31.5.06

Ræktaðar raddir

Það lá við að ég fengi hjartaáfall áðan þegar enn ein ný fréttastelpan á útvarpinu hóf upp raust sína, svo skerandi mjó var röddin. Ég varpaði fram þeirri tilgátu hvort virkilega væri búið að rækta upp í stórum stíl svona mjóraddað kvenfólk, og átti þá við einhvers konar "úrval", vil ekki nota orðið "kynbætur" um þetta. Óli þóttist vita réttu skýringuna; þær verða svona í ræktinni, af öllu þessu andskotans spinning og því, sagði hann. Ætli eitthvað sé til í þessu?

Svona barnaraddir hjá fréttamönnum eru ekki beint traustvekjandi, ég tala nú ekki um þegar við bætist fákunnátta og hræðilegt málfar.

(P.S. Birna frænka mín er farin að blogga og ætlar ekki að verða síðri en Þóra systir hennar)

Web Counter

29.5.06

30 ára stúdent

Á laugardaginn fór ég austur á Laugarvatn að fagna 30 ára stúdentsafmæli. Þetta var mjög ánægjuleg ferð og gaman að hitta gömlu félagana. Að minnsta kosti einn var þarna sem ég hef ekki séð frá því þetta ágæta vor, 1976. Öll höfum við breyst og þroskast, það má kannski segja að þegar við hittumst eftir svona langan tíma séum við í aðra röndina að kynnast nýju fólki. Sumum kynntist maður svo sem ekki mikið í gamla daga heldur, svo þeir eru enn nýrri. Nokkrir makar voru þarna líka, ágætisfólk. Það var létt yfir kvöldverðinum, lítið um formlegar ræður og eins gott því nóg var af slíku við langa brautskráningarathöfnina. Ég tók ekki áskorun um að fara og segja minnsta kosti brandara, sem margir gerðu, og misgóða, en var að bræða með mér hvort ég ætti að láta flakka söguna um vinnufélagana þrjá sem komu til vinnu á mánudegi og sögðu hver öðrum frá því hvað þeir hefðu verið að gera um helgina. Sá tvítugi sagðist hafa hitt stelpu og verið í stöðugum ástaleikjum alla helgina. Félagi hans fimmtugur sagðist hafa haft það enn betra, borðað góðan mat með konu sinni og drukkið enn betra vín með. "Þetta er nú ekkert miðað við það sem ég upplifði," sagði sá sjötugi "ég hafði hægðir báða dagana!"

Þetta hefði nú átt nokkuð vel við með alla þessa árganga, en kannski ekki yfir borðum ...

Web Counter

26.5.06

Heimskur þjóðhöfðingi

Það er eitthvað alveg undarlega heimskulegt við hann Bush. Ég sá hann, án hljóðs, á fundi með Blair á einhverri sjónvarpsstöð núna í hádeginu. Ég horfði á þetta smástund og fannst eitthvað skrýtið en allt í einu fattaði ég hvað var að: Það vantaði túlk handa Bush! Ég er viss um að hann á erfitt með að skilja "útlenda ensku".

(Kannski okkar höfðingjar þyrftu einhvers konar túlk líka fyrir tjáskiptin við alþýðuna.)

Web Counter

23.5.06

Tóku þeir Jónas Árnason upp?

Mikið hlýtur að hafa verið gaman hjá hleraranum sem hleraði símann hjá Jónasi Árnasyni. Hann hefur örugglega lítið heyrt af kaldastríðspólitík en fullt af fyndnum samtölum hans og Jóns Múla, oft líka söng og tralll - þeir sömdu víst söngleikina sína meira og minna í síma bræðurnir.

Það væri mikill menningarsögulegur fengur ef upptökur væru til, þó ekki væri nema af örfáum símtölum.

