30.9.08

Króatískar kúnur ...

Ég þvælist alltaf með smáslatta af þeim í veskinu síðan í fyrra sumar. Ætli þetta sé ekki að verða bara býsna góður sjóður í ljósi rússíbanarennslisins á íslensku krónunni að undanförnu? Verst að ég man ekki hvar maður getur skipt svona undarlegri mynt (ef Íslendingur getur leyft sér að nota slíkt orðalag). Kannski að Davíð taki við þessu, að minnsta kosti 75% ...

Web Counter

26.9.08

Einyrkjadruslur

Ég hrökk svolítið við þegar þegar ég sá í fyrsta skipti í gærkvöldi nýju Prentmet-auglýsinguna með Jóni Gnarr, um forréttindin sem í því felast að geta unnið heima hjá sér. Ég er farin að minna óhugnanlega á prentarann góða, fer lítið út úr húsi, er í flónelsnáttbuxum, ullarsokkum og velktri flíspeysu fram eftir öllum degi og með ógreitt hár.

Sjálfsagt lagast þetta ástand ekki fyrr en byggingarframkvæmdum er lokið og búið að yfirhala hæðina líka. Þá ætla ég að fara í karríerkvinnudragt á hverjum morgni og vera fín eins og hæfir húsnæðinu. (Sem minnir mig á það hvað gömlu karlarnir sem áttu Ístak voru mikið stílbrot í nýja glæsihúsinu á Engjateignum í flókaskónum sínum og vestispeysunum.)

Web Counter

22.9.08

Langleiðinlegur moggi

Það er langt síðan ég fattaði að það á mjög vel við að nota þetta lýsingarorð í frumstigi um moggann. Það átti einstaklega vel við um sunnudagsmoggann núna. Hverjir lásu spenntir systkinaviðtalið við Sigurð Kára og systur hans? Ætla moggamenn aldrei að fatta hvað svona viðtöl við systur, mæðgur, feðgin o.s.frv. eru innilega óspennandi, jafnvel þó að báðir helmingarnir séu í Flokknum (eða kannski einmitt þess vegna)?

Pétri Blöndal finnst kannski konfliktarnir í löggunni spennandi, en er hann búinn að greiða almennilega úr þeirri flækju? Tvær opnur um efnið, sem ekki er vinnandi vegur að hafa sig í gegnum, benda til að svo sé ekki.

Skrifpúlt Sveinbjarnar Egilssonar sem einhver var að fá úr viðgerð? Tekst einhverjum kannski að gúggla það upp að þetta sé óvart ekki púlt Sveinbjarnar heldur einhvers Jóns í Grjótagötu? Hverjum er annars ekki sama?

Svo tókst þeim enn einu sinni að vera með platskúbb á forsíðunni, "fyrsti æskukveðskapur" HKL (hverjum stendur annars ekki á sama um hann?) var óvart eftir einhvern kall norðan úr Húnavatnssýslu, kom í ljós með því að gúgla það!

Maður sér vel nýtnina: viðtalið út af húsinu á þakinu (sem er orðið hálfþreytt) færði þeim póesíbókina með "æskuljóðinu". Ein ferð ofan úr Hádegismóum gaf þeim efni í tvær "rosagreinar", kannski þeir hafi þefað upp skrifpúltið í sömu ferð.

Web Counter

17.9.08

Dýr dropi

Bensínmælirinn á Yarisnum mínum var farinn að blikka í fyrradag þegar ég gat loksins skroppið á bensínstöð. Ég stimplaði 6000 kr. inn á sjálfsalann, persónulegt met, og hóf svo dælingu. Þrátt fyrir fagmannlega takta frá bensíntittstíð minni í Brú endur fyrir löngu tókst mér ekki að troða á bílinn "nema" fyrir 5995 kr. Með það fór ég. Ég átti svo erindi inn í heimabankann í gær og sá þá tvær færslur á debetkortinu: 6000 og 5995, báðar frá 15. 9. og með sama færslunúmeri, tilvísunarnúmeri og öllu því. Ég náði sambandi við N1 í morgun. Þar tjáði mér drengur að þetta gæti stundum gerst. Ég bað hann að leiðrétta þetta. Nei, það gat hann ekki, það á bankinn að gera, sagði hann, og þeir gefa sér níu daga til þess!

Þau eru víða framin bankaránin þessa dagana. Ég segi ekki meira!

Web Counter

7.9.08

Útivistarhelgi

Nú kom loksins að því, sem svo lengi hefur verið á dagskrá, að úrval Laugarvatnsstúlkna, útskriftarárgangur 1976, hittist á ættaróðali mínu og færi í góða gönguferð. Forföll voru nokkur svo að á endanum urðum við fjórar með tveimur mökum og börnum sem lögðum af stað á laugardagsmorguninn um ellefuleytið í göngu á Geldingafell. Við gengum alla leið að fjallinu og þar sem ungu stúlkurnar voru orðnar dálítið leiðar á göngunni á hálfflötu Melafjallinu varð úr að þær færu ekki á fjallið. Óli minn kom svo á jeppanum og fór með þær niður í byggð. Við hin héldum áfram alla leið á toppinn. Útsýni var fínt í norður- og austurátt en nokkur móða og súld á Haukadalsskarði og yfir Kirkjunni en við sáum þó bærilega yfir Haukadal og vatnið. Melafjall hefur oft verið fallegt og gróðursælt en sjaldan sem nú. Gróður á Geldingafelli er ótrúlega mikill upp eftir öllu fjallinu. Sérstaka athygli mína vöktu svargráar skófir og fíngerður blaðgróður sem var að finna efst í fjallinu, áður en kom að urðinni. Þar var líka ótrúlega mikið af sveppum í fjölbreyttum litum, bleikir, rauðir og gulir.

