24.11.08

Hvað gerðist fyrir Landsbankann, Glitni og Kaupþing?

Þetta er ein af þeim stóru spurningum sem Fjármálaeftirlitið reynir að svara á heimasíðu sinni (hér). Ég veit að það lýsir ægilegum fordómum og málfarsfasisma og allt það - en er þetta samt ekki ákveðin vísbending um þroskastig þeirra sem áttu að passa okkur fyrir bönkunum? Ég ætla ekki að gefa neinar yfirlýsingar um greindarvísitöluna.

Web Counter

18.11.08

Þurfum við að fá hingað her?

Verður það kannski á endanum erlendur her sem kemur hingað og rífur afbrotamennina (seðlabankastjórann, fjármálaeftirlitið, ríkisstjórnina og þá fáu fjárglæframenn sem kannski verða efir á landinu) upp úr gröfunum sem þeir verða búnir að grafa sér? Munið þið þegar Saddam Hussein fannst? Ég sé fyrir mér sams konar hræddan, gráhærðan, hrokkinn og lúsugan haus koma hikandi upp úr lítilli holu...

Web Counter

17.11.08

Landráð í íslenskum lögum

Vitið þið hversu oft orðið "landráð" kemur fyrir í íslenskum lögum?
Einu sinni í lögum um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess (Til brota gegn öryggi Íslands eða Bandaríkjanna teljast: 1. landráð;...)

Einu sinni í lögreglulögum (2. Sérstök verkefni sem ríkislögreglustjóra ber að hafa með höndum eru: a. að starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar skatta- og efnahagsbrot, b. [að starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi]

Einu sinni í almennum hegningarlögum; þar er kafli sem heitir þetta:

X. kafli. Landráð.
86. gr. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.
...
88. gr. [Hver, sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenska ríkið eða hlutist til um málefni þess, svo og hver sá, er veldur hættu á slíkri íhlutun með móðgunum, líkamsárásum, eignaspjöllum og öðrum athöfnum, sem líklegar eru til að valda slíkri hættu, skal sæta …1) fangelsi allt að 6 árum. Ef brot þykir mjög smávægilegt, má beita sektarhegningu.]2)
1)L. 82/1998, 21. gr. 2)L. 47/1941, 1. gr.
...

97. gr. Mál út af brotum, sem í þessum kafla getur, skal því aðeins höfða, að dómsmálaráðherra hafi lagt svo fyrir, og sæta þau öll opinberri meðferð.


Þetta eru undarleg lög, svolítið eins og þau hafi orðið til í hausnum á Birni Bjarnasyni, snúast mestan part um njósnir og móðganir við erlendar þjóðir (sbr. dóminn sem Þórbergur fékk um árið fyrir móðgandi ummæli um Hitler). Það er auðvitað passað að hafa hvergi neitt sem kemur lögum yfir handónýt stjórnvöld og forherta fjárglæframenn sem koma þjóð sinni á vonarvöl. Og 97. gr. er auðvitað alveg óborganleg.

"Þar hvarf sú von" að hægt yrði að sækja þetta pakk til saka fyrir landráð.

Web Counter

14.11.08

Flauelsbyltingu, takk

Í ljósi síðustu tveggja forseta eða svo (mér er sama þó að ekki megi tala illa um Vigdísi, ég kaus hana, allt í lagi) var ég komin á það að hætta að hafa svoleiðis. Svo heyrði ég í manni um daginn í útvarpinu, mitt í öllum hörmungunum, og fann að það væri, þrátt fyrir allt, gott að hafa góðan mann fyrir forseta (já, ég veit að Vigga er besta kelling). Ég vil sem sé gera flauelsbyltingu* sem mundi hefjast á því að gera Pétur Gunnarsson rithöfund að forseta. Hann er gáfumaður úr alþýðustétt, vel menntaður, frábær stílisti, og góður maður sem vill þjóð sinni og öllum heiminum vel. Ég ætla ekki að gera svo lítið úr mér eða Pétri að fara að líkja honum saman við það sem nú lafir á Bessastöðum.

