30.1.09

Melaheimilið um 1860

Ég vek athygli á þættinum Sagnaslóð á rás 1 um tíuleytið í dag. Þar er fjallað um Ingunni Jónsdóttur, langafasystur mína, sem á gamals aldri ritaði endurminningabrot og sagnaþætti sem komu út í tveimur bókum. Hún var afskaplega vel ritfær og rit hennar eru ekki einungis góð heimild um fyrri tíma á gullaldarmáli, heldur kemur þar víða fram holl lífsspeki sem enn er í fullu gildi. Jónas föðurbróðir minn las fyrir mörgum árum aðra eða báðar bækurnar í útvarp og gerði það vel eins og hans var von og vísa. Kannski að eitthvað af því heyrist í þættinum. Ég vona það.

Web Counter

28.1.09

Laus við frjálshyggju og kannski líka þráhyggju?

Í gærkvöldi, þar sem ég gekk í nýsnævinu austur eftir Ægisíðunni stuttan kvöldgöngutúr, fann ég það, allt í einu. Já, mér var létt. Ég gerði mér sem sé allt í einu grein fyrir því að nú er ég laus við sjálfstæðisflokkinn og frjálshyggjuna og líka vonandi þráhyggjuna, eins og t.d. það að fylla allar búðir af bjór og brennivíni og leggja niður Ríkisútvarpið, eða gera heilbrigðiskerfið að enn meiri gróðavegi en það er nú þegar. Þetta var góð tilfinning, ég segi það satt.

Web Counter

27.1.09

Standardinn í sveitunum á árum áður

Húsbóndinn hér á bæ fussaði auðheyrilega þegar vinstristjórn barst í tal um það leyti sem ríkisstjórnarnefnan sáluga var að syngja sitt síðasta núna um helgina. Hann vildi meina að þá myndu allar gáttir félagslega kerfisins opnast og skattar hækka upp úr öllu valdi. Ég taldi aftur á móti að slíkt hlyti óumflýjanlega að gerast, hverjir svo sem yrðu við völd, ef við ætluðum okkur að borga þó ekki væri nema eitthvað af skuldum drengjanna "okkar". Þá nefndi hann máli sínu til sönnunar vinstri stjórnina 71. Ég lét þá hugann reika - jú, mikið rétt, það var líklega þá sem fóru að sjást einhverjir örlitlir peningar norður í Hrútafirði og bilið að minnka milli þeirrar sveitar og Reykjavíkur. Ég get nefnt svo ótal margt sem við "höfðum ekki" en talsist til sjálfsagðra þæginda í Reykjavík, að minnsta kosti hjá fólki af meðalstandi:

- Ekki baðker fyrr en um 1970
- Ísskápur ekki fyrr en um það leyti
- Sjálfvirk þvottavél um það leyti líka
- Rúmgott húsnæði með sérherbergi barna og hjóna - ég hef ekki verið ein í herbergi nema kannski tvö ár ævinnar - hálfan vetur á Laugarvatni, þegar ég leigði einn vetur á Sólvallagötu, veturinn sem ég var í íbúð ömmu minnar á Skarphéðinsgötu og loks parta úr þeim sumrum sem ég var heima eftir að flutt var í nýja húsið. Í gamla húsinu vorum við þrjár, jafnvel fjórar, systur um eitt herbergi.
- Uppþvottavél sást ekki á Melum 1 fyrr en um 1980 í fyrsta lagi.
- Allur kvenfatnaður var saumaður heima.
- Prjónafatnaður var ekki keyptur.
- Heimilisbifreið - alla mína æsku áttu Melabræður einn jeppa saman, sem var afleitt fyrirkomulag - hvers vegna ætla ég ekkert að rekja hér.
- Hjónarúm - keypt ca 68 og þótti mikið bruðl, eins og hér hefur verið nefnt áður.
Sófasett - fyrst var keyptur svefnsófi - sófasett kom ekki fyrr en ca 78 og þá keypt af bróður mínum notað.
- Allt þurfti að gjörnýta, alla afganga, jafnt af mat sem öðru. Móðir mín var töluvert á undan sinni samtíð því hún notaði alla plastpoka aftur og aftur; það var lokahnykkurinn á uppvaskinu að þvo plastpoka og hengja upp á snúru í þvottahúsinu.
- Allt bakað og eldað heima, ekki keypt brauð, kökur eða kex nema í algjörum undantekningartilfellum.


