29.11.06

Vetrarfegurð og jólaskraut


Ég geri nú ekki víðreist um bæinn þessa dagana en átti leið í Kringluna fyrir ca. 10 dögum og sá þá eitthvað sem á að heita jólaskreytingar, silfurlit vagnferlíki með silfurlitum hreindýrum fyrir og silfurlitur sveinki sjálfsagt líka. Við erum auðvitað orðin ægilega amerísk en þarna held ég samt að Kringlufólk hafi misskilið eitthvað. Eins og Jón Viðar sagði svo oft í leikdómum sínum: Þetta er bara ekki að gera sig. Samt held ég að svarta jólaþemað sem kvað vera ríkjandi þetta árið sé enn verra. Við Óli gengum fram hjá blómabúðinni á Hagamel í gær, sem yfirleitt er með afskaplega fallegan glugga. Þar eru skreytingar núna sem fljótt á litið fá mann til að halda að stórbruni hafi orðið í búðinni eða jafnvel dálítið kjarnorkuslys - svartmálaðar, naktar trjágreinar og fleira slíkt fylla mann þessari tilfinningu. Ég er nýjungagjörn og móttækileg og get alveg kyngt því að bleikt, blátt og ég veit ekki hvað sé jólalegt (gult er frátekið fyrir páskana) en svartar greinar, svart jólatré, kúlur, aðventukrans ... NEI!

(Bíðið svo bara þangað til jólakortunum frá mér fer að rigna inn um lúguna hjá ykkur!)

Rollumyndina tók ég í vetrarfríinu í fyrra fyrir norðan, nema hvar!

Web Counter

22.11.06

Englar fundnir

Bara svo ekki fyllist hér allt af englahausum, ég fann slatta af slíkum niðri í bæ áðan. Jólakortin í ár verða ótrúlega dúlluleg!

Vísbending vegna getraunar: Höfundur skrifaði "englar" öðru vísi en þarna er gert.

Web Counter

21.11.06

Englar

Hvar í veröldinni fær maður almennilegar gamaldags englaglansmyndir, þ.e.a.s. með haus og vængi, ég hef ekkert við búk að gera. Í verslunum er allt fullt af jólasveina- og kærustuparaglansmyndum en hvergi klassískir englahausar með vængi.

Svo er hér smágetraun. Hver skrifaði þetta og hvað heitir bókin:

Englar eru að sjálfsögðu mjög merkileg dýr.

Web Counter

19.11.06

Hreingerning

Margir lesendur þessa bloggs vita að okkur hér á þessari efri hæð á Kvisthaganum dreymir um að hækka hjá okkur risið og eignast þannig stóra lúxusíbúð, með tvær meyjarskemmur, bað, geymslu og sjónvarpsstofu uppi. Ekkert hefur orðið úr framkvæmdum enn í upppsveiflunni og hefur líka leitt til þess að ýmislegt hér á heimilinu hefur verið látið danka; af því það borgar sig ekki að gera neitt úr því við ætlum að fara út í stórframkvæmdir bráðum. T.d. hefur ekki verið málað þó að þess þyrfti, hvað þá stærri framkvæmdir.

Svo fékk ég kast á fimmtudagskvöldið þegar ég virti fyrir mér borðstofuna, og við sem ætlum að vera með boð um næstu helgi. Ég náði í tusku, þetta var rétt fyrir 10, strauk henni eftir einu horninu og þá var ekki aftur snúið. Á miðnætti var ég búin að gera loftið í borðstofunni hreint.

Á föstudagsmorguninn fór ég til Stjána (í Rekstrarvörur) og keypti mér hreingerningagræjur og hélt áfram með borðstofuna og skúraði helstu gólf. Ég var hrikalega eftir mig í gærmorgun, aum í herðunum og verkjaði út um allan skrokk, skrítin í hálsinum, jafnvel með hitavellu. Í morgun var ég mun skárri og tók þá upp þráðinn frá föstudeginum, skúraði herbergi stelpnanna og þurrkaði af þar og lagaði til og þvoði gluggana, skúraði niður stigann og gekk svo loks frá öllum þvotti sem hafði safnast upp úr þurrkaranum.

Merkilegt nokk, þá heppnaðist þessi skammdegishreingerning á borðstofunni bara vel, ekkert flekkótt og mun bjartara inni (meira að segja áður en snjórinn kom). Ég hugsa að ég drífi mig og taki stofuna núna í vikunni. Vonandi verð ég þá farin að venjast svona átökum. Það virðist koma fyrir lítið allt bröltið í ræktinni. Eru kannski vöðvar og bein hist og her um skrokkinn sem aðeins brúkast við að hreingera loft?