*Fyrir þá sem eru með gullfiskaminni, þá var það kallað flauelsbylting þegar Tékkar hættu að hafa kommastjórn.

Web Counter

7.11.08

Réttindalaus og efnaður á 124 km hraða

Þetta er fyrirsögn á Vísir.is. Ég hélt eitt andartak að þarna hefði einhver auðmannnanna "okkar" verið að flýta sér svolítið en áttaði mig svo á því að líklega er þetta upphaf nýrrar og innan tíðar einu merkingar lýsingarorðsins "efnaður". Nú er enginn Íslendingur efnaður samkvæmt gömlu skilgreiningunni (nema auðvitað þeir sem ráðamenn leyfa sð svíka og svindla áfram) og því getur löggan "alfarið tekið yfir orðið" og notað það um eiturlyfjaætur.

Annars er maður ekki alveg laus við grun um að sumir útrásarvíkingarnir hafi verið svolítið efnaðir í sumum sínum ákvarðanatökum (svo maður bregði nú frösunum fyrir sig)!

Web Counter

5.11.08

Bankaræningi - skilgreining nr. 2

Gamla Íslenska orðabókin er ekki með orðið bankaræningi, en hins vegar bankastjóri, -seðill, -stjórn og -vextir. Þetta er svo sem skiljanlegt, en í ljósi stöðugra tíðinda af þessum vettvangi er greinilegt að í næstu útgáfu (hvar í dauðanum sem á að fá pening í hana) þarf að hafa orðið með, og hina nýju merkingu þess.

Flettan (það orð nota orðabókarmenn) gæti orðið einhvern veginn svona:

bankaræningi K 1 maður sem ræðst inn í banka, oft vopnaður, og rænir þaðan peningum, sjaldan háum fjárhæðum. 2 hátt settur bankastarfsmaður, til dæmis bankastjóri, stjórnarmaður í banka eða annar sá sem í skjóli aðstöðu sinnar getur rakað saman fé á kostnað bankans; yfirleitt með samningum sem kveða á um ævintýralegan gróða á meðan bankinn hagnast en lausn undan öllum skuldbindingum ef hagur bankans versnar.

Web Counter

4.11.08

Heim-á-ný-flokkurinn

Einhvern tíma þegar mér blöskraði sem mest yfirgangur Ísraelsmanna í Palestínu fékk ég þá hugmynd að við Íslendingar ættum að stofna flokk eða hreyfingu sem krefðist landa og einhverra valda í Noregi, svo og hlutdeildar í olíunni, auðvitað. Hann átti að heita heimánýflokkurinn. Við höfum enn yngri, og mætti ekki segja traustari heimildir, um uppruna okkar á þessu svæði en Ísraelsmenn um "sín lönd" og ættum því sanngjarnari kröfu til Noregs en Ísraelsmenn til Ísraels.

Nú sýnist mér vera orðið fullkomlega tímabært fyrir okkur að reyna "Noregsleiðina", ekki beinlínis í auðgunar eða útrásarskyni, heldur til að reyna að bjarga almenningi og losa hann undan liðónýtum og gjörspilltum stjórnmálamönnum og öllum þeim stjórnlausu spillingaröflum sem virðast fá að grassera áfram í rústum þess sem einhvern tíma átti að heita íslenskt samfélag.

Web Counter

3.11.08

Skynsamt og hugsandi fólk

Mikill léttir var að hlusta á fjórar skynsamar manneskjur tala saman um "ástandið" í Víðsjá Ríkisútvarpsins á föstudaginn, undir styrkri stjórn Eiríks Guðmundssonar og Guðna Tómassonar. Þetta voru Salvör Nordal, Sigríður Þorgeirsdóttir, Ármann Jakobsson og Pétur Gunnarsson. Einhvern veginn tókst þeim að nálgast þetta á allt annan og víðsýnni hátt en þessir stjórnmálamenn og hagfræðingar sem stöðugt er verið að kalla til. Ég hvet þá sem misstu af þættinum til að hlusta á hann á Netinu, sem fyrst, áður en hann verður tekinn þaðan.

Web Counter