Félagslega misréttið var hrópandi alveg þangað til vinstri stjórnin tók við. Alvarlegast og augljósast var það í skólamálunum, þar sem börn þurftu að vera í heimavist alveg frá upphafi skólagöngunnar og nutu ekki kennslu nema hálfan veturinn. Þetta var ekki leiðrétt fyrr en um það leyti sem yngsta systir mín, fædd 1966, var að byrja í barnaskóla. Tannlækningar virtust líka lengi vel vera munaður þéttbýlinga. Þær var farið að styrkja á árunum eftir 1970.

Sem dæmi um efnahagsleg viðmið okkar get ég tekið að Sigurjón, eiginmaður móðursystur minnar, sem var leigubílstjóri í Reykjavík var talinn stórefnamaður. Til marks um það var að hann (hún var heimavinnandi og taldist því ekki með í dæminu) gat keypt nýja blokkaríbúð í Bólstaðarhlíð sem kostaði rúma milljón (gamalla) króna.

Sú hugsun hefur orðið furðu lífseig að það hljóti að vera sjálfsagt að öll kjör og aðbúnaður sé lakari í sveitum en þéttbýli. Furðu fá ár eru síðan ég heyrði roskinn mann býsnast yfir sófasetti sem lúxus á sveitabæ, fyrirbæri sem hér í Reykjavík hefur lengi talist til sjálfsagðra þæginda.

Web Counter

22.1.09

Gömul afrek á prjónasviðinu


Eitt af því sem færir mann aftur í tímann er aukinn áhugi á prjónaskap og hannyrðum hvers konar. Ég fletti gömlum albúmum áðan og rakst þar á nokkur gömul afrek á þessu sviði. Sbr. myndina.

Web Counter

21.1.09

Mjósti munur sögunnar

Móður mína hefur lengi langað í boðlega hillusamstæðu undir og í kringum sjónvarpið. Við gengum loks í það í gær, dætur hennar, að gera þennan draum að veruleika. Sú gamla festi kaup á samstæðu í Rúmfatalagernum, hún var send heim (samstæðan) og þá þurfti að koma henni saman. Því verki er ekki lokið enn. Okkur Hallveigu systurdóttur minni tókst þó að koma miðskápnum, sem sjónvarpið á að standa á, saman í gær. Það gekk ekki alveg þrautalaust. Sérstaklega voru skúffurnar og tilheyrandi brautir erfiðar viðureignar. Það var ekki fyrr en búið var að reyna margsinnis að láta skúffubrautirnar renna inn í brautirnar í skáphólfinu, árangurslaust, að við áttuðum okkur á að kantur framan á skápnum sneri öfugt og hindraði því skúffurnar að komast inn í hólfið. Um svipað leyti rann upp fyrir þaulreyndum þýðanda leiðbeininga að stafirnir DL og DR þýddu víst skúffa vinstra megin og skúffa hægra megin og stafirnir CR og CL vísuðu með sama hætti til skápsins. Við vorum hreyknar mjög þegar skúffurnar runnu loks fyrirstöðulaust á sinn stað. Þá kom hálfgerður skelfingarsvipur á Diddu yngstu systur mína sem hafði fylgst álengdar með þessu öllu meðan hún passaði hundinn Fróða Hallveigarson: DVD-tækið kæmist ekki inn í hólfið sem því var ætlað, það væri of breitt eða hólfið of mjótt! Við ákváðum samt að prófa og losuðum lista framan á skápnum af ef ske kynni að þannig mætti troða tækinu inn. Og viti menn, inn komst tækið en ekki munaði nema kannski tveimur millimetrum. Þetta er mjósti munur sem við höfum séð; við erum hreinlega á því að þetta sé mjósti munur sögunnar!

