13.9.06

Íslenskur sköpunarkraftur og þjóðhagsspá

Hún Þóra Huld frænka mín minnir mig á að það megi vera jákvæður líka. Ég veit nú ekki hvort þessi færsla er í mínus eða plús, fer eftir því með hvernig hugarfari hún er lesin, kannski. En, sem sé, ég heyrði óvart í fréttum í dag að vöruskiptajöfnuðurinn við útlönd (heitir það annars ekki það enn þá?) hefði verið mun skárri en spáð hafði verið í þjóðhagsspá. Hvað höfðu menn svo misreiknað? Jú, þjónustu við útlönd, sem líklega byggist að mestu á íslensku hugviti og sköpun. Menn hafa sem sé gleymt að reikna með aukningu þar, líklega haldið að allir færu að rótast í góðærisbyggingavinnu fyrir sunnan og stíflugerð fyrir austan, eða kannski óskað þess að þeir færu í það. Það er auðvitað áþreifanlegri iðja en að sitja við tölvu og dútla sér ...

Þetta minnir mig á Draumalandið, þar sem Andri Snær bendir á hvað mætti gera rosalega miklar tilraunir með alla mögulega og ómögulega hluti sem frjóu ungu fólki detta í hug - og mistakast flestar - til að skapa störf sem væru jafn mörg eða fleiri en í fabrikkunni fyrir austan - og tæki margar aldir að ná þeim upphæðum sem hún kostar.

Web Counter

8.9.06

Svartagallsraus eða heimur versnandi fer

Ágæt vinkona mín úr mínum geira, þó nokkrum árum yngri en ég, sagði mér frá því fyrir nokkrum árum að nú væri orðið áberandi í íslenskudeildinni í Háskólanum fólk sem væri mjög vont í íslensku. Þetta væru krakkar sem langaði til að verða blaðamenn, kannski þó helst af öllu Kastljósdúllur eða -dúllarar, og færi í deildina til að "láta laga í sér íslenskuna" því það hefði heyrt að það væri sniðugt að vera skrifandi og kannski talandi í svona störfum. Nú sækti ekki lengur í þetta nám eintómt fólk sem fékk alltaf 10 í ritgerð í menntaskóla, með ofuráhuga á bókmenntum eða málfræði o.s.frv. Ég held að þetta passi alveg. Það er líka alltaf að fjölga rithöfundum sem ekki geta skrifað en stóla á fólk (eins og mig) sem lagar úr því subbuskapinn og gerir hann á endanum útgáfuhæfan, eða hér um bil.

Kannski er unga fólkið þó hætt að leita sér lækninga í íslenskudeildinni núna, það veit að það fær samt að skrifa í blöðin, eins og dæmin sanna.

Web Counter

7.9.06

Löng leið - lítið erindi

Það hringdi til mín kona í morgun frá Japan og bað mig að þýða 50 orð. Ég urraði á hana.

Web Counter