26.1.10

Hvenær á maður kvóta ?

Á Útvarpi Sögu meðan ég hljóp í dag var einhver gaur að jagast um kvótakerfið. Hann á ekki kvóta, sagði hann, heldur bara félag með konunni sinni, sem á kvóta, og hann er í vinnu hjá félaginu við að veiða þennan kvóta og fær 220 þús. á mánuði (það er þetta algera lágmark sem er gert ráð fyrir að einyrkjar reikni sér sem reiknað endurgjald), og lifir góðu lífi á tvöhundruðkallinum, sagði hann! Svo leigir hann, nei fyrirgefið, félagið, reyndar út einhverja kvótalús líka.

Þessi ekki-kvótaeigandi er auðvitað alveg á móti því að hróflað sé við kerfinu. Þegar honum var bent á að útgerðarfyrirtæki nokkurt hérlendis gæti borgað útlendingum 65 kr. fyrir kg. af fiski sem væri veiddur einhvers staðar langt í burtu í lögsögu annars ríkis sagði hann að það væri augljós skýring á því, við þær veiðar væru eintómir útlendingar sem fengju ekki borgað nema einhverja lágmarkstryggingu og smáhungurlús í viðbót, svo kostnaður væri sáralítill. Þáttastjórnendadruslurnar föttuðu auðvitað ekki að spyrja hann hvort þau laun væru nokkuð verri en tvöhundruðkallinn sem félagið hans rausnaðist til að borga honum.

Hvað ætli þessi gaur og félagið hans greiði annars til samfélagsins, þegar líka er búið að draga frá sjómannaafsláttinn?

Web Counter

8.1.10

Gamli og nafni

Það munaði ekki miklu á nöfnum þeirra föður míns, Jóns, og föðurbróður, Jónasar. Ég veit ekki hvort það var þess vegna, en yfirleitt ávörpuðu þeir hvor annan "gamli" svona dagsdaglega. (Kannski hafa þeir notað eitthvað kröftugra í orðasennum.) Jónas var auðvitað í meiri rétti, rúmlega ári yngri, en samt svaraði pabbi alltaf í sömu mynt. Mér fannst fyndið að komast að því seinna að í fyrndinni bjó maður á Melum sem hét þessu nafni, ef eitthvað er að marka Grettis sögu.

Það var ekki nóg með að þeir deildu með sér þessu "gælunafni" heldur áttu þeir sér sameiginlegan nafna, Jónas kaupfélagsstjóra. Þar var Jónas augljóslega í meiri rétti sem fyrr, en mér skilst að "réttur" pabba hafi byggst á því að þegar þeir voru strákar, hann og kaupfélagsstjórinn sem síðar varð, voru þeir báðir kallaðir Jonni. Sönnun á Jonna-nafni pabba er áritun á bókinni Seytján ævintýri sem lengi var til heima: Til Jonna á jólunum ... - því miður man ég ekki ártalið.

Og í lokin - lík nöfn systkina: Dætur mínar eru kallaðar Stína og Steina. Frændi þeirra, fróður um nöfn og málfræði, spyr oft þegar hann hringir hingað og önnur hvor þeirra svarar: "Hvort er þetta í eða ei?"

Web Counter

6.1.10

Verktaka og vetrarörorka

Á hverjum einasta degi kemur í útvarp/sjónvarp eða lætur boð ganga þangað alveg óskaplega sár og svekktur verktaki. Alvöru verktaki, með fullt af dýrum vélum, mönnum og jafnvel húsum sem ekki er lengur, eða var kannski aldrei, þörf fyrir. hann er líka bullandi skuldugur, og heimtar að hið opinbera fari í framkvæmdir svo hann fái eitthvað að gera. Svona hefur þetta verið hér áratugum saman hér. Flest sem hér er ráðist í er metið út frá því hversu margir (karl)menn, og ekki síður vélar, fá vinnu við það. Hátæknisjúkrahúsið er aðallega sniðugt af því að (karl)menn fá vinnu við að byggja það. Hvernig svo á að vera hægt að reka það frekar en lágtæknispítalann sem við verðum að sætta okkur við nún veit enginn.

Þegar ég var að alast upp norður í Hrútafirði fór þar fram gríðarleg verktaka í nokkrar vikur á hverju sumri - vegavinna. Nokkurn veginn annar hver maður í sveitinni, beggja megin fjarðar, átti vörubíl (yfirleitt druslu) og þessi floti var í stöðugum ferðum um nokkurra vikna skeið upp og niður Holtavörðuheiði og inn og út sveitina með möl sem var sturtað á veginn og nokkrir sveitungar þeirra sem áttu ýtur sáu um að dreifa úr. Svo sá umferðin sem fór um þennan sama veg um að róta mölinni burt þannig að næsta vor var hún öll farin, komin drulla og holur, og þá gat leikurinn hafist á ný.

Það voru eins konar trúarbrögð að á Íslandi yrði aldrei hægt að leggja varanlega vegi en ætli grundvöllur þeirra trúarbragða hafi ekki verið sú "atvinnusköpun" sem fólst í helvítis malaraustrinum. Og víst er það að sumir bílstjórarnir létu þessi sumaruppgrip nokkurn veginn duga til að framfleyta sér - kannski með smáhjálp frá héraðslækninum sem skrifaði upp á nokkurra mánaða vetrarörorku.

Hefur þetta annars eitthvað breyst - svona í grundvallaratriðum?

Web Counter