Web Counter

9.1.09

Súrmeti og litteratúr

Ætli það hafi ekki verið um mánaðamótin nóv-des sem ég rakst á sviðalappir í Bónus. Ég keypti umsvifalaust tvo poka sem mér taldist til að væru 24 lappir. Þetta sauð ég og fór svo með pottinn til mömmu sem hjálpaði mér að krafla utan af beinunum. Svo skar ég allt saman niður, hitaði aðeins upp aftur og hrærði vel og setti loks í form, töluvert af soði með. Ég fékk tvö stór kökuform af sultu úr þessu. Svo setti ég herlegheitin í súr, bara venjulega mysu úr Bónus, vel súra og setti út á svalir. Eftir hálfan mánuð var sultan orðin undurgóð og ég átti dásamlega stund eitt kvöldið með sjálfri mér þar sem ég naut sultunnar með rófustöppu úr óvenju sterkum og bragðgóðum rófum. Það skal tekið fram að þetta fór afskaplega vel í maga.

Þegar smiðirnir mínir voru á lokasprettinum í frágangi rissins fyrir jólin reyndi ég að vera góð við þá og fara að fordæmi móður minnar með því að gera sem best við þá í veitingum. Meðal annars bauð ég þeim sultuna góðu og þóttist viss um að annar þeirra að minnsta kosti hlyti að vilja hana því hann ólst upp á Melrakkasléttunni. Hann tók við með þökkum og hinn líka, hann átti nefnilega svo gamla foreldra sem voru úr sveit og oft með svona mat.

Og að endingu er hér svolítið dæmi um áhrif súrmetisins á bókmenntirnar: Vilmundur landlæknir var eitt sinn á ferð um Hornstrandir með Þórbergi, Þórhalli syni sínum og sænskum manni sem þeir þekktu. Þeir komu á bæ nokkurn þar sem þeir fengu að tjalda á túninu. Bóndinn vildi endilega gefa mönnunum eitthvað að borða en þar sem þeir voru vel nestaðir afþökkuðu þeir það. Ekki líkaði bónda þetta og það endaði með því að hann kom til þeirra og spurði auðmjúklega hvort hann mætti kannski bjóða mönnunum eitthvað upp úr súru. Þessa freistingu gátu þeir Vilmundur og Þórbergur ekki staðist og Vilmundi segist svo frá. "... ég segi með hug og orði: "Jú, við þökkum gott boð, ég held við stöndum okkur ekki við annað en þiggja eitthvað lítils háttar upp úr súru." (Með hug og orði I, bls. 96) Heiti ritsafnsins er sem sé runnið frá þessari frásögn. Ég ætla ekki að lýsa veislunni sem fór á eftir, bendi fólki bara á að lesa frásagnarþáttinn og í leiðinni auðvitað bækurnar báðar frá upphafi til enda. Af því verður enginn svikinn!

Web Counter

5.1.09

Valdagleði og hroki

Þegar ég vann hjá Ríkisútvarpinu, þeirri góðu stofnun sem litlu drengirnir í Flokknum hafa haft sem fyrsta mál á stefnuskránni síðan ég veit ekki hvenær að útrýma, þá drakk ég stundum kaffi með manni sem var ættaður frá Stokkseyri og kenndi sig þar með við Flóann. Hann reifaði einu sinni mjög skemmtilega fyrir mér kenningu sem hann hafði rekist á (í gömlum Skírni minnir mig) um áhrif landslags á lýðinn. Kennningin gerði sem sé ráð fyrir því að fólk drægi dám af landslaginu þar sem það ælist upp. Á flatlendi yrði fólk til dæmis flatt í hugsun, hlédrægt, feimið og íhaldssamt. Þetta sagði kenningarlesarinn að hefði passað mjög vel við sína heimabyggð, þar hefðu stundum verið hreinustu vandræði að berja saman hreppsnefnd því enginn treysti sér til svo ábyrgðarmikils starfa. Ekki er jafn láglent á vestanverðu Vatnsnesi og á Stokkseyri, en hitt er víst að aldrei hefði það hvarflað að honum afa mínum sáluga í Gröf að bjóða sig fram til stjórnmálastarfa af neinu tagi; til þess hefði hann ekki talið sig hæfan. Sjálfhælni var eitur í beinum hans og barna hans. Yfirleitt þótti þeim ekkert verk sem þau unnu nógu vel af hendi leyst og afsökuðu flest sín verk. Þarf þó varla að taka það fram að allt þetta fólk var prýðilega vel að sér bæði til munns og handa, reyndar flest handlagið með afbrigðum, og óvenju vel hagmælt.