Hitt er svo annað mál hvað vakti fyrir þeim sem lét hlera. Hér eru nokkrar tilgátur:

1. Vildi hlusta á eitthvað skemmtilegt (slíkt var ekki að hafa hjá samherjum hans)
2. Vildi vita hvernig væri farið að því að búa til svona skemmtileg ljóð og lög (það gátu samherjar hans ekki)
3. Vildi reyna að búa til listamanna-McCarthy-isma hér eins og í USA
4. Trúði því virkilega að Jónas væri hættulegur (það finnst mér langósennilegast)

Web Counter

18.5.06

Afköst

Ég er búin að þýða 2953 orð í morgun á tæpum fjórum tímum. Til viðmiðunar segir maður oft viðskiptavinum að gert sé ráð fyrir 2000 orðum á dag. Textinn er að vísu ekki yfirmáta flókinn en þetta telst samt allgott.

Viðurkenni að þetta er ekki sérlega hollt fyrir herðarnar.

Web Counter

15.5.06

Þegar ég tók bílprófið

Það var árið 1988, í janúar eða febrúar. Ég fór að hugsa um þetta þegar ég keyrði úr IKEA um daginn og fór "Sundahafnarleiðina", fram hjá fallega klettinum. Við þann klett keyrði ég mína fyrstu metra (tel ekki með hjakkið þennan eina ökutíma í skrjóðnum hans Gunnars á Bálkastöðum þegar ég var í Reykjaskóla). Ég var mjög nervös þessa fyrstu metra og áfram þessa 30-40 tíma sem ég tók. Kennslan var ekki mjög góð, kennarinn var aðallega að hugsa um næstu utanlandsferð sína (fjármagnaða m.a. með seðlunum frá mér sem hann, lögregluþjónninn, stakk annars hugar ofan í brjóstvasann - engin nóta) og ýmis einkapróblem. Svo kom aðalsjokkið í prófinu, ég fékk "fallöxina" sem prófdómara. Hann spurði mig hvort kennarinn hefði ekki kennt mér á gírana. Þetta var líklega mesta niðurlægingarstund lífs míns en prófið fékk ég. Ég keyrði svo nær ekkert eftir þessa martröð fyrr en þegar ég fékk mér sjálfskipta Yarisinn minn 2001. Þá brá svo við að ég vandist akstri á fáeinum dögum.

Ég hef ekki getað varist þeirri hugsun hvort það tengist því að kennarinn minn forðum dó um svipað leyti úti í Svíþjóð - í bílslysi!

Web Counter

9.5.06

Þungur skrápur

Húðin er um 16% af líkamsþyngd þinni. Þetta stendur í texta sem ég er að þýða. Þar er komin skýringin á þessum u.þ.b. fimm kílóum sem ég hef árangurslítið reynt að halda frá mér meira en hálfa ævina - ég er með svona þykkan og þarafleiðandi þungan skráp!

Web Counter

5.5.06

Aðþrengdur einyrki

Skúring var löngu orðin mjög aðkallandi á þessu heimili og ég bætti loksins úr því í gær. Fyrst fór ég þó í ræktina. Þegar úr ræktinni kom hófst hreingerningin og ég ákvað að vera bara áfram í svitagallanum og ekkert að fara í sturtu fyrr en ég væri búin. Í miðjum klíðum varð ég eitthvað sloj, ekki frítt við að mig svimaði og yrði hálfóglatt. Mér datt í hug hvort ég væri nú að fá einhvern af ættarkvillunum en áttaði mig þó fljótt á því ég var býsna aðþrengd um efri hluta líkamans. Ég fékk mér nefnilega íþróttabrjóstahaldara um daginn og nennti ekki að máta hann, giskaði bara á númerið. Hann reyndist mjög þröngur. Þegar ég hafði losað um þessa spennitreyju hurfu óþægindin strax og nú "ilmar hér allt af hreinlæti" eins og Ajax-konan sagði í sjónvarpinu í gamla daga.


Ekki hefði ég viljað vera uppi á tímum reyrðu lífstykkjanna!

Web Counter

4.5.06

Er "verið að innleiða" kerfi Schweitzers hér?

