hann varð því aldrei mosavaxinn á sinni þúfu; nei, ekki aldeilis, Framsóknarflokkurinn kallaði, SÍS, Stéttarsamtök bænda, sýslunefndin ... þetta voru heilmikil ferðalög og fjarvistir þegar leið á búskaparárin. Hann naut þessara starfa því hæfileikar hans lágu mjög á þessu sviði enda maðurinn greindur, rökfastur, skemmtilegur og afburða góður ræðumaður. Í öllum þessum störfum átti hann að sína góðu konu, hana Ellu Dís, sem studdi hann með ráðum og dáð og tók öllu stússinu með óbilandi jafnaðargeði. En það var ekki aðeins að Jónas færi af bæ og hitti menn; gestagangur var alltaf mikill því þau hjónin voru miklir höfðingjar og skemmtileg heim að sækja.
Félagsstörfin voru ekki tóm alvara. Í nokkur ár var hann ein aðalsprautan í blómlegri leiklistarstarfsemi Ungmennafélagsins Dagsbrúnar í Hrútafirði þar sem settir voru á svið gamanleikir og sýndir í Reykjaskóla og nærsveitum við góðar undirtektir. Einnig var hann ómissandi á þorrablótum, gjarnan með annál um helstu atburði liðins árs, og ógleymanlegur er mér eftirhermuþáttur sem þeir sömdu og fluttu eitt árið hann og Jón faðir minn. Á þorrablótum og öðrum mannamótum í sveitinni fengu menn einnig að kynnast því hvað hann var góður hagyrðingur. Þá má nefna að hann var mikil hestamaður og átti nokkra afbragðs góða hesta, frægastur var stóðhesturinn Stjarni. Rétt eins og með hestana vildi hann líka vera vel akandi. Bronkójeppinn hans var með þeim fyrstu í sveitinni og annar jeppi engu síðri tók við af honum.
Árið 1989 brugðu þau hjón búi og fluttu til Reykjavíkur. Þau keyptu glæsilega og rúmgóða íbúð í Sólheimum og undu sér þar vel. Það var alltaf gott að koma til þeirra og mér fannst það aðdáunarvert hversu vel þau fylgdust með öllum sínum afkomendum og glöddust innilega yfir þroska þeirra og hæfileikum. Jónas unni sveitinni sinni og jörðinni og það var örugglega með eftirsjá sem hann fór frá Melum en nokkur léttir var þó að því að sonur hans, Hrafn, Krummi, tók við búskapnum. Þeim mun þungbærara var það því þegar Krummi varð að bregða búi á Melum og lést fáum árum seinna. Þá mun hann hafa heitið því að koma ekki framar að Melum. En þegar dætur hans Elsa og Ína reistu sér sumarbústað á einhverjum fallegasta bletti jarðarinnar stóðst hann ekki mátið og kom norður til vígsluhátíðar í sumar. Hann lét það ekki duga, því í farteskinu var hann með nafn, Gilsbakki heitir bústaðurinn eftir bænum í Miðdölum þar sem móðir hans Elísabet, amma okkar Melakrakkanna, ólst upp. Þetta var ógleymanleg kvöldstund í hinu glæsilega nýja húsi við Ormsárgil.
Menn eins og Jónas frændi minn eru stundum kallaðir gleðimenn. En líf slíkra manna er auðvitað ekki tóm gleði frekar en annarra. Hann var ekki skaplaus, skapið átti það satt að segja til að hlaupa með hann í gönur, og ekki ríkti nein lognmolla milli bræðranna. Heilsuhraustur var hann ekki og síðustu tíu árin eða svo má segja að hann hafi verið farinn að heilsu. Sárt var það fyrir þennan bókhneigða mann þegar hann hætti að geta lesið eftir eitt áfallið. Frá sonarmissinum var áður greint. En þrátt fyrir allt þetta andstreymi varð hann ekki önugt gamalmenni, heldur horfði til baka án kala til nokkurs manns. Þarna fór maður sem var sáttur við hlutskipti sitt og vildi öllum vel.
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Svo segir máltæki sem mun vera upprunnið í Afríku og vísar til þess hversu margir eiga hlutdeild í uppeldi og menntun hvers barns. Sextán urðu börn þeirra Melabræðra alls og þeir létu sér sannarlega annt um allan hópinn. Ég vil að leiðarlokum þakka Jónasi föðurbróður mínum hans stóra hlut í uppeldi mínu og æsku og um leið færi ég Ellu Dís, dætrum þeirra og fjölskyldum mínar innilegustu samúðarkveðjur.
3 Comments:
Gott að lesa, takk Helga mín
kveðjur í bæinn
Elsa
Takk elsku frænka mín.
Kveðjur til allra.
Þóra J.
Þakka þér fyrir þessu fallegu minningarorð Helga mín.
Ég hef svo verið að lesa lýsinguna á húsakynnum SUÐURFRÁ- og skemmta mér prýðilega.
Bestu kveðjur í bæinn,
Ína
Skrifa ummæli
<< Home