Ég hef stundum rifjað það upp innan fjölskyldunnar hvernig þetta endemis lítillæti síaðist inn í mig í uppeldinu. Til dæmis man ég hvað mér þótti það skrítið þegar ég byrjaði að fylgjast með eldhúsdagsumræðum í útvarpi að allir þessir karlar (þá heyrðist ekki í konu) skyldu leyfa sér að hæla sér og sínum flokki og öllum hans gjörðum svona stjórnlaust. Mér þótti þetta óviðkunnanlegt og spurði hvernig stæði á öllu þessu monti og var þá sagt að þetta mættu stjórnmálamenn gera, þó að alls ekki væri við hæfi að krakkar létu svona.

Við síðustu stjórnarskipti varð mér ósjálfrátt hugsað til kenningarinnar fyrrnefndu og sjálfhælnibannsins sem móðir mín kom með af Vatnsnesinu. Ef eitthvað væri að marka kenninguna ættu núverandi íslenskir ráðherrar að vera að minnsta kosti úr miðjum hlíðum Everest. Ég held ég hafi aldrei orðið vitni að annarri eins gleði yfir fengnum völdum - um væntanleg góð verk var minna talað, Jóhanna þó heiðarleg undantekning. Spillingin og hrokinn sem valdinu fylgir kom svo heldur betur í ljós í sumar þegar forsætisráðherrann skellti stöðugt hurðum á fréttamenn með hálfgerðum fúkyrðum. Ekki var heldur laust við að rigndi upp í nefið á utanríkisráðherranum stundum. Lýsingarorðið "barnslegur" á líklega best við um einlægan fögnuð iðnaðarráðherra yfir nýfengnum völdum. Um viðmót fjármálaráðherra er best að hafa sem fæst orð.

Sjálfhælnibakterían hefur nú blindað þetta fólk svo rækilega að það fær ekki með nokkru móti komið auga á eigin sök í neinu því sem dunið hefur á þjóðinni undanfarna mánuði, hvað þá að það komi auga á einhverja sér hæfari til að leiða okkur út úr ógöngunum. Sumum virðist jafnvel meira í mun að storka okkur, sbr. embættið sem forsætisráðherrafrúin fékk óvænt og óverðskuldað eftir að landið sökk.

Web Counter

2.1.09

Guði sé lof fyrir jólin!

Þarf kannski varla að þakka honum; tilstandið á að heita af hans völdum og þessa undarlega getna sonar hans. Oft hafa jólin verið mér kærkomin en sjaldan sem nú. Og eftirminnileg verða þau sem t.d. fyrstu jólin í nýja risinu og fyrstu jólin í kreppunni (hvað skyldu mörg jól eiga eftir að kallast kreppujól?).

Ég verð að biðjast afsökunar á því að hafa ekki sent nein jólakort, hvað þá að ég hafi búið til kort eins og undanfarin ár. Reyndar var svolítið föndrað. Ég átti nefnilega þó nokkrar næðis- og yndisstundir í desember við borðstofuborðið við að klippa út úr kartoni alveg dáindis falleg hvít tré sem eru ósköp jólaleg í einfaldleika sínum. Þau sjást ágætlega ef smellt er á efstu myndina í síðasta pistli. Það var frábært að geta snúið baki við öllu rykinu og hroðanum sem fylgdi síðasta frágangssprettinum, sett á jólalag, gripið skærin og horft svo út um hornglugga borðstofunnar á ljósin í næstu húsum eða jafnvel snjókorn falla. Trén urðu þó nokkuð mörg áður en yfir lauk og nýttust vel til smájólagjafa handa góðu fólki. (Ég er enn dofin á þumalfingri hægri handar eftir allt klippið!)

Svo er bara að óska öllum sem þetta lesa gleðilegs árs og þakka þeim fyrir að hafa þraukað með manni út það gamla.

Web Counter