Web Counter

13.11.06

Áhugarithöfundar

Getraunin sem hér var efnt til um daginn er eiginlega dottin um sjálfa sig því Melamenn héldu sér til hlés og fáum öðrum lesendum er til að dreifa. Þetta var að sjálfsögðu sítat í ættarrithöfundinn Ingunni Jónsdóttur frá Kornsá.

Kannski er það ellimerki og merki um íhaldssemi sem henni fylgir gjarnan að ég verð æ hrifnari af "áhugarithöfundum", fólkinu sem skrifar "þjóðlegan fróðleik", endurminningar, sagnaþætti, mannlýsingar og þess háttar. Ingunn er glæsilegur fulltrúi þessara höfunda. Fyrir nokkrum árum las ég stuttan þátt í Heimdraga IV, en Heimdragi var ritröð sem Iðunn gaf út fyrir mörgum árum, eftir Hólmfríði Jónasdóttur. Þátturinn er um föður hennar, hagyrðinginn Jónas Jónasson frá Hofdölum, móður hennar og fleira fólk og bernskuár í Skagafirði. Þetta er afskaplega vel skrifuð og hlýleg frásögn sem ég hvet alla til að lesa. Ég get ekki stillt mig um að setja hér smákafla:

"Okkur systrum voru gefnar vísnabækur ("poesibækur") í fallegu bandi í jólagjöf. ... Við höfðum ákveðið, að pabbi yrði fyrstur til að skrifa í þær. Úti var snjór, logn og stjörnubjartur himinn. Á þessu kvöldi orti pabbi í bækurnar okkar allra, og eru vísurnar hans fegurstu heilræði sem við höfum hlotið á lífsleiðinni..."

Síðan lætur Hólmfríður fylgja nokkrar vísur úr bálk hverrar þeirra systra, en þær voru þrjár. Sjálfsagt er leitun að betri jólagjöf!

Frásögn Hólmfríðar minnir mig svolítið á stutt æviágrip sem mamma tók saman um afa þegar hann var nýdáinn, til að hjálpa prestinum við ræðusmíðina. Það er afskaplega fallegur og vel skrifaður texti og synd að hún skuli ekki hafa sett meira af slíku á blað.

Web Counter

7.11.06

Dýrasögur

Hámark dvalarinnar fyrir norðan var tvímælalaust sameiginlegur kvöldverður okkar á Melum 1 og 2 á þrítugsafmælisdegi Harðar frænda míns. Hörður bauð þessar líka stórfenglegu gæsabringur, en kjöt fugla af anda-, gæsa- og hænsnaætt er einmitt uppáhald okkar hér á Kvisthaganum. Þökkum kærlega fyrir okkur.

Þarna um kvöldið bárust dýrasögur í tal, og ég nefndi við stelpurnar (Ínu og Elsu þ.e.a.s.) bókina Lundurinn helgi eftir Björn Blöndal sem er full af sögum um vitrar skepnur sem elska vini sína ákaflega en eiga það til að hefna sín á vondu fólki. Ég rek kannski eitthvað af þessum sögum seinna. En í framhaldi af þessu fór ég að rifja upp helstu karaktera Mela í æsku minni af húsdýrataginu. Hér er svolítill listi, röðin ræðst nokkurn veginn af því hversu eftirminnileg skepnan er mér:

