12.9.09

Tröllakirkja

Um síðustu helgi gengum við þetta fjall, helstu stelpurnar í árgangi 76 frá Laugarvatni með mönnum okkar flestra, tveimur úr fyrrnefndum árgangi. Það var einróma álit fjallgöngugarpanna vina minna í þessari ferð að þetta væri frábært fjall og kæmi á óvart (eins og Ari Trausti reyndar segir líka í fjallabókinni sinni). Útsýnið af Tröllakirkju er frábært, man ekki hvað sýslurnar eru margar og uppgangan í heild er dásamleg. Við fórum upp nokkurn veginn þar sem Ari Trausti segir, gættum þess að velja frekar holt og hæðir en mýrar og þegar aðeins fór að verða brattara upp fylgdum við þessum líka dásamlega fremur vatnsmikla læk með fossum og flúðum og grónum bökkum með lyngi og grasi. Það sást að mannskepnan er ekki ein um góðan smekk á landslag því meðfram læknum voru kindagötur sem sérlega gaman var að þræða. Tveir synir einnar úr hópnum skemmtu sér svo við að slá merarosta/gorkúlur eins og golfkúlur meðfram götunum.

Þegar ofar dró vorum við svolítið í vafa um hvaða stefnu skyldi taka en ákváðum að fara beint áfram upp dálitla grjóturð þar sem var nokkur hætta á hruni en fórum varlega svo allt var í lagi. Kannski hefðum við átt að sleppa urðinni og beygja strax til hægri og þaðan upp á tindinn. Þegar "hrunurðinni" sleppti tók við grýttur hryggur í norðurátt upp á tindinn en nokkurn veginn á tindinum sjálfum verður undirlag dægilega slétt og þægilegt undir fæti. Við vorum góða stund þarna uppi og fögnuðum sigrinum yfir fjallinu og dáðumst að útsýninu, ekki var það síst í vesturátt þó að Veðurstofan hefði spáð öðru. Ég man einmitt hvað það var gaman á "hryggnum" þegar allt í einu opnaðist sýn í vestur.

Á niðurleiðinni slepptum við hrunurðinni en fórum þess í stað niður harðfannirnar aðeins sunnar. Ég gat ekki stillt mig og renndi mér á rassinum á kafla. Við stöldruðum af og til við á niðurleiðinni til að tína ber, sem nóg var af í fjallinu, t.d. öldungis frábærlega þroskuðuð og feit krækiber, en fundum líka töluvert af blá- og aðalbláberjum. Þegar niður að Melum kom tók auðvitað við heitur pottur, vín og matur og önnur dægileg samvera.

Ég held að það hafi verið nokkurn veginn einróma álit hlutaðeigandi að ef eitthvað var hafi þetta verið betra fjall en í fyrra. Þá gengum við á Geldingafell, næsta fjall fyrir norðan, en eyddum örugglega fleiri kaloríum, því við gengum ca. tíu km að því og svo upp það og niður af því og kílómetrana tíu aftur að Melum. Það var bráðskemmtilegt líka því við samkjöftuðum varla alla leiðina, en vorum ívið þreyttari og lengur að.

Nú er spurning hvert skal halda næst, því þetta er orðið hefð. Fjöll eru svosem ekki á hverju strái í Hrútafirði en mér dettur í hug sá dásamlegi og grösugi dalur Bakkadalur, sem ég heimsótti fyrst í sumar; að ganga frá Bæ (ekki keyra), og ganga svo á Bakkafell og þræða eyðibýlin, eða kannski að yfirgefa fjörðinn og halda á slóðir móðurættarinanr og skeiða úteftir Vatnsnesfjalli. Hvað sem af verður hlakka ég til að hitta mína yndislegu og góðu vini og ferðafélaga aftur.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home