Flóarnir á fjallinu minntu sums staðar á akra, svo sléttir voru þeir, störin þétt og liturinn bleikur eins og hjá Gunnari forðum.

Gangan á Geldingafell er ekki sérlega erfið. Ef marka má kort GEODÆTISK INSTITUT blað 34 er komið í 370 m. hæð á veginum þegar ganga hefst á fjallið. Það er 820 m. hátt.

Við gengum hratt og rösklega niður að Melum og þar var snæddur hátíðarkvöldverður eftir að dreypt hafði verið á hvítvíni sem Óli reiddi fram þegar við komum. Ég hef aldrei áður teyga hvítvín um leið og ég teygi, en mæli með því við hátíðleg tækifæri eins og þarna. Og pallurinn kom sér vel við teygingarnar!

Kvöldverðurinn endaði á írsku kaffi, vel sætu með miklum rjóma. Svo var farið í pottinn til að láta líða úr sér og þar var setið og skrafað og hlegið til klukkan rúmlega tvö.

Hópurinn var sammála um að gönguferð sem þessi væri nú orðin hefð. Takk, stelpur, sem þetta lesið. Og reynið endilega að vera með næst, þið sem misstuð af núna.

Web Counter

3.9.08

Íslensk sölumennska, verðlag og þjónusta

Ég þarf að fá mér stiga og er búin að fá tilboð frá tveimur seljendum. Hjá öðrum þeirra gat maður fengið að sjá sýnishorn af ýmsum gerðum sem er hægt að láta smíða eða panta frá útlöndum, hins vegar voru menn ekkert að ómaka sig hingað á staðinn til að skoða aðstæður. Hinn sendi menn á staðinn sem mældu allt og lýstu þessu lauslega fyrir mér. Ég átti svo leið í þá martraðarkenndu götu Smiðjuveg í dag og ákvað að koma við hjá þessum síðarnefnda framleiðanda, úr því ég var nú komin í götuna (ef götu skyldi kalla). Ég fann húsið, það var númer 4B en samt nokkurn veginn skáhallt á móti 28! Til þess að komast inn í fabrikkuna varð ég að fara nokkurn veginn heilan hring kringum húsið; það nægir sem sé ekki að gatan sé kaos frá upphafi til enda, heldur er hvert hús við hana kaos sömuleiðis. Að fyrirtækinu komst ég þó og þá blöstu við mér raðir af vígalegum mönnum mundandi rafsuðutæki með hávaða, reyk og blossum, svo að ég þorði auðvitað með engu móti inn. Ég fann svo aðrar dyr inn á litla skrifstofu og þar sat - auðvitað - kona. Ég spurði hvort ég gæti fengið að sjá sýnishorn af stigum. Nei, sagði hún, það eru myndir þarna á veggnum. Ég sagði henni að ég kysi nú að geta séð og þreifað á nokkrum sýnishornum áður en ég sletti í þetta svo sem eins og milljón. -Það er stigi frá okkur í Smáralind, sagði hún, þessi þarna upp í bíóið. Ég sagði henni að ég væri ekki spennt fyrir hringferð um landið í leit að exemplörum. -Landið, sagði hún, það er örstutt héðan í Smáralindina. Ég muldraði eitthvað, ég held ekki þakkir samt, og fór!

(Á heimleiðinni kom ég við í Tengi. Þar voru nokkrir afgreiðslumenn og enn færri viðskiptavinir. Mig undrar það eiginlega ekki - þarna er leitun að strípuðu baðkeri undir 100 þús., sturtuklefar eru á 200 þús. og upp úr og svo er hægt að fá þarna alls konar fansí vaska á tugi ef ekki hundruð þúsunda.)

Ég fór í Bónus í gær, m.a. til að kaupa lambalæri, þurfti þrjú. Það voru til tvö, og ég fann ekki nokkurn mann sem gat sagt mér hvort fleiri væru til á bak við. Ég vatt mér því yfir götuna í Krónuna til að kaupa þetta eina sem á vantaði. Það kostaði nokkurn veginn tvisvar sinnum meira. Allt í lagi með það. Trétannstönglar voru þrotnir í Bónus og því ætlaði ég að kaupa slíka í Krónunni. Það var ekki fyrr en ég fann verslunarstjórann sjálfan sem ég komst að því að þeir voru ekki til þar heldur. Verslunarferðin tók hálfan annan tíma, sem ég hefði fegin viljað eyða í eitthvað annað.

Ætli það sé bara einn trétannstönglaheildsali í landinu og hann kannski farinn á hausinn?

Web Counter

1.9.08

Okkar STASI

Ég hef fylgst álengdar með umræðunni um dagbækur Matta Jó en ekki haft geð í mér til að skoða þetta fyrr en rétt áðan. Það varð ekki til annars en að styrkja þá STASI-tilfinningu sem ég var þegar búin að fá fyrir öllu saman.

Mér hefur alltaf fundist Matti óttalegt ræpuskáld, allt of orðmargur, langdreginn og tilgerðarlegur, en vald hans var furðu mikið sem ritstjóra; meira að segja slíkt að allaballarnir pissuðu margir utan í hann, fyrst leynt en í seinni tíð líka ljóst.

Er einhver annars hissa á að Mogginn skuli vera svona langdreginn og leiðinlegur?

Web Counter