Einhvern tíma las ég ævisögu Alberts Schweitzers sem kom út í bókaflokknum Frægir menn. Þar var m.a. sagt frá því að á frumstæðum spítala Schweitzers þurftu alltaf einhverjir ættingjar sjúklinganna að vera hjá þeim og sjá um frumþarfir þeirra, mat og klæði o.s.frv. Þetta hefur óhjákvæmilega rifjast upp undanfarna daga þegar ég hef heimsótt foreldra mína sem bæði liggja nú á þónokkuð tæknivæddum Landspítala í Fossvogi. Við ættingjarnir höfum þurft að sinna ýmsum frumþörfum þeirra, annars hefði enginn gert það, og þær hjúkrunarmenntuðu í ættinni hafa rétt öðrum sjúklingum hjálparhönd líka. Við höfum fylgst með ættingjum annarra sjúklinga baða þá. Enn er ættingjum ekki uppálagt að koma með prímus og elda fyrir sjúklingana en er langt í það?

Mér sýnist það eina sem ekki er illilega vanrækt í heilbrigðiskerfinu vera banalegan, en sjálfsagt er þess ekki langt að bíða að "gæði hennar verði verulega skert" vegna fjárhagsvanda.

Web Counter

3.5.06

Niðurstaða síðasta pistils

Gleymdi meginályktuninni sem átti að koma í lok síðasta pistils. Tek fram að þetta er ekki prívatuppgötvun eða -skoðun mín:

Verslunargötur eða -gatnakerfi sem ekki er hægt að komast yfir fótgangandi með góðu móti ætti að banna. Dæmi á stórreykjavíkursvæðinu: Múlarnir, Fenin, Lindirnar eða hvað þetta heitir í Kópavogi.

Svona götur eiga auðvitað helst að vera göngugötur eða alla vega gangfærar eins og Laugavegurinn t.d. Svo eru Kringlur oft ósköp þægilegar, t.d. í vondu veðri. Ég er reyndar á því að það vanti smákringlu á Laugaveginn eða þar í grennd, eitthvað svona eins og "magasínin" í útlöndum. Það getur verið gott að hafa eitt hús með mörgum smáverslunum við smáverslanagötu, t.d. í vondu veðri!

Web Counter

2.5.06

Ó-skipulag

Já, eftir þetta langa mæðu er ég enn við sama heygarðshornið, skipulag Reykjavíkur eða öllu heldur óskipulag. Ég þurfti nauðsynlega að fara inn á Fenjasvæðið í síðustu viku. Þangað fer ég auðvitað ekki nema mikið liggi við og því var orðið æði langt síðan ég kom þarna síðast. Gatnakerfið þarna er ansi kyndugt. Mér skilst að þetta hafi orðið verslunarhverfi alveg óvart og þess vegna sé þessi litli munur á gangstéttum, götum og bílastæðum. Vandratað fyrir heimakæran einyrkja ættaðan úr sveit. Viðhaldi gatnakerfisins ef svo má kalla hefur lítið verið sinnt. Þarna eru svakalegar bungur þar sem jarðvegur hefur risið og inn á milli djúpar gjótur (þessar á planinu fyrir utan Bónus minna á gervigíga eða eitthvað slíkt). Svo eru stór flæmi sem aldrei virðast hafa fengið slitlag og eru komin með sjálfstætt vatna- og þurrlendissvæði, ef ekki vistkerfi. En viti menn, hér og hvar í þessum óskapnaði öllum hossast maður svo upp á splunkuný vandlega steinlögð hringtorg, eins og ættuð úr öðrum heimi. Kannski þetta séu geim-hringtorg sem hafa komið hingað óvart, rétt eins og allar búðirnar!

Kórónan á þetta sköpunarverk er svo Skeiðarvogs-mislægu-ljósagatnamótin, sem ég þarf alltaf að keyra tvisvar ef ég hætti mér út á þau, fyrst til að fatta hvernig á að fara að og svo aftur þegar ég er búin að fatta það.

Kannski að þetta sé skýringin á allri umferðinni í Reykjavík, menn þora ekki að stoppa því þá gætu þeir gleymt hvernig á að keyra inn á allt þetta nýja mislæga dótarí?

Web Counter