1. Kraga hennar Þóru. Svört, hyrnd ær með hvítan kraga. Ótrúlega spök allan veturinn og elsk að börnum en umhverfðist þegar hún var búin að bera. Hægt að ganga að henni og klappa henni þegar hún koma af fjalli á haustin.
2. Litfari - hestur sem pabbi átti. Hann var gamall og latur og því gjarnan settur undir börn. Hastur og skíthræddur við mýrar, læki og skurði frá því hann lenti í mýrarfeni á yngri árum. Melabræður voru ekki miklir reiðkennarar og létu okkur krakkana yfirleitt hossast á sömu hestunum (truntunum) alla tíð nema við sýndum einhver tilþrif í hestamennsku.
3. Mógolsa mín - man hana af því að hún var mín kind og átti tvær gimbrar, mórauða og hvíta, síðasta vorið sitt. Móra varð kind mín númer 2.
4. Kátína - kind Ingunnar. Meistari í stökki og nafnið dregið af því.
5. Gráni Jónasar - góður og þýður hestur, skeiðaði stundum ef ég man rétt.
6. Búkolla - kýr sem pabbi átti. Gæf, gömul og rólynd og með stærsta júgur allra kúa á Melum. Mjólkaði mikið en mjólkin ekki feit - þætti líklega gott núna.
7. Hyrna - kýr sem pabbi átti, við vorum hrædd við hana vegna hornanna.
8. Surtla - stór og feit svört hæna sem átti að heita að ég ætti. Hún slapp einu sinni inn í garðinn hennar mömmu en ég ákvað að leyfa henni að vera þar af því að þetta var mín hæna. Fékk litlar þakkir fyrir.
9. Toppa - hæna Ingunnar. Um hana orti Ingunn: Toppa bjáni liggur á/gaman sjá. (Kannski varð hún, þ.e. Toppa, eftirminnileg þess vegna.)
10. Strútur - hundur pabba, man aðallega þegar hann dó eftir að Hafsteinn á Fögrubrekku keyrði yfir hann, og við systurnar urðum ægilega sorgmæddar. Hann var svartur og hvítur, kynið líklega að mestu leyti íslenskt.
11. Snati - arftaki Strúts. Heldur leiðinlegur hundur og gat jafnvel glefsað í krakka. Það spillti reyndar fyrir öllum kærleik okkar á hundum að mamma var alltaf skíthrædd um að við fengjum af þeim sullaveiki og að þeir bitu okkur. Sömuleiðis var hún hrædd um að hestar slægju okkur og það hefur kannski átt sinn þátt í að við urðum ekki mikið hestafólk sjálf, systkinin. Mig minnir að Ingunn sé höfundur þeirrar kenningar að Lilla hafi borið hestaáhugagenið úr pabba yfir í Hallveigu.

Web Counter

3.11.06

Haust í Hrútafirði

Haustið er óvenju rauðbrúnt núna. Það sögðu frænkur mínar mér fyrir mánuði og ég sé það enn. Það hefur verið hlýtt miðað við árstíma og lygnt. Mikið í ánum, Hrútafjarðará var að leysa af sér skarir meðfram bökkum þegar við komum í fyrradag og Ormsá er eins og ólétt kona, slík er reisn hennar mont og fyrirferð þar sem hún geysist niður í móðurána. Himinninn hefur sjaldan verið breytilegri, öll blæbrigði af blágráu og svo sjaldgæf gyllt augnablik saman við ljósblátt þegar maður heldur í tíu mínútur að nú sé hann að draga upp í frost og stillur, en svo kemur allt í einu grár bakki úr suðri sem gerir út af við þá trú.

Auðvitað dró ég fram vatnslitina. Reyndi að mála eftir aldeilis ágætri ljómynd sem ég tók fyrir nokkrum árum hér norður og austur eftir túninu af húsinu. Skemmst er frá að segja að ljósmyndin er í alla staði betra verk. Ég ætlaði að farga vatnslitamyndinni hálfkláraðri en leyfði henni að þorna meðan við brugðum okkur á Hvammstanga í sund. Þegar ég kom til baka fylltist ég ofmetnaði og kláraði verkið og skellti meira að segja í ramma, fyrir ofan mynd eftir Svein Þórarinsson, sem var alvörumálari. Þá varð fyrst ljóst hvað þetta er átakanlega vont verk. En - þá mundi ég það sem Guðbergur sagði einhvern tíma, eitthvað í þá veru að texti ætti að vera þannig að ljóst væri hversu erfitt höfundur hefði átt með að semja hann, sem sé ekki fallegur. Einmitt þannig er myndin mín.

Á Hrútatunguflötunum getur að líta alveg óvenjulega litasamsetningu: hálmgula sinuna í bland við skærgrænar nýræktirnar. Kannski hef ég bara tekið eftir þessu vegna nýtilkominnar listiðkunar, en fallegt og sérkennilegt er það.

Í lokin: Bókmenntagetraun: Hver sagði: "Það sem ég legg mesta áherzlu á og hygg, að hjálpi manni bezt í baráttu lífsins, er að hafa góðar endurminningar frá æskuheimilum sínum. Það hefir líklega meiri áhrif en flestir halda eða hafa tekið eftir."

(Melafólk skal halda aftur af sér fyrst í stað með svör.)

Web Counter